Plötubúðarýni: Juno

Fólk segir oft við mig á förnum vegi: „Kalli, dansidans.com er frábær síða, en hvar get ég keypt eitthvað af þessari tónlist sem þið eruð alltaf að fjalla um?“. Nei, það er lygi, þessa spurningu hef ég satt best að segja aldrei fengið. En hefði ég fengið hana hefði hún getað orðið kveikjan að lið á borð við þann sem ég ætla að innleiða með þessari færslu, plötubúðarýni.

Í plötubúðarýni er ætlunin að taka fyrir tónlistarverslanir, hliðrænar og stafrænar, í netheimum og raunheimum, renna yfir kosti þeirra og galla, áherslur og úrval. Ég ætla að hefja leikinn á þeirri vefverslun sem ég hef notað hvað mest undanfarin misseri, Juno (Juno.co.uk). Það verður fýsíska verslunin sem hér verður í aðalhlutverki, þ.e. sú sem selur plötur, geisladiska og þess háttar, en auk þess reka sömu  aðilar Junodownload.com þar sem tölvubæti og bitar eru seldir í mp3 og wav sniði.

Juno byrjaði sem upplýsingasíða, eins konar gagnagrunnur um danstónlistarútgáfu, en varð síðar að vefverslun. Fyrirtækið virkar eins og stór en skipulögð vöruskemma, verslunin er hálf andlitslaus og stórfyrirtækjaleg en nýlegir liðir eins og listar og bloggið Juno plus bæta þó úr því að einhverju leiti. Ég afréð að skipta þessari umfjöllun niður í kosti og galla og telja þar til stutta punkta. Athugasemdir, ábendingar og frekari umræða í athugasemdakerfinu væri vel þegin.

Kostir:

Úrval
Fyrir verslun sem sérhæfir sig í óháðri tónlist er lager Juno risavaxinn. Segjast þeir vera með um 62.000 titla í boði og taka inn 700 nýjar útgáfur í hverri viku. Þar af leiðir að það er ekki mikið af nýrri músík sem ekki er fáanleg hjá Juno, maður getur tekið stórar pantanir í öllum geirum í einu en þarf ekki að fara í sérverslanir fyrir hvern og einn þeirra (þetta mætti kannski líka flokka sem galla, sjá hér að neðan).

Wishlist / Follow / Favorites / Alerts
Viðmótið hjá Juno er þægilegt og þeir eru með þjónustur sem eru sniðugar og vel útfærðar. Þannig getur maður fengið áminningu þegar útgáfa eða listamaður sem maður heldur upp á gefur út nýja plötur eða þegar plata sem var uppseld kemur aftur í verslunina. Þá er óskalista hlutinn þægilegur og góður, nota hann sjálfur til þess að halda utan plötur sem ég er að spá og spekúlera í á hverri stundu, hvort sem ég svo versla þær á endanum hjá Juno eða annars staðar.

Tóndæmi með lögum – mp3 spilarar.
Á langflestum skífum bjóða Juno upp á tóndæmi með öllum lögum plötunnar. Spilarar Juno finnst mér fínir, minimalískir flash spilarar sem hægt er að deila á bloggum eða spjallborðum. Þá er hægt að fá m3u playlista og hlusta í spilara af eigin vali. Verður þó að segjast að mp3 þjónn þeirra virðist stundum standa í ströngu, maður lendir of oft í því að lög hlaðist hægt niður.

Kvittanir á pökkunum / sendingamöguleikar
Sendingarnar hjá Juno eru samviskusamlega merktar og kvittanirnar eru settar í plastvasa utan á pakkana. Þetta þýðir minna tollavesen og pakkarnir skila sér oftast beint út á næsta pósthús. Hjá Juno er hægt að notast bæði við Fed Ex (tekur þá 2-3 daga oftast) og Royal Mail (5-6 daga oftast) sendingaþjónustu.

