Plötusnúðaheyrn

Einn af leiðinlegri fylgifiskum þess að vera plötusnúður eða pródúsent er að þróa með sér það sem ég kýs að kalla plötusnúðaheyrn eða plötusnúðaeyra. Fyrir fólk með plötusnúðaheyrn gegnir tónlist öðru hlutverki en fyrir fólk almennt, hlutverki sem tengist starfi eða áhugamáli plötusnúðsins.

Tónlist hættir að vera list sem er einungis til upplýsingar, yndisauka eða skemmtunar og sætir í stað þessi sífelldri greiningu og gegnir öllu hagnýtara hlutverki. Einstaklingur með plötusnúðaheyrn yfirheyrir því sem næst alla tónlist sem hann kemst í kynni við, í hugarskoti hans leynast óteljandi spurningar um tónlistina sem er í gangi.

Þannig spyr plötusnúðaheyrandinn sig hvort það mætti lúppa eða sampla þessu lagi? Á hvaða tempói/bpm er tónlistin? Myndi þetta virka á dansgólf? Ætli það sé hægt að nálgast hana á vínyl? Í hvaða tóntegund er þetta lag? Mætti mixa þetta við aðra tónlist? Og svo mætti lengi telja.


Hlustaðu (mynd e. Alex//Berlin as photography)

Sá sem er með plötusnúðaheyrn er því ávallt að máta tónlistina við plötusnúðahlutverkið, þannig er hætta á því að önnur svið tónlistarnautnarinnar víki og er það miður. Geri ég mér í hugarlund að svipaðar hlutir geti komið fyrir annað „alvöru“ tónlistarfólk.

Athugið að ég er ekki að halda því fram að plötusnúðar njóti ekki tónlistar, að þeir hafi ekki gaman af henni eða þyki ekki vænt um hana. Heldur að starf þeirra geti gert það að verkum að þeir nálgist og hlusti á tónlist með öðrum og minna „hreinum“ hætti. Að það hvernig plötusnúðar „hagnýta“ tónlistina hafi varanleg áhrif á hvernig þeir neyti hennar. Því held ég að það sé verðug áminning til plötusnúða að skilja plötusnúðaeyrun stundum eftir, að reyna að setja minna funktíónal þætti tónlistarinnar í fyrsta sæti og njóta hennar á hreinni hátt. Spyrja sig frekar að því hver hafi verið ætlun tónskálds, hvaða tilfinningar er verið að tjá og hvaða tilfinningar vakna í brjósti manns sem hlustanda. Nú eða að sleppa spurningum og greiningum og hlusta bara. Það er gott að hlusta.

-Karl Tryggavson | ktryggvason@gmail.com

7 athugasemdir við “Plötusnúðaheyrn

 1. Mikið til í þessu. Ég man mjög vel eftir því þegar ég byrjaði að semja tónlist að upplifun mín á lögum ger breyttist. Ég fór sjálfkrafa að heyra alla þætti sem mynduðu heildina frekar en að heyra bara eina heild eins og ég gerði áður. Þetta varð einna verst þegar ég fór að fikta mikið í töktum og skar þá alveg niður í öreindir. Þá fór maður að heyra hvert einasta slag-hit og hvað partur af trommu kitti það væri.

  Sem betur fer hefur maður náð að temja sér að stíga aðeins frá þessu og sjá heildina meira en partana en ég næ þó aldrei að upplifa tónlist á sama hátt og ég gerði áður. Ekki að þetta sé slæmt þar sem ég upplifa alveg enþá tilfinningunni í lögum en maður veltir oft fyrir sér hvernig maður hefði upplifað lög áður fyrr.

 2. Skemmtileg grein. Ég hef tekið eftir því að ég sjálfkrafa tel niður í kaflaskipti ( eins og t.d. eftir 16 takta).

  Líka að stuttu eftir að byrjaði búa til tónlist af ákafa sá ég þetta sem mun meiri list heldur en áður. Sérstaklega í raf- og danstónlist þar sem nýjar hugmyndir eru mun auðveldari í framkvæmd.
  Annars held ég að það sé voðalega lítið hægt að gera við þessu „heilkenni“. Bara að hafa hugan við eitthvað annað meðan þú hlustar heh

 3. Já skemmtileg lesning Kalli,
  maður gerir þetta sjálfur

  Heyrir eitthvað lag og fer ósjálfrátt að setja það inni einhverjar „kategoríur“
  og spá í hvaða gæti passað að mixa við það og hvaða lag gæti verið flott sem follower up o.sfr

 4. leopoldkristjansson

  Þetta er alveg rétt. Ég áttaði mig ekki strax á þessu en þetta er staðreynd. Langflest sem maður heyrir er bútað niður og verður efniviður í eitthvað annað.

  Það sem Ewok segir um aðkomuna að lagasmíðum er sömuleiðis rétt. Nálgun þess sem er plötusnúður til lagasmíða er oftast önnur en þess sem ekki hefur pælt í slíku… og svo öfugt.

  Ég held samt að þetta eigi við um fleiri. Allir sem hafa „sérþekkingu/menntun“ á einhverju sviði sjá sitt svið í öðru ljósi. Ætli bútasaumskonur og -karlar séu í sömu vandræðum?

 5. góð grein, góð lokaorð.

 6. Frábær grein, hef oft velt þessu fyrir mér.

  Þumlar.

 7. svo satt, ég er yfirburðamaður í að telja takt í huganum, get ekki hlustað á tónlist án þess að greina hana í döðlur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s