Í Morgunblaðinu í gær skrifaði Arnar Eggert Thoroddsen grein sem bar heitið “Hin sígilda síbylja”. Tilefni greinaskriftanna voru orð sem Þorgerður Ingólfsdóttir lét falla á Íslensku tónlistarverðlaununum þegar hún tók við heiðursverðlaunum fyrir hönd föður síns, Ingólfs Guðbrandssonar. Úr orðum Þorgerðar las Arnar Eggert hugmyndir um tvískiptingu tónlistar (og menningar og lista almennt) í æðri og lægri listir og bætti við að ekki væri „hægt að draga aðra ályktun af orðum Þorgerðar en að hæfileiki okkar í dag til að meta og skilja töframátt tónlistarinnar sé að einhverju leytinu skertur vegna „síbyljunnar“, væntanlega þess popprusls sem dembt er yfir mann og mús linnulaust frá morgni til kvölds “.
Einhverjir hafa bent á að Arnar Eggert virðist hafa misskilið orð Þorgerðar, hún hafi ekki verið að setja út á poppsíbyljuna sem slíka heldur frekar síbylju almennt, það er að segja þá staðreynd að tónlist dynji á eyrum okkar öllum stundum, uppfyllingarefni sem sífellt liggur í bakgrunninum á kostnað þagnarinnar. Þegar tónlist umlýkur okkur á þennan hátt séu tengsl okkar við hana ólík þeim böndum sem fyrri kynslóðir tengdust tónlistinni. Þetta er í sjálfu sér góð og merkileg pæling, af henni spruttu fróðlegar og skemmtilegar umræður og það á Eyjunni af öllum stöðum (mjög forvitnilegt þetta um rispuðu plöturnar í safni Ríkisútvarpsins, mig langar í “bannað að spila” RÚV límmiða). Dr. Gunni lagði svo meinhæðið og kalhæðnislegt orð í belg í Fréttablaðinu í dag.
Ég er eiginlega sammála Dr. Gunna um umburðarlyndið, póst módernískt plat umburðarlyndi er þreytandi, það er skemmtilegra að takast á um skoðanir á lifandi hátt, jafnvel hnakkrífast við menningarpostula. Það er þó ekki það sem mig langar að koma að hér heldur vil ég vekja athygli á annari tvískiptingu eða tvíhyggju sem ég held að liggi leynt og ljóst að baki skrifum Arnars Eggerts og annarra íslenskra dægurtónlistarskríbenta.
Ég held að ég geti tekið undir það að skilin milli hámenningar og lágmenningar hafi verið að færast, breytast og jafnvel að mást út á síðustu áratugum. Þó held ég að önnur lúmskari skil hafi risið í staðinn, skil sem rista jafnvel dýpra og hafa bæði meðvitað og ómeðvitað mikil áhrif á umfjöllun og umræðu um tónlist og aðra menningu.
Á ég þá við fyrirbæri sem hefur verið kallað rokkismi. Í stuttu máli er rokkismi hugmyndafræði sem gerir ákveðinni gerð tónlistar og ákveðinni gerð tónlistarmanna hærra undir höfði en öðrum. Rokk og rokktónlistarmenn eru upphafnir, fagurfræðileg viðmið þeirra eru í hávegum höfð og haldið uppi sem staðli. Rokkið er ekta, rokkið er hreint og óspjallað af ýmsum þáttum sem spilla annarri dægurmúsík. Rokkið er alvarlegt, tekst á við alvöru viðfangsefni, rokkarar þroska og leggja áherslu á snilligáfu sína í tónsmíðum sem og hljóðfæraleik. Þetta er frekar karllægt viðhorf og jafnvel litað öðrum fordómum. Frekari fróðleik um rokkisma má t.d. finna hér, hér og hér.
Í erlendri tónlistarblaðamennsku hefur farið fram uppgjör við rokkisma eða í það minnsta umræður um hann, en hér heima hefur ekki borið mikið á slíku. Enda lita þessi viðmið enn mikið af tónlistarumfjöllun heima, t.a.m. hvernig tekist er á við popp og aðra “indie/underground” tónlist eins og t.d. rapp, raftónlist og danstónlist. Ég hef áður minnst á þetta á blogginu mínu en þetta á sér ýmsar birtingamyndir þar má t.d. nefna hvernig sama greinin hefur verið skrifuð 300 sinnum um íslenskt rapp (áhersla á tengsl við rímnahefðina og snilligáfuna í textasmíð), hvernig danstónlist er oft afskrifuð af því að það er erfiðara að takast á við hana út frá viðmiðum rokk tónlistar og af því að pennarnir hættu að fylgjast með henni og lýstu yfir dauða hennar á 10. áratugnum og loks hvernig fjallað er um hreint popp á allt öðrum nótum en rokkmúsíkina.
Auðvitað eru þeir blaðamenn sem fjalla um tónlist á Íslandi mismunandi og með mismunandi áhugasvið og áherslur, þeir hafa fjölbreytan smekk og víðtæka þekkingu. Eins og margt annað á Íslandi eru skrif þeirra ekki í samhengi við fólksfjölda landsins og eiga þeir lof skilið fyrir ýmislegt. En ég held engu að síður að það sé óhætt að fullyrða að rokkismi gegnsýri viðhorf þeirra að mörgu leiti. Í því ljósi held ég að það að líkt og Arnar Eggert gerir „lágmarkskröfur um skilning, virðingu og jafnvel opinn huga“ til snobbaðra talsmanna hámenningar væri eðlilegt að höfða með sama hætti til rokkviðhorfa tónlistarspekúlanta Íslendinga.
Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com
Fer rosalega í taugarnar á mér þegar fólk sem hefur ekki hundsvit á hlutunum er að tala eins og það viti mest og best.
Ég elska að sjá umfjallananir um dj´a í mogganum.
Magnusfelix elskar moggabloggara líka.
„Fer rosalega í taugarnar á mér þegar fólk sem hefur ekki hundsvit á hlutunum er að tala eins og það viti mest og best“
Atli Bolla????
Held reyndar að þetta sé ekkert fáfræði, heldur frekar fordómar og skilningsleysi. Kannski bara blanda af öllu þrennu og svo persónulegum smekk.
Það er reyndar ekki það sem angrar mig, ég er ekki að gera kröfu um að menningarskríbentar landsins þekki alla geira neðanjarðartónlistar inn og út. En mér finnst lágmark að þegar þeir velja að fjalla um þannig tónlist, segja frá henni eða takast á við hana þá sé það ekki gert í hroka eða vandlætingu, sem er því miður allt of oft raunin.
Afhverju hefur þú annars svona mikið horn í síðu Atla Bolla Andri?
„Afhverju hefur þú annars svona mikið horn í síðu Atla Bolla Andri?“
hahahah hvar á ég að byrja……
Fáfræði… veit ekki – held að það sé hugtak sem passi ekki þarna inn. Ég er hinsvegar ekki að neita tilvist rokkisma 🙂
já eins og ég segi það er kannski minnst það að þetta fólk sé illa að sér. Frekar að persónulegar skoðanir, smekkur og fordómar fái að skína í gegn þegar fjallað er ákveðnar stefnur (danstónlist, hip hop etc…) á meðan önnur tónlist fær hlutlausari meðferð.