Verndaðu heyrnina

Flestir sem þessa síðu lesa kannast eflaust við ýmsa fylgifiska þess að hlusta of hátt á tónlist í lengri eða styttri tíma. Hver hefur ekki vaknað “daginn-eftir” með ýlfur eða suð í eyrunum eða bara hálf heyrnarlaus. Öll ættum við auðvitað að vita að þetta er ekki gott fyrir heyrnina né eyrun, og sömuleiðis ættum við að muna að þegar þessi viðkvæmu skynfæri okkar skaddast er sá skaði oftast óendurkvæmur.

Í nafni lýðheilsu danstónlistarunnenda og annara hafði DansiDans því samband við Ellisif Katrínu Björnsdóttur heyrnarfræðing og eigenda Heyrnar sem sérhæfir sig í þjónustu til þess að bæta úr heyrnarskerðingu. Spurðum við Ellisif út í ýmsar sögur og sögusagnir um heyrnarskaða og hvernig maður mætti varðveita heyrnina fram á elli árin.

Farðu vel með eyrun þín (Mynd: Banlon1964)

DansiDans[DD]: Hvað er heyrn?
Ellisif Katrín [EKB]: Heyrn er skynjun en við gleymum oft mikilvægi hennar. Að heyra hljóð eins og tónlist, mal kattar, suð í flugu eða hjal smábarns hefur tilfinningalegt gildi. Að geta haft samskipti við annað fólk er grunnþörf flestra og það sem við lifum fyrir. Án heyrnar er lífið allt annað. Því er mikilvægt að passa vel og vernda þessa fullkomnu en viðkvæmu skynjun.

DD: Hvað er hávaði og hvernig skaðar hann heyrnina?
EKB: Hljóðstyrkur er kallaður hávaði ef hann er það mikill að hann getur skemmt heyrnina. Heyrnarskerðing er einn algengasti atvinnusjúkdómurinn í okkar iðnvæddu veröld.

Verði einstaklingur fyrir miklum hávaða getur hin viðkvæma bygging innra eyrans skemmst. Ef það gerist hefur hann orðið fyrir varanlegri heyrnarskerðingu sem getur bæði orðið af völdum mikils hvells, s.s. sprengingar, og viðvarandi hávaða.

Fólk í dag er mjög ómeðvitað um þær hættur sem of mikill hljóðstyrkur getur valdið á heyrninni. Rangmæli eru á kreik um að ef maður fílar tónlistina þá geti hún ekki valdið neinum skaða. Þetta er alrangt, er svipað og að segja að ef manni finnst eitthvað gott á bragðið að þá sé það ekki óholt.

Hávaði skemmir fyrst skynhárin neðst í kuðunginum en þar er hátíðni greind, efst uppi er lágtíðnin/bassinn greindur og skemmist hann síðast.

Í um 90% tilfella er um skynheyrnarskerðingu að ræða. Orsakir hennar eru oftast þær að hin örfínu skynhár í innra eyranu hafa annaðhvort brotnað eða skaddast. Skynhárin nema hljóðbylgjur og breyta þeim í rafboð sem berast til heilans um heyrnartaugina en heilinn túlkar rafboðin sem hljóð.

DD: Hefur hávaði einhver önnur áhrif á heilsu?
EKB: Hávaði er slæmur heilsunni, líkaminn spennist upp og fer í varnarstöðu, blóðþrýstingur hækkar og að vera í hávaða í lengri tíma veldur mikilli þreytu og minnkar einbeitningu.

Það getur verið háð erfðum hversu mikinn hávaða einstaklingar þola, sumir eru mjög viðkvæmir og hafa lægri sársaukamörk en aðrir. Ekki er hægt að dæma um það fyrirfram hversu mikinn hávaða maður þolir.

Rangmæli eru á kreik um að ef maður fílar tónlistina þá geti hún ekki valdið neinum skaða. Þetta er alrangt, er svipað og að segja að ef manni finnst eitthvað gott á bragðið að þá sé það ekki óholt.

DD: En tinnitus? Hvað er tinnitus og er hægt að lækna það?
EKB: Eyrnasuð/tinnitus er oft fylgikvilli heyrnarskerðingar en það er ýlfur eða sónn í eyrum eða höfði. Eyrnasuðið getur horfið, en er oft sleitulaust eða kemur og fer tímabundið alla ævi.

Hvernig má verjast þessum fylgikvillum hávaðans?
Til eru nokkrar gerðir af búnaði, sem velja má um, til að hlífa heyrninni. Þessi búnaður er mismunandi allt frá hefðbundnum frauð- eða silíkontöppum og heyrnarhlífum, sem loka næstum á allt hljóð, til heyrnarsía sem dempa skaðlegan hávaða án þess að breyta blöndun og tónblæ hljóðsins, þær dempa allar tíðnir hljóðs álíka mikið.

Hjá Heyrn er boðið upp á bæði sérsmíðaðar síur og staðalsíur en báðar gerðirnar er þægilegt að nota. Heyrnarsíur henta vel fyrir þá sem þurfa að verjast hávaða svo sem fyrir stóriðjustarfsmenn, atvinnutónlistarfólk, hljóðmenn, tannlækna, hljómleikagesti, vélhjólamenn, iðnaðarmenn, vélstjóra, flugmenn o.fl.