Gallar:

Úrval
Úrvalið getur líka verið galli, það er einfaldlega svo viðamikið að maður veit ekki hvar maður á að byrja. Þá þarf maður oft að vaða í gegnum ótrúlega mikið af drasli til þess að finna þá kostagripi sem maður er að leita að. Þetta er ekki verslun sem maður skoðar bara í hentisemi sinni og velur eina tvær plötur, best er að vita að hverju maður er að leita, finna plöturnar og koma sér út. Ég festist allt of oft í því að halda að ég sé að gleyma einhverju, vafra ómarkvisst um óteljandi flokka síðunnar með litlum árangri.

Sendingum skipt í marga pakka (tollur)
Juno splittar stórum pöntunum í marga pakka sem skila sér stundum til Íslands í nokkrum hlutum á nokkrum dögum. Þær sendingar eru tollafgreiddar sem einstakar sendingar og kostar stundum að maður borgi tollskýrslugerðina í hvert sinn eða standi í leiðindastappi við tollarana (alltaf gaman upp á Stórhöfða eða í netspjalli við starfsfólk póstsins…)

Verð á innfluttum plötum
Oft er hægt að fá ágætis verð á plötum frá breskum dreyfingaraðilum á Juno, en ef maður er að versla eitthvað frá meginlandinu eða frá Ameríkunni er oft nokkrum pundum klínt ofan á. Í núverandi gengi getur það oft verið blóðugt, 8-9 pund á tólftommu þýðir að maður er kannski að borga 2500 kall fyrir hana með sendingakostnaði, vaski og tolli þegar hún loks er heim komin. Það er ekki ókeypis og þá getur borgað sig að skipta frekar við verslanir í heimalöndum þeirra útgáfna.

White labels / promo
Þrátt fyrir stærð sína, eða kannski vegna hennar, er Juno ekki alltaf með puttanna á púlsinum. Titlar hafa oft rúllað á promo í minni verslunum lengi áður en þeir skila sér til Juno. Bootleggar, white label og ný underground label er heldur ekki alltaf hægt að finna í vefvöruhúsi Juno manna.

Niðurstaða

Það er auðvitað mismunandi hvað fólki finnst mikilvægast í plötukaupum sínum. Kostirnir við Juno vega þungt í minni upplifun og hef ég verið duglegur að skipta við þá undanfarið. Þetta er fagmanlega rekið fyrirtæki sem er sjaldan með vesen, en þjónustan er ekki persónuleg, viðmótið er stundum andlitslaust og kalt. Það að versla plötur á ekki að vera eins og að fara í Bónus. Í næstu plötubúðarýni ætla ég að líta á verslun sem stendur betur að vígi hvað það varðar.

2 athugasemdir við “Plötubúðarýni: Juno

  1. Ávallt gaman að lesa greinar eftir þig, Kalli.

    Versla sjálfur við Juno, og hef gefið út tónlist í gegnum Juno – og standa þeir vel á bak við allt. Ég hef þurft að senda fyrirspurnir út af nokkrum atvikum, verslaði t.d. eina digital plötu um daginn sem var með einu lagi sem var „rispað“ (gallað), og þeir sendu til baka um hæl og voru fúsir til þess að laga það.

    Það eina sem ég gæti gagnrýnt Juno fyrir – er að síðan þeirra lítur út eins og Ebay, eða eitthvað álíka. Ekki alveg nógu „sjarmerandi“ útlit fyrir tónlistarsölu.

  2. Skemmtileg lesning.

    Ég versla mitt drum & bass oftast hjá Beatport. Trúlega af vana frekar en hitt. Er skráður þar. Reyndar ekkert keypt mjög lengi, þetta er svo dýrt. Eitt lag á 1,99 og engin affari gefin þó maður kaupi útgáfuna (smáskífu eða EP).

    Svo er Metalheadz katalógurinn og sitthvað fleira á gogoyoko.com

    JUNO… fékk mér drum & bass podcastið þeirra um daginn… og það er alger snillt. Mikið af góðu dóti. Kynntist þarna nokkrum vænum lögum (nýtt frá Seba t.a.m.) og þetta er allt í góðu, fínar kynningar og ekkert verið að kötta eða blaðra inn í lögin. Mæli með!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s