Undanfarið hef ég fengið (og þegið) boð í ýmsar tónlistartengdar Facebook grúppur, virðist vera soldið trend um þessar mundir. Þar pósta menn youtube linkum af miklum móð. Að stunda þessar grúppur er soldið eins og að vera í partýi með of mörgum plötusnúðum, flestir eru uppteknari af því að koma sínum eigin plötum að heldur en að hlusta á og/eða ræða tónlistina sem er í gangi hverju sinni (nú eða bara að fá sér snúning). Oft eru lög til að mynda sett á vegginn örar en maður gæti nokkurn tíman náð að hlusta á þau!
Annað merki þessara grúppna er fortíðarþráin, nostalgían, sem oft er ansi sterk. Nostalgían er bundin við mismunandi tímabil, sem þó helst oft í hendur, tímalega séð, við unglingsár þeirra sem grúppuna skipa. Sjálfur er ég alveg svag fyrir fortíðarþrá, en öllu má líka ofgera.
Það er rétt að hafa í huga að það var ekki alltaf allt sjálfkrafa betra þegar maður var yngri, hins vegar var maður yngri þegar maður var yngri… Fáir neita því hversu mikil mótunartími unglingsárin eru og held ég að það eigi við um tónlist eins og allt annað. Tónlist mun sennilega ekki snerta mann aftur á sama hátt og hún gerir þegar maður er fyrst að kynnast henni almennilega, þegar maður fer að sinna músík sem áhugamáli, þegar maður er að móta sér smekk og máta sig við hinar og þessar stefnur. Upplifanir eins og að kaupa sínar fyrstu plötur, fara á sín fyrstu tjútt og ýmislegt annað sem maður gerir í fyrsta (og kannski síðasta) sinn verða heldur aldrei endurteknar né toppaðar.
Í þessu felst þó ekki að sándtrakk þessara ára sé í sjálfu sér eitthvað betra eða verra en tónlist annara tíma. Þegar maður talar um þessa tónlist og ber hana saman við nýrri og eldri tíma er mikilvægt að muna eftir eigin hlutdrægni og minna sjálfan sig á að yfirburðir og sérstæða þessarar tónlistar eru kannski frekar huglægar og einstaklingsbundnar en hlutlægar og almennar.
Sömuleiðis er ekki rétt að afskrifa það sem á eftir eða á undan kom fyrirfram, sérstaklega ef að maður er hættur að hlusta. Hættir þú að hlusta á tónlistarstefnu x af því að þú varst ekki að heyra neitt gott eða ertu ekki að heyra neitt gott úr tónlistarstefnu x af því að þú ert hættur að hlusta?
Getur verið að það sé ennþá verið að gera góða drum & bass músík en þú bara sért ekki að hlusta á hana? Er old school hardcore virkilega fullkomnun raftónlistar eða var það bara sándtrakkið við æsku þína? Hafa mögulega aðrir en MAW gert mjög góða house músík? Er kannski ennþá verið að gera gott hip hop en þú bara hættir að gefa því séns eftir að Wu Tang Forever kom út? Held að margir, undirritaður er þar á meðal, gerðu gott í því að hafa svona spurningar og aðrar líkar þeim í huga í Facebook grúppum sem og annars staðar. Annars er þessi hugleiðing nú bara langur inngangur að youtube mixteipi þessu, hér er tekið á fortíðarþrá og gullaldartímum á ýmsa vegu. Leyfum tónunum að tala sínu máli:.
Abe Duque feat. Blake Baxter – What Happened
Blake Baxter er gamall hundur, í þessu lagi rifjar hann upp gamla tíma og ber þá saman við samtímann. Baxter virðist ekki vera vel við breytingar og þróun tónlistarinnar en þó virðist þetta nú líka vera kaldhæðnisleg gagnrýni á nostalgíu almennt í leiðinni. Glöggir danstónlistaraðdáendur muna kannski eftir dularfullri íslenskri „cover-útgáfu“ af þessu lagi „Hvað gerðist?“ sem var spiluð soldið á klúbbum í fyrra, gaman að því.
