Plötudómur: Mount Kimbie – Maybes EP (Hotflush)

Mount Kimbie
Maybes EP
HF021
Hotflush
Dubstep / Electronica
4,5/5

Í síðustu viku var ég eins og oft áður að kvarta og kveina á Huga. Að þessu sinni var það yfir vaxandi tilhneigingu íslenskra danstónlistaraðdáenda til þess að sleppa því að nefna plötuútgáfur í upptalningum sínum (til að mynda í lagalistum fyrir syrpur og í topp listum sínum). Einhver svaraði því til að plötuútgáfur skiptu ekki máli fyrir hann eftir mp3 væðinguna en því verð ég að vera algerlega ósammála, ef eitthvað er gegna útgáfufyrirtæki enn mikilvægara síu-hlutverki í því upplýsingaflóði sem fylgir stafrænu byltingunni. Þetta er að sjálfsögðu efni í pælingar-færslu sem ég mun kannski púsla saman einhvern tíman síðar, en þetta eru líka góð inngangsorð að þessum plötudómi þar sem um er að ræða fyrirtaks skífu sem hefði sennilega algerlega farið framhjá mér ef ekki væri fyrir útgáfufyrirtækið sem stendur að henni.

Hotflush er útgáfufyrirtæki Scuba, bresks dubsteppara, sem flutti sig nýlega um set til Berlínarborgar. Á vegum Hotflush hefur Scuba teigt og togað dubstep hugtakið í ýmsar áttir, fyrir skemmstu fékk hana technobolta héðan og þaðan til þess að véla um remix á breiðskífu sinni Mutual Antipathy en með því að gefa út frumraun dúósins Mount Kimbie gengur hann jafnvel enn lengra. Er þetta dubstep? Ég er ekki viss, kannski, en samt eiginlega ekki. Hvað er þetta þá? Aftur er ég ekki alveg viss.

Í slíkri óvissu verður maður að draga fram einhverjar tilvísanir og tengingar sem manni finnst viðeigandi. Hljóðheimurinn er í anda Four Tet og Fridge á tímum finnst mér, taktarnir eru framandi og í anda Shackleton, loks minnir notkun vókala og söngs mig soldið á Animal Collective m.a. í því hvernig söngurinn virðist liggja tónlistinni að baki og skína óljóst í gegnum hana eins og draugaraddir. Á óljósari hátt verður manni hugsað til Boards of Canada og annara Warp banda og íslensk ökt eins og Múm og Klive koma einnig til greina. Hugsanlega mætti kalla þetta post-rock skotna elektróník.  Svona gæti ég haldið áfram en ég er hvorki viss um að allir yrðu sammála mér né um að tengingar mínar séu “réttar”, vegna þess að þessi skífa passar ekki nákvæmlega inn í þá flokka og merkmiða sem að eru á mínu tónlistarlega þekkingar- og þægindasviði.

Snúum okkur að tónlistinni, Mount Kimbie gera opna og víða raftónlist, lífræn hljóð eru aftengd uppruna sínum með lúppum og endurtekningum og kallast á við rafrænari tóna, bergmál og skruðningar liggja yfir öllu saman og óskýr og óskiljanlegur söngur ómar að handan. Þetta er ekki danstónlist, a.m.k. ekki fyrir þá dansstaði sem ég sæki heim. En þetta er falleg og örlítið melankólísk tónlist til heimahlustunar eða í göngutúrinn, svolítið vetrarleg og því viðeigandi að hún rati í verslanir á köldustu mánuðum ársins. Titillagið “Maybes” fer í gang með einföldu rafmagnsgítar riffi sem bergmálar einmannalega þangað til letilegur takturinn sem hljómar líkt og hann sé leikin á eitthvað allt annað en trommur fer af stað. Upp pitchaðar raddir eru bjart mótvægi við gítarinn og detta inn sem laglína yfir grunninn sem hann leggur.

“William” hefst á skruðningum sem hljóma líkt og lagið sé leikið af gamalli mikið spilaðri plötu, píanó- og strengjahljómar bergmála fram og aftur og eru klipptir sundur og saman líkt og hoppað sé fram og aftur í tónverki. Letileg bassatromma dettur svo inn og kringum hana er skemmtilegur taktur ofin úr hinum ýmsu umhverfishljóðum. Stuttur ógreinanlegur söngkafli kemur dettur skyndilega inn og út, í óvæntri fráveru sinni bergmálar hann aftur og aftur í huganum út lagið.

Í “Taps” koma Shackleton tengslin sem ég minntist á fram, taktar og tónar mætast og takast í einskonar keppni. Samskonar taktaleikfimi er áberandi í “Vertical”, feedback skotinn og hrjúfur synthi hittir fyrir ónákvæman ásláttarhljóðfæraleik og í seinni hluta lagsins mynda þau í sameiningu grunn undir melódísku en barnalegu hjali sem lúppar út næstu mínútur.

Þótt þessi skífa kunni að liggja í dubstep hraða, í kringum 140 bpm, efast ég um að hún muni mikið rata í spilun hjá plötusnúðum þess geira. Ég er hins vegar viss um að þetta er fyrirtaks elektrónísk tónlist og að hún hefði að öllum líkindum farið fram hjá mér ef Scuba hefði ekki fundið henni heimili á Hotflush. Í því sannast hvaða hlutverki góð útgáfufyrirtæki gegna með því að taka upp á sína arma góða tónlist, sem þeir telja að eigi erindi til hlustenda sinna jafnvel þótt þar sé sveigt framhjá þeim stefnum eða geirum sem útgáfufyrirtækin eru alla jafna tengd við.

-Karl Tryggvason  | ktryggvason@gmail.com

Tóndæmi
Juno Player

Kaupa
plötu: Juno | Phonica | Boomkat
mp3: Beatport

Mount Kimbie á Myspace

2 athugasemdir við “Plötudómur: Mount Kimbie – Maybes EP (Hotflush)

  1. hmmm þegar ég les yfir dóminn hérna veit ég ekki hvort þetta er það besta eða versta sem ég hef skrifað á þessa síðu. Að lýsa tónlist á íslensku getur verið svo tilgerðarlegt eitthvað…. nettur aulahrolls Atla Bolla fílingur…

    Stend samt við það sem ég segi og þar sem þetta er fyrirtaks skífa er vel vert að vekja athygli á henni hérna.

  2. Þessi plata er hreinn Unaður !

    Og þessi skrif þín Kalli eru bara ekki slæm at all ekki gera lítið úr þér Kalli minn !! 😉
    Eina sem að eg sá slæmt þarna var nafnið Atli Bolla !!!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s