Eftir lendingu sem á sér stað klukkan tíu mínútur yfir fjögur og mat hjá mömmu sem klárast klukkan níu, hefst Airwaves. Þetta er önnur hátíðin mín og í raun hef ég enga sérþekkingu á því að skrifa tónlistar- eða tónleikarýni, í raun held ég að ég hafi aldrei gert það. En við skulum sjá hvernig þetta gengur. Sökum efnis síðunnar ætla ég að einbeita mér að því að fjalla um það sem fellur undir eitthverskonar danstónlist.
Miðvikudagskvöldið virkaði fremur óspennandi og var því aðallega eytt í reykingarbúri NASA. En uppsteyt gegn lögreglusáttmála Reykjavíkurborgar redduðu kvöldinu á síðustu stundu, slíkt var gert á uppákomunni and-Airwaves. Á Skúlagötunni, gegnt Aktu Taktu, liggja gamlar skrifstofur Kexverksmiðjunnar Frón og á einni hæðinni er búið að koma upp eitthverskonar einkaklúbbi/billiardbúllu (ef þetta eru gamlar upplýsingar fyrir þig þá biðst ég forláts). Það verður að segjast að partýið var frekar gott. Venuið var töff og mér leið nokkurn vegin eins og ég væri staddur í Harley Davidson and Marlboro Man , nema það var spilað house. Tónlistin var grúví og fólk var í góðu stuði. En um hálf þrjúleitið hætti partýið óvænt, ástæðan; herskari af hressum lögregluþjónum. Eftir að hafa bölvað opnunartímum skemmtistaða og beðið eftir því að lögreglan væri búin að leita á öllum viðstöddum, eftir eiturlyfjum sem aldrei fundust, var miðvikudagurinn liðinn.
Fimmtudagurinn á, í raun og veru, ekkert erindi í þessa grein fyrir utan lokin á honum sem eytt var á Apótekinu. Ég verð að segja að mér finnst Apótekið vera frekar undarlegur sem skemmtistaður þar sem maður á að vera dansandi. Þegar maður gengur inn mætir manni undarlega stórt og tómt svæði sem virðist ekki vera til neins annars ætlað en að gefa manni þá tilfinningu að enginn sé inni á staðnum. En aftur að kvöldinu. Breakbeat.is hélt kvöldið, en eins og allir vita er það langlífasta og mest aktíva klúbbakvöld (djöfull finnst mér búið að skemma þetta orð) landsins. Sökum annara plana missti ég af stærstum hluta kvöldsins en mæti þó þegar veiklulegi djinn með flókna nafnið Ramadanman, er að byrja sitt sett. Framan af var stemmingin eiginlega ekkert sérstök og tónlistin fór eitthvað í mig. Mér fannst settið hans byrja aðeins of poppað og sterílt. En eftir því sem leið á kvöldið fór fleira fólk að tínast inn, á sama tíma fór tónlistin að grúva og Apótekið að tryllast. Klukkan sjö mínútur í tólf (ég veit það af því að ég skrifaði það niður) skellti Ramadanman í eitthvað sem ég þekki ekki, en jafnfram eitthvað sem toppaði gjörsamlega. Sett sem mér þótt fara full hægt af stað hafði endað frábærlega.
Föstudagurinn hófst í kaffibolla á Prikinu og þynnku uppi á Njálsgötu. Eftir að hafa skemmt sér við óþreytandi myndlíkinga geðveiki Jeff, var förinni heitið á Berndsen. Berndsen mætti kannski frekar flokka undir neo-eighties popp tónlist, þá er eitt víst, það er hægt að dansa við tónlistina hans. Tónleikarnir voru einstaklega hressir en liðu (eins og svo margir aðrir tónleikar) fyrir hversu ótrúlega stutt slott hljómsveitir fengu til að róta og spila. Því má segja, gott partý sem varði í rétt rúman hálftíma. Ég ákvað síðan að láta mig vanta á Bloodgroup þar sem ég fæ enn illt í hjartað að hugsa til Hróarskeldu 2008, þar sem 2000 Íslendingar enduðu tónleikana á að öskra ,,Ísland, Ísland, Ísland …“. Kvöldið fór svo í tónleika sem seint mætti flokka undir danstónlist.
Laugardagurinn hófst eins og allir hinir dagarnir, fremur illa. En eftir góðan Búllu borgara og bjór var stefnan sett á listasafnið. Mér hefur alltaf þótt listasafnið vera fremur leiðinlegt venue fyrir tónleika. Hljómburðurinn er slæmur og stemmingin virðist, af eitthverjum ástæðum, alltaf vera frekar vandræðaleg. Þar voru tónleikar með dönsku sveitinni Spleen United. Ég ætla ekki að ræða frekar þetta glataða nafnaval, heldur dæma tónleikana sem þeir héldu og tónlistina sem þeir spiluðu. Í stuttu máli sagt þá eru hipstera Danir með yfirvaraskegg að spila hallærislega steríla, alltof þreytta, danstónlist á leiðinlega syntha ekki minn tebolli. Menn með óþol fyrir lélegum enskum textum og orðinu ,,baby“ ættu sérstaklega að halda sig fjarri. En þeir voru allavega í stuði.
