Vangaveltur um vínylsölu

Það var forvitnileg frétt í Fréttablaðinu í síðustu viku um söluaukningu á vínylplötum. Svipaðar fréttir hafa reyndar birst reglulega síðustu ár, þ.e.a.s. óstaðfestar fregnir um aukningu á hlustun á og viðskiptum með vínylinn. Slíkum „fréttum“ hef ég oftast tekið með fyrirvara þar sem þær hafa oftast verið í einhvers konar human-interest-dægurmála fíling og falist í:

1) viðtali við 15 ára frænda blaðamannsins sem síðustu tvær vikur hefur hlustað á gamlar Led Zeppelin plötur sem pabbi hans átti út í skúr
2) stuttu kommenti frá þeirri hipster hljómsveit sem er vinsælust þá stundina sem segist ætla að gefa út á vínyl, því þeir vilji „halda trygð við vínylinn, hann sé svo alvöru“.

Það er ekki mikið að marka slíka fréttir, ég held að í ákveðnum kreðsum sé vínylinn enduruppgötvaður og gleymdur með reglulegu millibili enda stafræn form handhægari á nánast alla vegu.

Old Vinyl mynd: fensterbme

Fyrrnefnd frétt féll þó ekki alveg í þessa gryfju, því fyrir utan að tala við tvo hljómplötusala sem hafa augljósan ávinning af því að tala upp plötusölu minnist blaðamaður Fréttablaðsins á sölutölur frá Nielsen Soundscan sem lýstu 14% aukningu í vínylsölu sem hefur ekki verið meiri síðan 1991. Samkvæmt þessari frétt jókst vínyl sala svo um 33% á árinu 2009 en hér er einnig bent á að mælingar Nielsen hafi hafist árið 1991.

Þetta er áhugavert, fyrir stóru fyrirtækin vegur þetta sennilega seint upp geisladiskamarkaðinn (sem féll um 20% fjórða árið í röð) auk þess sem sala á stafrænu niðurhali hefur tekið á hægjast (1% aukning í einstökum lögum en 13% í heilum breiðskífum).

Ég held að ég fari rétt með að Nielsen haldi aðeins utan um tölfræði í Bandaríkjunum og Kanada, en það má svo sem ímynda sér að svipaðir hlutir séu í gangi á öðrum vesturlöndum. Hins vegar veit ég ekki hvort minni og sjálfstæðar plötuverslanir eru inn í tölunum hjá þeim eða hvort titlar sem gefnir eru út af minni útgáfum fari í gegnum SoundScan skráningu. Ekki geri ég ráð fyrir að notaðar plötur komi á nokkurn hátt inn í þessar tölur, enda sjá útgáfurnar og listamennirnir ekki mikin aur þar, en mjög fróðlegt væri að sjá upplýsingar um kaup og sölu þar.

Free Eighties Vinyl Record Albums Various Musicians Creative Commons Mynd: Pink Sherbe

Samkvæmt frétt á inthemix.com.au voru tíu mest seldu vínyl plötur ársins 2010 eftirfarandi titlar (fjöldi seldra eintaka  í sviga):

Top Ten Vinyl Albums, 1/4/2010 – 1/2/2011
1. The Beatles – Abbey Road (35,000)
2. Arcade Fire – The Suburbs (18,800)
3. Black Keys – Brothers (18,400)
4. Vampire Weekend – Contra (15,000)
5. Michael Jackson – Thriller (14,200)
6. The National – High Violet (13,600)
7. Beach House – Teen Dream (13,000)
8. Jimi Hendrix Experience – Valleys of Neptune (11,400)
9. Pink Floyd – Dark Side of the Moon (10,600)
10. the xx – xx (10,200)

Fjórar þessara platna eru eldri en 20 ára, „Abbey Road“ virðist þar að auki hafa verið í fyrsta sæti í fyrra líka („Valleys of Neptune“ inniheldur gamlar upptökur sem komu formlega út í fyrsta sinn 2009). Hinir titlarnir eru hins vegar frekar indie/alternative skotnir (engin Lady Gaga eða Justin Bieber) sem gefur kannski vísbendingu um hverjir eru helst að kaupa vínylinn. Ég giska á að næstu sæti fyrir neðan séu skipuð á svipaðan hátt, indie bönd og remasterað pabba-rokk í bland, og að talsvert langt sé í danstónlistar smáskífur, breiðskífur og annað plötusnúðafóður. Til fróðleiks má hafa í huga að til þess að koma út á núlli með einfalda vínylútgáfu þarf maður að selja um 3-500 eintök (eða svo skilst mér, sel það ekki dýrara en ég keypti það).

Ef við lítum svo á þennan lista má sjá að vínyl salan á nýjum titlum virðist vera sirka á bilinu 5-11% af seldum eintökum af þeirri breiðskífu í heild á árinu. Vínylinn telur augljóslega eitthvað en langt frá því að skipta megin máli, þótt salan sé að aukast.