.
Cunning Lynguists feat. Masta Ace – Seasons
Rap músík er mikið fyrir að vitna í gullöldina, menn bara eru ekki alltaf sammála um hver gullöldin er. Í þessu lagi stilla Cunning Linguists þróun og sögu hip hop tónlistar upp sem árstíðunum og segja frá sinni upplifun af sögunni yfir takti frá RJD2. Þar teljast 8. og 9. áratugurinn til vors, hlutirnir fara af stað, allt að gerast og við tekur sumarið (gullöldin), 85-95 (give or take?). Eftir það liggur leiðin niður á við, bling, karlremba og rnb taka yfir en að lokum geta þeir félagar þess þó að vor taki við að vetri liðnum. Spurning hvað þeir hafa að segja um hip hop músík í dag (lagið kom út í byrjun síðasta áratugar, 2003 held ég)?
.
Lynx & Kemo – Deez Breaks
Sögustund með Lynx og Kemo, farið yfir þróun hardcore, jungle og drum & bass tónlistarinnar í tónum og tali. Hef gaman af innskotum Lynx en hann laumar sömplum ófáum úr klassíkerum inn í bítið, glettilega vel gert (töluvert betra en klisjukenndur texti Kemo). Þeir félagar hvetja fólk til þess að kynna sér „Deez Breaks“ og tekur dansidans undir það.
.
Fuckpony – Body Movement
Jay Haze tekur hér á sinni fyrstu upplifun af house músík, 909 bassatrommur, 808 snerlar og góð partý. Í dag snýst þetta meira um pólitík að mati Haze, synd og skömm.
.
The Streets – Weak become heroes
Sennilega mitt uppáhalds Streets lag af fyrstu og bestu breiðskífu Mike Skinner. Fjallar kannski meira um stemningu og fíling heldur en tónlist, hveitibrauðsdagarnir með danstónlistinni og e-pillum rifjaðir upp og bornir saman við samtímann.
-Karl Tryggvason | karltryggvason.com
Mikill sannleikur í þessu. Það er eins og fólk finni sér oft „sína“ stefnu á unglingsárunum og það var „alvöru“ tónlist. Þess má geta að þessir sömuaðilar blótuðu oft þröngsýnum foreldrum sem hlusta bara á Bítlana osfrv.
Þessi fortíðar dýrkun á samt stundum rétt á sér þar sem þróun í ákveðnum tónlistarstefnum er oft í öfuga átt miðað við þá hugsjón sem gerði stefnuna upphaflega svona frábæra. Hins vegar er það augljóslega oftast smekksatriði hvers og eins. Það afsakar þó ekki þá skoðun að ekkert sem er í gangi í dag komist nálægt því sem var í gangi í gamla daga. Eins og kemur fram þá er fólk oft hætt að virkilega hlusta á tónlistina og vill bara sitt gamla dót. Það má helst ekkert breytast sem er oft frekar kaldhæðnislegt þar sem margar af þessum stefnum snerust um öra framþróun og koma fólki á óvart.
Það sem mér finnst líka mest miður með þessa fortíðardýrkun er að fólk er ekkert að grafa upp gleymda hluti. Það er ekki veirð að reyna að finna gullmolla sem fóru framhjá flestum. Fólk villa bara sömu gömlu hittarana í öll mál. Persónulega finnst mér fínt að fá einn og einn svona gamlann hittara en mér finnst mun meira spennandi að fá að heyra eitthvað sem ég var búinn að steingleyma eða eitthvað sem fór alveg framhjá mér.
