Gott sánd? – Óli Ofur um hljóðkerfi

Það ættu flestir dansaðdáendur Íslands að kannast við Óla Ofur, hann er einn af virkari plötusnúðum þjóðarinnar en auk þess hafa sennilega ófáir séð kappan að eiga við hátalarastæður eða tvíka mixera því að Óli Ofur á og rekur sitt eigið hljóðkerfi, Ofur Hljóð.

DansiDans hefur, eins og margir aðrir, mikin áhuga á hljóðkerfisfræðum en það er ekki fyrir óinnvígða að skilja allt sem að því tengist. Því plötuðum við Óla í stutt viðtal um ýmislegt sem snýr að hljóðkerfum, hátölurum, mögnurum og öðru tengdu.


l_b6ec7dbfd38de9dcce0ff19afdb8afae
Óli Ofur

Hvernig endaðir þú með því að starfrækja Ofur hljóðkerfi? Hverjar
eru áherslunar hjá þér og hver er núverandi tækjakostur?
Við félagarnir vorum oft að spila á stöðum þar sem ekki var hugsað um hljómburð, þannig að með áhugann á góðu danssándi byrjuðum við að sanka að okkur hátalaraboxum, ég endaði á að kaupa allt af þeim afþví að ég var mest að brasa í þessu held ég. Svo kom bara eftirspurn eftir leigu og ég ákvað að stofna fyrirtæki í kringum þetta svo ég þyrfti ekki að vera hræddur við að skattmann tæki mann, og svo líka náttúrulega til að getað unnið upp í draumahljóðkerfið.


Áherslurnar eru helst þær að stækka fyrirtækið hægt og rólega þannig að einn daginn geti ég haft þetta að aðalatvinnu. Í dag á ég slatta af hljóðdóti og ljósum, hvet áhugasama að skoða tækjalista á myspace.com/ofursoundsystem en í stórum dráttum þá er þetta hljóðkerfi sem gæti gert ágætis ball, með monitorum, nokkrum mækum og fleiru, svo á ég ljósaborð og soldið af ljósadóti, m.a. öflugustu lasera landsins.

Hver eru framtíðarplönin hjá Ofur Hljóði? Ætlarðu í Funktion One?
Sko, ef ég ætti fullt af peningum til að ráða til mín fólk til að halda á öllum þessum kílóum af hátölurum, kaupa nógu stóran flutningabíl og til að kaupa nógu stóra geymslu.. já þá færi ég mjög líklega í Funktion One, en þar sem ég er yfirleitt einn að brasa í þessu, þá hef ég mest verið að horfa til D&B Audiotechnik. Þessi tvö kerfi eru að einu leiti alveg á sitthvorum endanum í því hvernig á að fá gott hljóð, Funktion One vilja að hljóðmerkið sé unnið sem allraminnst, og leggja þá meira í að láta boxin sjálf sánda. Það gerir það að verkum að þau verða stór og þung. En D&B hafa komist einna lengst í því að vinna merkið, þeir framleiða bæði hátalara og svo magnara sem þeir láta passa vel saman, þannig ná þeir að gera fyrirferðarminni box. En þetta eru ekki einu kerfin sem maður er að pæla í, önnur eru t.d. frá Turbosound (stofnendur Funktion One stofnuðu Turbosound á sínum tíma) eða Martin Audio (Fabric, Ministry of Sound o.fl.)

Funktion One StæðaFunktion One Stæða

Er einhver eðlismunur á hljóðkerfi fyrir skemmtistaði / tónleika / klúbba og svo græjum eins og þeim sem flestir eru með heima hjá sér? Er einhver munur á hljóðkröfum fyrir danstónlist og aðrar stefnur / geira?
Það er ekki alltaf eðlismunur, stundum eru þetta bara eins og kraftmeiri útgáfa af stofuhátölurum, en tildæmis eru algengustu tweeterarnir svokallaðir compression drivers, þeir eru með mikið betri nýtni en flestir paper cone hátalarar (hátalarakeilur), en þeir hafa þann galla að þeir bjaga hljóðið yfirleitt soldið í leiðinni.

Og munur á hljóðkröfum.. jú vissulega, ég vil meina að danstónlistarcrowdið geri meiri kröfur á sjálft hljóðkerfið, það þarf að þola allan þann bassa sem dantónlistin pumpar út.. og þarf líka að skila öllu réttu og þægilegu, má ekki skera of mikið í eyrun og þarf að hreyfa innyflin aðeins. Svo er það t.d. rokk/live staðir þar sem fólk gerir líka alveg kröfur til kerfisins, en þar er það kanski meira blastið og hljóðmaðurinn sem eru stærri partar af kröfunum. Í rokkinu eru það líka algengt að kröfurnar komi frekar frá tónlistarmönnunum, og þá sem kröfur um monitorsound, þ.e. að að þeir heyri nógu rosalega hátt í sjálfum sér án þess að það fari að feedbakka (svona óvært rokkvæl sem heyrist stundum á tónleikum)