(Mynd Vísindavefurinn)

DD: Hvaða hlutverk spilar notkun heyrnartóla og vasadiskóa/ipodda?
EKB: Hægt er að finna á netinu rannsóknir sem gerðar hafa verið á heyrn þeirra sem nota Ipod og MP3. Niðurstöðurnar eru ætið þær að heyrnin skemmist við notkun á þessum tækjum. Viðvaranir hafa verið gefnar út allt frá árinu 1980 um skaðsemi heyrnartóla og sérstaklega litlu inn í eyra heyrnartólanna.

Langvarandi notkun spilara og hár hljóðstyrkur skemmir heyrnina. Hlustendur eiga það til að stilla spilara of hátt þegar einhver bakgrunnshljóð eru og geta við það náð sársaukamörkum. Það er betra að nota heyrnartól með spöngum heldur en þau sem fara inn í eyrun. Gallinn er að hlustendurnir eru að hugsa meira um útlitið heldur en heyrnina sína.

Ipod sem seldur er í Evrópu á að hafa innbyggt hámark í spilurunum en gallinn er sá að margir taka það af til að geta spilað hærra. Slíkt ætti engin/nn sem vill halda heyrninni óskemmdri að gera.

DD: Hvaða ráð myndir þú gefa tónlistarfólki og plötusnúðum til þess að forðast þær hættur sem starfsumhverfi þeirra býður heim?

EKB: Þau ráð sem tónlistarfólk og plötusnúðar ættu að hafa í huga er að halda hljóðstyrknum í hófi og vera með heyrnarsíur. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á stjórnendum tónlistar og mikilvægt að verða ekki valdur að því að aðrir verði heyrnarskertir. Mikil lífsgæði tapast þegar maður missir heyrnina.

Verndaðu heyrnina á meðan þú hefur hana!

DansiDans þakkar Ellisif fyrir upplýsingarnar. Því má svo að lokum við bæta að undirritaður fjárfesti í sérsniðnum heyrnarsíum/eyrnartöppum hjá Heyrn fyrir um tveim árum og er það einhver besta tónlistartengda fjárfesting hans undanfarin ár. Allt annað líf að fara á tónleika og skemmtistaði þegar maður hefur þann valkost að “lækka” örlítið í tónlistinni. Mæli hiklaust með því að skoða slíkt fyrir þá sem kenna sér meins vegna hávaða.

-Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com

8 athugasemdir við “Verndaðu heyrnina

  1. shii.. ég þyrfti að setjast niður með henni yfir kaffibolla 🙂

    skaðar bjagað hljóð af ákveðjum styrk meira en óbjagað hljóð af sama styrk?

    ef svo er.. er önnur harmonísk bjögun verri en þriðja harmonísk bjögun?

    skaða háar tíðnir meira en lágar?

    getur verið að það sem ég kalla gott hljóðkerfi og býr m.a. yfir þeim kostum að þreyta mann ekki eins mikið, valda síður hausverk og láta mann líða vel skaði heyrnina síður?

  2. Mega fín grein og góðar hagnýtar upplýsingar hérna.

    Ótrúlega nauðsynlegt að passa vel upp á heyrnina. Ég hef oft verið spurður af hverju ég set stundum puttana í eyrun þegar ég er á klúbbum en eftir áralanga reynslu af tinnitus fann ég sjálfur með mér minn persónulega hávaðaþröskuld. Mæli sérstaklega með því að taka pásur af dansgólfinu eða bara troða puttunum/töppum í eyrun ef að hávaðinn er of mikill eða lagið sem er verið að spila er illa mixað (eins og gerist nokkuð oft á dubstep kvöldum hér þegar plötusnúðar spila eigin lög).

  3. Mjög fín grein og í raun bráðnauðsynleg!

  4. Alveg frábær grein, hvað gafstu aftur mikið fyrir tappana Kalli?

  5. Ég sé 2550 kall fyrir staðalsíu (ER20) sem minkar hávaða um 20db, frekar svít verð ég að segja

    Hinsvegar sé ég engar upplýsingar um frávik á tíðniskalanum en hey, ég er ekki að fara að punga út þrjátíuþúsundkall fyrir tappa…

  6. ég borgaði 18 þús fyrir 15 db síur og sérmótaða tappa. En það er sennilega orðið dýrara í dag útaf genginu og svona, mótin af töppunum voru tekin hér en svo eru þeir steyptir (eða hvað það heitir) í útlöndum. Virðist vera á rúmlega 33 í dag.

    @óli: já það væri kannski ekki úr vegi að fá svar við þessum spurningum. En eins og ég skil þetta er það hljóðstyrkurinn sem skiptir mestu máli, hljóðgæðin virðast ekki skipta svo miklu né hvaða tíðnisvið það eru?

    Það virkar hins vegar einhvern vegin ótrúlegt að hátt pitchað væl skemmi ekki meir heldur en stór og mikill bassi.

  7. Takk fyrir þessa grein. Ég hef talsvert verið að hugsa þessi mál síðustu misseri

  8. Maður á víst líka að nota eyrnatappa ef maður er mikið að synda í köldu vatni….

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s