Flest tónlistarumfjöllun er, eðli málsins samkvæmt, huglæg. Samtöl, rökræður, gagnrýni og umfjöllun um tónlist getur verið rökum stutt og byggð á þekkingu eða tæknilegri færni en veltur á endanum oft á huglægu mati. Gæði og gildi slíkra skoðana er efni í margar færslur en í þessari færslu langaði mig að líta á gagnadrifina og hlutlæga tónlistarkrufningu Last.fm teymisins.
Last.fm, fyrir þá sem ekki vita, er vefþjónusta tengd tónlist. Hægt er að skrá sig á last.fm og nota þjónustuna til þess að halda utan um stafræna tónlistarhlustun sína. Í framhaldinu getur maður skoðað tölfræði og kynnst nýrri tónlist byggt á þeirri sem maður hefur áður hlustað á. Undanfarna mánuði hafa Last.fm matað tölvurnar sínar með 15,000 lögum af breska vinsældalistanum á árunum 1960 til 2008 og greint hlutlæga eiginleika tónlistarinnar. Tölvurnar hafa svo metið hraða, dýnamík, tóntegundir, breytingar í sveiflu og fleira tónlistartengt sem hægt er að mæla á hlutlægan hátt. Niðurstöðurnar úr þessari greiningu Last.fm eru um margt forvitnilegar og hafa þeir útlistað hluta þeirra á blogginu sínu.
Í fyrsta hluta benda last.fm á hvernig ryþma og slagverksdrifin tónlist hefur vaxið og minnkað í vinsældum í gegnum áratugina. Það sést t.d. glögglega á meðfylgjandi grafi. Diskó, einhver? Í öðrum hlutanum líta þeir á hversu flókin lög eru í tónblæ og hljómsetningu og kemur kannski ekki á óvart að pönkið skorar hátt í hvorugu. Í þriðja kafla frásagnarinnar af rannsókn þessari er litið til takfestu og hraða, þar virðast trommuheilar og önnur tækni hafa haft sín áhrif síðustu áratugi. Þá hafa gagnarýnar last.fm litið á hin svokölluðu „loudness stríð“ en því hefur verið haldið fram að dýnamík í tónlist sé að víkja fyrir alltumlykjandi kröfu um mikin hljóðstyrk og hversu algengar hálftóna „gír skiptingar“ eru í popp tónlist, enda öflugt (en kannski soldið ódýrt) trikk.
Þessi hraðsoðna samantekt mín gerir rannsóknum Last.fm síður en svo full skil og mæli ég með að fólk skoði greinar þeirra. Þá mæli ég með last.fm scrobblernum fyrir tölfræðinördana þarna úti, maður getur komist að ýmsu fróðlegu um hlustunarmynstur sitt með þeim hætti. Með vaxandi tækni- og tölvuvæðingu samfélagsins mun svona hlutbundin umfjöllun, byggð á raunverulegum gögnum, eflaust riðja sér til rúms á fleiri sviðum. Það getur verið gagnlegt og skemmtilegt, en hið huglæga ætti maður þó ætíð að hafa fast í huga.