Geturðu frætt okkur aðeins um grunnhugtökin í hljóðkerfafræðum? Wött, desibel, ohm og svo framvegis, hvað þýðir þetta og skiptir það máli?
Þetta er nú að verða helvíti fræðilegt allt saman.. en jú wött, það er mælieiningin sem flestir sölumenn nota til að selja hátalara og magnara, ég heyrði eitt sölutrikk einusinni.. „sko þetta heimabíó hér er 500 wött, en þetta hérna er 1000 wött.. þessvegna er það helmingi betra!“ en sannleikurinn er töluvert flóknari en svo. Ef við ætlum bara að tala um hávaða (deciBell eða dB), þá eru hátalar mis nýtnir, 500 w hátalari með nýtni 96 dB (hljóðstyrkur miðað við 1 watt af hljóði inn og hlustað í 1 meters fjarlægð frá hátalara) ætti að skila sama blasti og 1000 w hátalari með nýtni 93 dB! þannig að stæstu notin sem ég hef fyrir watta tölur er til að para saman hátalara við magnara.


Ohm er svo mælieining fyrir hindrunina (viðnámið) sem rafmagnið verður fyrir. Setjum upp praktískt dæmi: Magnari er gerður til að tengja við hátalara sem eru á bilinu 2 – 8 ohm. Hann er gefinn upp 1000 wött m.v. 2 ohm. Ok ef við tengjum svo 4 ohm hátalara við magnarann þá getur hann ekki gefið út nema 500 wött.. ástæðan er sú að hátalarinn sem við tengdum við er með tvöfalt meira viðnám en ef við hefðum verið með 2 ohm hátalara og þ.a.l. rennur helmini minna rafmagn frá magnaranum. Og ef hátalarinn væri 8 ohm, þá ætti magnarinn að sama skapi ekki að getað skilað nema 250 wöttum útí hátalara. Við hugsum okkur gott til glóðarinnar og tengjum 1 ohm hátalara við og ætlum okkur að getað tekið 2000 wött útúr magnaranum, en nei við endum með ónýtan magnara afþví að hann er hannaður með ákveðna mótstöðu í huga.

Annað hugtak er Hertz (Hz) sem er mælieining fyrir tíðni, bassi er lágtíðni og eftir því sem bassinn er dýpri er Hz talan lægri.. 30 Hz er tildæmis helvíti djúpur bassi, og flestir heyra ekki mikið hærri tíðnir en 16 kHz (k stendur þá fyrir þúsund)

Og hver var spurningin aftur.. jú skiptir þetta einhverju máli? Fyrir tæknimanninn skiptir það máli. Fyrir fermingarstrák, ömmu eða heimilisfaðir, nei, skiptir engu máli, þau eiga öll að fara út í búð og fá að hlusta á það sem þau hafa áhuga á að kaupa, og meta eftir því hvað þau fýla.

Hvað skiptir mestu máli þegar kemur að góðu sándi? Í hverju felst munurinn á  góðu kerfi og svo kerfi sem er bara öflugt og getur spilað hátt?
Gott sánd er fyrir mér blanda af réttri tímasetningu, réttum hlutföllum tíðnisviða (bassa, miðjubassa, miðju, efri miðju og hátíðni) og svo þarf það líka að vera þægilegt, manni á að líða vel í öllu hljóðinu og má ekki þreytast á því. Og hvað á maður við með því.. jú rétt tímasetning; three way hátalari spilar trommuslag, ef allir þrír hlutar hátalarans spila ekki sinn part á réttum tíma þá verður hljóðið fjarlægt og óskýrt. Rétt hlutföll tíðnisviða segir sig soldið sjálft.. allt þarf að vera til staðar í réttum hlutföllum, rétt hlutföll er svo soldið mismunandi eftir hver hlustar. Svo er það þetta að líða vel í hljóðinu og þreytast ekki.. ein ástæðan fyrir því að þreytast á hljóðkerfum getur tiltæmis verið að compression driver tweeterar eru látnir spila lægri tóna er þeir ráða við, og þá bjaga þeir..

Hversu stórt hlutverk spilar umgjörð hljóðkerfisins (þ.e.a.s. einangrun, veggir, uppstilling hátalara og þar fram eftir götunum)?
Það skiptir helvíti miklu máli, það er ekkert mál að láta gott kerfi sánda illa með því að láta það í rými sem hljómar illa, rýmin geta verið þannig að þau magna upp einhverja ákveðna tíðni (resonate), sérstaklega í bassanum, og þá verður svona búmmí sánd sem yfirtekur allt hljóð. Efni á veggjum spila mikið inní, steyptir geymar eiga það til að óma of mikið, þá endurkastast hljóðið svo mikið að endurkastið (reverb) drekkir öllum skýrleika.