Annað sem er forvitnilegt er að þessir tíu efstu titlar vínylsölunar telja samtals um 160 þúsund eða um 8% af þeim  2.1 milljónunum vínyl skífna sem seldust. Ef við lítum á tíu mest seldu breiðskífur ársins (í öllum sniðum ) þá gerir það um 20 milljón eintök, en heildarsala á breiðskífum og lögum sem breiðskífum (track-equivalent albums, TEA, 10 lög=1 breiðskífa) er 443 milljónir. Þar er topp tíu listinn samtals af 4,5% af allri sölu (helmingi minna en vínylinn). Það væri áhugavert að skoða á hversu marga titla öll hin seldu eintökin skiptast, ætli vínylinn myndi t.d. svipaðan „langan hala“ og geisladiskar og mp3?

Önnur áhugaverð spurning er svo hvernig löglegi markaðurinn er við hliðina á hliðina á ólöglegu niðurhali hvað varðar stærðir.

-Karl Tryggvason | karltryggvason.com

p.s. ég fann ekki frumgögnin eða neina heildstæða skýrslu um árið 2010 á Nielsen vefnum, því er þessu púslað saman úr allskyns fréttagúggli, rétt að taka því með fyrirvara. Ennfremur eru útreikningar mínir gerðir í flýti, ábendingar og gagnrýni vel þeginn.

8 athugasemdir við “Vangaveltur um vínylsölu

 1. Flott grein.
  Ég held að það þurfi nú ekkert að selja svo mikið sem 3000 eintök af vinyl til að koma út í gróða. Hjá stærri útgáfum þar sem er eitt miklu í markaðsetningu og hönnun á t.d. umslaga vinyls þarf kannski að selja meira en ég heyrði það að góð sala singla og tólftomma væri 300 eintök og þá líklega og vonandi í einhverjum gróða.

 2. Bakvísun: Vikan er leið (16.-22.janúar) « Samræði

 3. Mjög góð grein.

  Þetta er mjög áhugverð þróun, enda eru plöturnar mun skemmtilegri eign, heldur en CD / kassettur / mp3 / wav, því albúmið og áferðin er lang best og hljómurinn yfirleitt mest kósý fyrir eyrun.

  Svo er spurning ef einhver tæki saman tölur um plötusölur á markaðnum sem selur notaðar plötur, þá væri tölurnar massífar – enda er salan á notuðum plötum eflaust mun meiri en í nýjum. Svo er mikið um að fólk sem tekur við dánarbúum selji frá sér vinyl plöturnar sem enda í einhverjum verslunum (ísland: eins og Góða Hirðinum / kolaportinu) og þar er mikið keypt.

  Svo vil ég fá svar við af hverju Abbey Road með Bítlunum sé mest keypta vinyl platan? Þetta er ekki einu sinni besta Bítla platan – langt því frá. !

 4. Ég var einmitt að velta því sama fyrir mér, með Abbey Road.

  Skrítið líka þegar að það sé verið að selja svona mikið af rípressuðum gömlum klassískum albúmum, þegar að það er svo auðvelt að nálgast þær notaðar. Það væri hægt að finna eitthvað nýtt eða eitthvað annað heldur en svona metsöludót eins og Bítlarnir, Jackson og Pink Floyd til að kaupa.

  Með fullri virðingu fyrir þessum artistum og rípressum. Ég fíla rípressur og kaupi þær gjarnan en aðeins ef að upprunalega pressan er ófáanleg í góðu ásikomulagi, annað en með t.d. Pink Floyd.

 5. Hef alltaf verið hrifinn af Abbey Road, þar sem það var fyrsta (tónlistar)platan sem ég eignaðist. Fékk hana að gjöf frá ömmu minni heitinni þegar ég var 9 ára. Tvímælalaust sú Bítla plata sem mér þykir mest vænt um en kannski ekki sú besta.

  Veit hins vegar ekki afhverju hún var svona vinsæl 2010 og 2009. Var hún remasteruð eða eitthvað slíkt? Finnst líka merkilegt að svona mörg ný eintök hafi selst, hvað ætli séu mörg gömul eintök í umferð 2nd hand (http://www.discogs.com/sell/list?q=abbey+road+beatles&ev=sr) . Bítlarnir fóru reyndar á itunes og í kringum það var mikið húllumhæ, kannski að það hafi skipt máli?

  Ég held að það spili soldið inn í að þetta eru orðin klassískar plötur og inn í svona popp-rokk músík kanon, alltaf einhverjar kynslóðir að uppgötva þetta og aðrir eru enduruppgötva og smella sér á eintak. Finnst það þó pinku lítið sorglegt að mest seldu plötur ársins séu þetta gamlar.

 6. Virkilega áhugaverð grein. Vekur mann til umhugsunar.
  Hef samt engu öðru við að bæta 🙂

 7. @Ingvi
  Karl skrifaði „3-500“ ekki „3-5000“. Eða misskildi ég eitthvað?

 8. @Ragnar
  Ég held að það þurfi nú ekkert að selja svo mikið sem 3000 eintök af vinyl til að koma út í gróða. Hjá stærri útgáfum þar sem er eitt miklu í markaðsetningu og hönnun á t.d. umslaga vinyls þarf kannski að selja meira en ég heyrði það að góð sala singla og tólftomma væri 300 eintök og þá líklega og vonandi í einhverjum gróða.

  Nei þú misskildir ekkert, ég ætlaði að skrifa 300 í bæði skiptin

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s