Þeir tónleikar sem ég var búinn að hlakka hvað mest til voru tónleikar Hercules & Love Affair. Ég var búinn að vera aðdáandi fyrstu breiðskífu þeirra í þó nokkurn tíma og spurningin sem margir voru að spyrja mig ,,á ekki að skella sér á Robyn?“, var alltaf svarað með ,,veistu, nei“. Það er bara eitthvað við trúverðuleika tónlistarmanns, sem fer frá því að vera frægur fyrir það að keppa í forkeppni Eurovision í Svíþjóð, í að vera ást og yndi hipstera og fólks sem segir ,,ohhh, Airwaves“ , sem ég kaupi ekki. En ég er að fjarlægjast punktinn. Hercules and Love Affair tónleikarnir hófust á slaginu tólf á Nasa og þeir ullu mér ekki vonbrigðum. Undarlegt gengi tveggja klæðskiptinga og jakkafataklæddar lesbíu sá um að fylla skarðið sem Anthony Hegarty, úr Anthony and The Johnsons, skildi eftir sig. Tónleikarnir voru keyrðir áfram á hröðu tempói og voru róleg lög eins og You Belong keyrð upp, til að passa við stemminguna. Tónleikarnir náðu ákveðnum hápunkti í stuði þegar frægasti slagarinn Blind var tekinn. Lögin af nýju plötunni, sem væntanleg er í janúar, virkuðu einnig mjög vel og allt í allt voru þetta topp tónleikar. Eftir það endaði kvöldið á Venue þar sem danska hljómsveitin Reptile and Retard voru að spila eitthverskonar blöndu af pönki og danstónlist. Ég held að besta leiðin til að lýsa þessum tónleikum sé; Johnny Rotten frontar LCD Soundsystem. Restin af nóttinni fór svo í það ómögulega verkefni að reyna að sulla ekki niður bjór á Kaffibarnum.
Allt í allt var þetta frekar skemmtileg hátið. Þrátt fyrir að bjórinn hafi verið dýr, raðirnar oft á tíðum langar og tónleika slottin alltof stutt, þá var margt skemmtilegt í gangi. Einnig mætti vel nefna off venue tónleika með Rabbi Bananas, sem ég sá á Kaffibarnum. Þar heyrði ég Skweee tónlist spilaða í fyrsta sinn og var ég bara nokkuð hrifinn. En ef ég á að ljúka þessu á eitthverju þá er það bara það að mér finnst Airwaves vera flott dæmi og gott innlegg í flóruna, en varla mikið meira en mjög gott laugardagskvöld í Reykjavík.
Elías Þórsson
Skemmtileg dagbók, væri gaman að heyra sögur annara.
„mér finnst Airwaves vera flott dæmi og gott innlegg í flóruna, en varla mikið meira en mjög gott laugardagskvöld í Reykjavík.“ Það er nú ekki skrítið að höfundi hafi fundist það, eftir að hafa lesið þessa dagbók. En áhugavert að gott laugardagskvöld í Rvk sé í raun eins og 5 dagar – stútfullir af tónleikum, erlendum böndum og fullum kellingum.
Skemmtileg lesning, hló að hróarskeldupuntkinum. Ég hef einstaklega gaman að því að fá kjánahroll eða heyra af svoleiðis.
er ekki mjög hrifinn af nálgun þinni á airwaves, persónulega hafði ég alltaf nóg að sjá og þurfti nánast alltaf að velja og hafna. Apótekið þegar oculus, margeir, kenton slash demon og shumi spiluðu var rosalegt kvöld, allavega fyrir mig.
Ég man líka eftir þessu „ísland, ísland,ísland“ á bloodgroup, ég öskraði NEIIIIII í mikilli örvæntingu og hljóp í burtu hehe
Vá hvað þetta voru leiðinleg skrif !!!!
Hví var verið að pósta þessu hér strákar mínir ?
Mér finnst skemmtilegt að fá svona dagbók sem veitir aðra sýn á hátíðina. Í dagbókinni kemur fram flest allt sem ég hef sjálfur upplifað á airwaves, óvæntar uppákomur, tilgerðarleiki , góðir tónleikar, slæmir tónleikar og yfirhöfuð frekar gott partý.
„DansiDans.com – Raf- og danstónlist á Íslandi
Vefsíða tileinkuð íslenskri raf- og danstónlistarsenu.“
haha, ég er sammála Andra.
en gaman að þessu rugli.