Flokkaskipt greinasafn: Djammrýni

Dagbók frá Iceland Airwaves


Fjórir dagar á tónlistarhátíð

Eftir lendingu sem á sér stað klukkan tíu mínútur yfir fjögur og mat hjá mömmu sem klárast klukkan níu, hefst Airwaves. Þetta er önnur hátíðin mín og í raun hef ég enga sérþekkingu á því að skrifa tónlistar- eða tónleikarýni, í raun held ég að ég hafi aldrei gert það. En við skulum sjá hvernig þetta gengur. Sökum efnis síðunnar ætla ég að einbeita mér að því að fjalla um það sem fellur undir eitthverskonar danstónlist.

Miðvikudagskvöldið virkaði fremur óspennandi og var því aðallega eytt í reykingarbúri NASA. En uppsteyt gegn lögreglusáttmála Reykjavíkurborgar redduðu kvöldinu á síðustu stundu, slíkt var gert á uppákomunni and-Airwaves. Á Skúlagötunni, gegnt Aktu Taktu, liggja gamlar skrifstofur Kexverksmiðjunnar Frón og á einni hæðinni er búið að koma upp eitthverskonar einkaklúbbi/billiardbúllu (ef þetta eru gamlar upplýsingar fyrir þig þá biðst ég forláts). Það verður að segjast að partýið var frekar gott. Venuið var töff og mér leið nokkurn vegin eins og ég væri staddur í Harley Davidson and Marlboro Man , nema það var spilað house. Tónlistin var grúví og fólk var í góðu stuði. En um hálf þrjúleitið hætti partýið óvænt, ástæðan; herskari af hressum lögregluþjónum. Eftir að hafa bölvað opnunartímum skemmtistaða og beðið eftir því að lögreglan væri búin að leita á öllum viðstöddum, eftir eiturlyfjum sem aldrei fundust, var miðvikudagurinn liðinn.

Fimmtudagurinn á, í raun og veru, ekkert erindi í þessa grein fyrir utan lokin á honum sem eytt var á Apótekinu. Ég verð að segja að mér finnst Apótekið vera frekar undarlegur sem skemmtistaður þar sem maður á að vera dansandi. Þegar maður gengur inn mætir manni undarlega stórt og tómt svæði sem virðist ekki vera til neins annars ætlað en að gefa manni þá tilfinningu að enginn sé inni á staðnum. En aftur að kvöldinu. Breakbeat.is hélt kvöldið,  en eins og allir vita er það langlífasta og mest aktíva klúbbakvöld (djöfull finnst mér búið að skemma þetta orð) landsins. Sökum annara plana missti ég af stærstum hluta kvöldsins en mæti þó þegar veiklulegi djinn með flókna nafnið Ramadanman, er að byrja sitt sett. Framan af var stemmingin eiginlega ekkert sérstök og tónlistin fór eitthvað í mig. Mér fannst settið hans byrja aðeins of poppað og sterílt. En eftir því sem leið á kvöldið fór fleira fólk að tínast inn, á sama tíma fór tónlistin að grúva og Apótekið að tryllast. Klukkan sjö mínútur í tólf (ég veit það af því að ég skrifaði það niður) skellti Ramadanman í eitthvað sem ég þekki ekki, en jafnfram eitthvað sem toppaði gjörsamlega. Sett sem mér þótt fara full hægt af stað hafði endað frábærlega.

Föstudagurinn hófst í kaffibolla á Prikinu og þynnku uppi á Njálsgötu. Eftir að hafa skemmt sér við óþreytandi myndlíkinga geðveiki Jeff, var förinni heitið á Berndsen.  Berndsen mætti kannski frekar flokka undir neo-eighties popp tónlist, þá er eitt víst, það er hægt að dansa við tónlistina hans. Tónleikarnir voru einstaklega hressir en liðu (eins og svo margir aðrir tónleikar) fyrir hversu ótrúlega stutt slott hljómsveitir fengu til að róta og spila. Því má segja, gott partý sem varði í rétt rúman hálftíma. Ég ákvað síðan að láta mig vanta á Bloodgroup þar sem ég fæ enn illt í hjartað að hugsa til Hróarskeldu 2008, þar sem 2000 Íslendingar enduðu tónleikana á að öskra ,,Ísland, Ísland, Ísland …“. Kvöldið fór svo í tónleika sem seint mætti flokka undir danstónlist.