Maður gæti eflaust rantað endalaust um þetta.
mjög, mjög góð grein. virkilega gaman að lesa þetta. er meðlimur í nokkrum svona grúppum. hef gaman af þessu, en get þó ómögulega sagt að ég geti tekið þátt í öllum þessum umræðum, hvort sem um er að ræða fortíðarfíkn, eða bara almennt spjall um einhvern youtube línk. og takk svo, fyrir þessa youtube línka .. var einmitt með netbúðina mína opna og vissi ekki alveg hvað ég ætlaði að versla mér, en fékk nokkrar hugmyndir út frá þessu. snilld.
er svo sammála Ewok gamla, „mér finnst mun meira spennandi að fá að heyra eitthvað .. sem fór alveg framhjá mér.“ ég nefnilega er mikið í því að grafa upp gamla hluti sem fóru alveg framhjá mér, en voru kannski vel straujaðir í eyrum hjá öðrum. persónulega finnst mér það vera æðislegt að finna „týnda gullmola.“
Sammála greinarhöfundi hjartanlega, sem og ofantöldum athugasemdum. Er jú líka í svona grúppum, og kannast vel við hegðunina sem lýst er, þá sérstaklega þessari ath.semd að vera í svona grúppu er eins og að vera í partíi með of mörgum snúðum. Ein spurning kom nú upp hjá einum notanda um daginn hvort að fólk væri í fullri vinnu við að pósta í þá grúppu, slíkur var hraðinn.
En ástæðan fyrir þessum grúppum er jú cýclísk nostalgían, ef facebook og youtube hefðu komið 5 árum fyrr þá hefðum við séð 80’s grúppur þar líka fyrir þá kynslóð.
Það er alveg sama í hvaða geirum það er, það er klárlega verið að gera betri músík í dag heldur en þá. Mér finnst nú nærtækt að taka dæmi úr house-inu – bara í ár hafa komið þvílíkir klassíkerar að ég hef ekki heyrt annað eins í mörg ár. Þannig að það er bara að hlusta, leita og fíla. Nóg er af góða efninu, það er bara þannig í dag að það er svo mikið af tónlist að maður verður að hafa einhverjar ákveðnar leiðir til þess uppgötva nýja dótið ef maður hefur ekki plötubúð (my preference er að hlusta á mikið af settum, og ef það er ekki tracklisti þá hangir maður á forums og finnur tracklistann og reynir að finna vðkomandi lag út frá honum. Mér finnst þetta yndislega skemmtileg iðja).
@Ewok: já þetta á stundum rétt á sér, en þá verður fólk að tala um það á þeim nótum. Dæmi: dnb er orðin verri eftir 1997 þar sem tónlistin er orðin hraðari, uppbyggingin línulegri, taktarnir einfaldari og minna break tengdir og klisjurnar algengari. Eitthvað til í slíkum rökum, og þá er líka hægt að tala um hlutina á málefnalegan hátt, töluvert betri en „dnb dó 1997 af því að tónlistin þá er betri“. Sammála með punktin um að þessi fortíðarþrá er oft bara endalaust anthem bash á sömu klisjunum.
@Ægir: Ég myndi nú heldur ekki endilega segja að öll músík í dag sé betri en sú í gær, það væri bara að snúa rökunnum á koll að mínu mati. Sammála með Dj settinn, podköstin og syrpurnar, bestu leiðirnar til þess að fylgjast með.
Virkilega skemmtileg grein Kalli.
Hef einmitt oft verið að velta því fyrir mér hvað það eru margir sem að voru að hlusta á einhverja tónlistarstefnu á sínum tíma aðallega þó drum&bass,
sem að halda að stefnan sé bara dauð útaf þeir hættu að fylgjast með jafn náið og þeir gerðu á sinum tíma.
Mikið af mínum vinum sem að hlustaðu á dnb koma enn upp að mér í dag mjög hissa þegar að ég spila glænýja dnb tónlist fyrir þá og spurja hvort að þetta hafi einmitt ekki dáið árið 98-99,
Oft þarf ekki nema 1-2 góð lög til þess að „sannfæra“ þá um að svo sé ekki.
Ég hef alltaf haft gaman að heyra í mixum þegar að plötusnúðarnir taka saman tónlist sem að mótaði þá eða hefur haft mest áhrif á þeirra ævi.
Kanski maður hendi bara í eitt slíkt mix á næstunni.