Réttasta leiðin framhjá rýmum sem sánda illa er að leiðrétta rýmið sjálft. Það er hægt að laga eitthvað til með t.d. Equalizer og skyldum tækjum, en það er mikið betra að laga upphaf vandans. Við búmmí bassa er hægt að smíða svokallaðar bassagildrur og ef rýmið ómar of mikið og illa, að þá er hægt að setja hluti inn í rýmið sem brjóta enduróminn upp, eða reyna að eyða honum með því t.d. að setja á veggi eitthvað sem endurkastar ekki hljóði jafn mikið, einhver sagði mér að efni sem draga í sig vatn séu líkleg til að draga í sig óm/hljóð, það held ég að sé ágætis viðmiðun.

Og uppstilling.. toppar (hátalararnir sem eru ekki bassabox) eiga að stefna á hlustunarsvæði. Allir toppar hafa ákveðna dreyfingu sem er gefin upp með tækniupplýsingum um hátarana (t.d. 80×35 gráður), þá getur maður ýmindað sér að maður sé með ljóskastara sem lýsir 80 gráður til hliðanna og 35 gráður lóðrétt og að maður eigi að reyna að dreyfa ljósinu sem jafnast á hlustunarsvæðið, ekki á veggi eða annað þvíumlíkt. Uppstilling á bassaboxum lýtur öðrum lögmálum,  þau eru í eðli sínu nánast alveg óstefnuvirk, og ef maður setur bassabox uppvið vegg getur hljóðið magnast um 6 dB, og ef maður setur bassa í horn getur það magnast um 12 dB, en getur reyndar líka alveg breytt hljóðinu til hins verra.

Annað sem er soldið magnað við bassann er að ef maður er með tvö bassabox á sitthvorum staðnum, þá getur það verið verra en ef maður er bara með eitt í gangi. Þá geta þau nefnilega verið að vinna á móti hvort öðru. Þannig að það er best til að fá sem þéttastann bassa að setja öll bassabox á einn stað, og jafna saman í tíma ef maður er með mörg mismunandi box. Það getur reyndar þurft að setja box á fleiri staði, en þá þarf helst að vera svo langt á milli þeirra að þau séu ekki að hafa áhrif á hvort annað.

Hvað geta plötusnúðar / tónlistarmenn gert til þess að ná sem bestu hljómgæðum þegar þeir stíga á stokk?
Know your limits! Það er svo algengt að plötusnúðar spili hærra en hljóðkerfið þolir.. þá hættir það að sánda (fer að bjaga).. og jú endilega takið hring og athugið hvort að allir hátalarar sem eiga að vera virki og snúi allavega svona nokkurnvegin að dansgólfi.. ég held að það sé ekki mikið meira sem hægt er að gera svona rétt áður en maður stígur á stokk.

D&B StæðaD&B Stæða

Hvernig finnst þér hljóðgæði og hljóðkerfismál á Íslandi almennt vera?
Mér finnst kunningsskapur, look, dílar og sleipir sölumenn vera of stór partur í ákvarðanatöku þeirra sem velja hljóðkerfi inn á staði á Íslandi. Sándið gengur að jafnaði ekki fyrir þó að menn segi að það skifti höfuðmáli.

Hvar er besta sánd sem þú hefur upplifað?
Sándið á Astró sáluga (danssalnum) situr einhvernvegin alltaf í mér. Kerfinu þar var svo splittað um allt hús þegar því var breytt í Pravda, varð ekki jafngott, en samt helvíti fínt.. ég held að við séum ekkert með bestu klúbbahljóðkerfin hérna á íslandi.. því miður.. en ef Ofur hljóðkerfi kemst á alvöru sprett skal ég lofa ykkur því að allavega fyrir rest verði komið það besta.

-Karl Tryggvason | kalli@breakbeat.is

11 athugasemdir við “Gott sánd? – Óli Ofur um hljóðkerfi

 1. Fokk yes Óli.. Ánægður með þetta.

 2. Góð lesning

 3. Einusinni hækkaði ég alltaf allt í botn og bjagaði.

  Síðan ól Óli mig upp.

 4. Góð grein !

  Hljóðkerfismenningin á mjög langt í land en er þó alltaf að skána hægt og (ó)hljótt.

  kv,
  b.

 5. hehehe

 6. óli ofur elti ólar og ól upp landann

 7. leopoldkristjansson

  Já, þessi umræða er mjög mikilvæg því hljóðið getur breytt öllu!

 8. Kalli, hefur Óli ólað þig?

  Við Óli ólumst upp á Akranesi og þar ól hann upp lýðinn og ólaði þá sem ekki sinntu takt.

 9. helvíti góð lesning, fékk smá hausverk en góð var hún samt.

 10. Frábær grein. Mjög fróðleg og góð lesning, meira svona! 🙂

 11. Góð grein, kemur þessu vel frá sér. Gott að fólk sé meðvitað um hljómgæði á stöðum. Ég hef trú á einfaldara = betra í hljóði. Það væri forvitnilegt að prófa vandaða hi-fi magnara (jafnvel lampamagnara) með svona kerfi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s