Laugardagurinn hófst eins og allir hinir dagarnir, fremur illa. En eftir góðan Búllu borgara og bjór var stefnan sett á listasafnið. Mér hefur alltaf þótt listasafnið vera fremur leiðinlegt venue fyrir tónleika. Hljómburðurinn er slæmur og stemmingin virðist, af eitthverjum ástæðum, alltaf vera frekar vandræðaleg. Þar voru tónleikar með dönsku sveitinni Spleen United. Ég ætla ekki að ræða frekar þetta glataða nafnaval, heldur dæma tónleikana sem þeir héldu og tónlistina sem þeir spiluðu. Í stuttu máli sagt þá eru hipstera Danir með yfirvaraskegg að spila hallærislega steríla, alltof þreytta, danstónlist á leiðinlega syntha ekki minn tebolli. Menn með óþol fyrir lélegum enskum textum og orðinu ,,baby“ ættu sérstaklega að halda sig fjarri. En þeir voru allavega í stuði.

Þeir tónleikar sem ég var búinn að hlakka hvað mest til voru tónleikar Hercules & Love Affair. Ég var búinn að vera aðdáandi fyrstu breiðskífu þeirra í þó nokkurn tíma og spurningin sem margir voru að spyrja mig ,,á ekki að skella sér á Robyn?“, var alltaf svarað með ,,veistu, nei“. Það er bara eitthvað við trúverðuleika tónlistarmanns, sem fer frá því að vera frægur fyrir það að keppa í forkeppni Eurovision í Svíþjóð, í að vera ást og yndi hipstera og fólks sem segir ,,ohhh, Airwaves“ , sem ég kaupi ekki. En ég er að fjarlægjast punktinn. Hercules and Love Affair tónleikarnir hófust á slaginu tólf á Nasa og þeir ullu mér ekki vonbrigðum. Undarlegt gengi tveggja klæðskiptinga og jakkafataklæddar lesbíu sá um að fylla skarðið sem Anthony Hegarty, úr Anthony and The Johnsons, skildi eftir sig. Tónleikarnir voru keyrðir áfram á hröðu tempói og voru róleg lög eins og You Belong keyrð upp, til að passa við stemminguna. Tónleikarnir náðu ákveðnum hápunkti í stuði þegar frægasti slagarinn Blind var tekinn. Lögin af nýju plötunni, sem væntanleg er í janúar, virkuðu einnig mjög vel og allt í allt voru þetta topp tónleikar. Eftir það endaði kvöldið á Venue þar sem danska hljómsveitin Reptile and Retard voru að spila eitthverskonar blöndu af pönki og danstónlist. Ég held að besta leiðin til að lýsa þessum tónleikum sé; Johnny Rotten frontar LCD Soundsystem. Restin af nóttinni fór svo í það ómögulega verkefni að reyna að sulla ekki niður bjór á Kaffibarnum.

Allt í allt var þetta frekar skemmtileg hátið. Þrátt fyrir að bjórinn hafi verið dýr, raðirnar oft á tíðum langar og tónleika slottin alltof stutt, þá var margt skemmtilegt í gangi. Einnig mætti vel nefna off venue tónleika með Rabbi Bananas, sem ég sá á Kaffibarnum. Þar heyrði ég Skweee tónlist spilaða í fyrsta sinn og var ég bara nokkuð hrifinn. En ef ég á að ljúka þessu á eitthverju þá er það bara það að mér finnst  Airwaves vera flott dæmi og gott innlegg í flóruna, en varla mikið meira en mjög gott laugardagskvöld í Reykjavík.

