Simon Reynolds er breskur blaðamaður/gagnrýnandi/rithöfundur sem hefur verið að skrifa um tónlist og í meira en tvo áratugi. Hann hefur m.a. ritað og sett saman hina stórskemmtilegu bók Energy Flash (bandaríska útgáfan heitir Generation Ecstasy) sem fjallar um stefnur og strauma í danstónlist á 10. áratugnum.
Upp úr skrifum Reynolds varð til hugtak sem hefur hlotið nafnið „the hardcore continuum“ (sem mætti snara hallærislega yfir á íslensku sem harðkjarna samfelluna). Þetta hugtak eða kenning er í raun og veru leið til þess að skilja þróunina í breskri dans- og raftónlist síðustu 20 ár, frá acid house yfir í hardcore og svo áfram í dark/ragga/jungle, drum & bass, 2step/uk garage, 8bar/grime, dubstep og funky house. Þessar stefnur eiga margt sameiginlegt, tónlistarlega, samfélagslega og menningarlega séð. Tónlistin er smíðuð í tölvum og tækjum, oftast er þetta funktional danstónlist búinn til fyrir klúbba og reif, byggir á sömplum osfrv. Þessi tónlist á rætur sínar að rekja til Lundúnaborgar, oftar en ekki til fátækari svæða og samfélagshópa, henni er dreift í litlum og sjálfstæðum plötubúðum, spiluð á reifum og á pirate útvarpsstöðvum og á margt sameiginlegt með hljóðkerfa menningu Jamaíka (mikill bassi, áhersla á hátt en gott sánd, dubplates, dj’ar og mc’ar spila saman osfrv.)
Auðvitað er þetta bara kenningasmíð, hún nær engan veginn að fanga öll smáatriði og er eins og flestar kenningar smíðuð eftirá. Þá er hún líka gölluð að mörgu leiti og skilur ýmsa þætti útundan. Hvað með aðra hluta Bretlandseyja? Hvað með umheiminn allan? Hvað með samspil stétta (lág- og milli-)? Er gert of mikið úr hlut eiturlyfja? Of lítið? Þá eru uppi raddir um að þetta hugtak hafi verið togað og teygt og sé alltof vítt og að það sé villandi að fella allar þessa þróun og sögu undir það. (Hér og hér er t.d. verið að deila á hugtakið á tónlistarnörda spjallborðinu Dissensus.)
Því bætir kenningin í sjálfu sér kannski litlu við tónlistina. Engu að síður er þetta skemmtileg leið til þess að líta á tónlistarsögu síðustu ára, til þess að sjá tengingar, sameiginlega þætti og þróun. Þá er minn innri fræðimaður hrifinn af því að greina og gagnrýna listir með þessum hætti og gaman að fræðasamfélagið einbeitti sér ekki eingöngu að „hámenningu“. Auk þess má færa rök fyrir því að Reynolds hafi fært umræðuna um þessa tónlist upp á nýtt plan.
En tilefni þessarar færslu er greinarsafn sem tónlistarblaðið The Wire hefur sett upp vegna væntanlegs fyrirlestrar Reynolds í Liverpool. Skemmtileg lesning í sjö hlutum, mikið pælingarúnk en aldrei leiðinlegt eða langdregið. Mæli með þessu (linkar á hluta: 1, 2, 3, 4, 5, 6, og 7).
Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com
Bakvísun: Fræðimenn og fyrirlestrar « Raf- og danstónlist á Íslandi