Elías Þórsson

Djammrýni – Weirdcore á Jacobsen 16.07.09

Bjössi Biogen og co. hjá Weirdcore hafa verið að halda raftónlistarkvöld undir Weirdcore nafninu í þó nokkurn tíma, fjölbreytt og skemmtileg kvöld sem sýna þá grósku sem er í gangi í raftónlistinni á Íslandi. Í gær, fimmtudag, var Weirdcore viðburður á Jacobsen og þar stigu á stokk Ruxpin, Hypno og Futuregrapher voru með live sett en DJ Vector sá um plötusnúninga.

Eftir að hafa sleikt sólina á Arnarhóli fór ég á Jacobsen upp úr tíu, þá voru ljúfir raftónar í gangi, techno og idm frá mönnum eins og Carl Craig og Sabres of Paradise auk fleirri listamanna sem ég kann ekki að nefna. Staðurinn var þó ekki þétt setinn og dagskrá kvöldsins hófst ekki fyrr en upp úr ellefu þegar fólk var loks farið að láta sjá sig, það ætlar að reynast erfitt verk að uppræta þann vítahring sem sein mæting landans á tónlistarviðburði orsakar.

En hvað um það, fyrstur á svið var listamaðurinn Futuregrapher sem kom skemmtilega á óvart. Þessi ungi piltur spilaði idm skotna raftónlist, brotnir taktar og syntha-hljómar komu víða við sögu auk þess sem inn á milli örlaði á acid línum, útgáfur eins og Warp og Skam komu óneitanlega upp í hugan við hlustun á tónsmíðar Futuregrapher og er það er nú ekki leiðum að líkjast. Settið hans fór sérstaklega vel af stað, grípandi melódíur og flottir taktar, en missti soldið flugið þegar á leið að mínu mati. Á heildina litið skemmtilegt sett og þar sem ég hafði ekki heyrt af kauða áður kom þetta mér skemmtilega á óvart, alltaf gaman þegar það gerist á litla Íslandi.

Næstur steig á stokk maður sem er þó engu íslensku raftónlistarfólki ókunnugur, Ruxpin. Settið hans hófst á svipuðum nótum og Futuregrapher var í, synthar og strengir rúlluðu ofan á glitchy rafrænum töktum sem tókust á við lífrænni trommupælingar inn á milli. Ruxpin var þó ekki við eina fjölina felldur þetta kvöldið, flakkaði á skemmtilegan hátt á milli stefna, hugljúfir hljóðgerflar breyttust í acid keyrslu sem þróaðist yfir í framtíðar dancehall (með acapellum og öllu tilheyrandi) sem aftur varð að einskonar techstep fíling og þar fram eftir götum.

Stemningin var orðin nokkuð fín á þessum tímapunkti, góð mæting og ungar stúlkur sem voru einhvers staðar mitt á milli þess að vera go-go dansarar, klappstýrur og gríndansarar höfðu hvatt mannskapinn í það að stíga nokkur spor á gólfinu. Hljómgæðin settu þó strik í reikningin en sándið var skítugt hjá öllum atriðum kvöldsins, tíðnir og hljóðfæri runnu saman í eitt og á tímum varð þetta allt að einum graut. Mig grunar að þar hafi ekki endilega verið við listamennina að sakast, þótt ekki hafi þetta alltaf verið fullmasteruð stykki hjá þeim öllum, heldur hafi stillingar á kerfinu sjálfu ekki verið með besta móti.

Eftir að Ruxpin lauk sér af breyttist krádið soldið, en þegar unglambið Hypno var kynntur til leiks af samverkamanni sínum MC Sore Throat urðu head-noddandi hip hop hausar áberandi í stað dansandi technogesta. Hypno fór vel af stað, með uptempo dubstep-leg lög skreytt kunnulegum sömplum. Þegar leið á settið þróaðist tónlistin þó í öllu óeftirminnilegri wobble-gleði sem þar að auki leið fyrir rapparan hálsauma sem var engan vegin skiljanlegur í kerfi Jacobsen. Í lok settsins skipti Hypno þó aftur um gír, funky og hip hop fílingur tók við á ný og var það vel. Nýstárlegar hljóðblandanir Hypno gripu gesti og eru til marks um hæfileika þessa pilts.

Þessu ágæta kvöldi lauk svo um eitt (þótt sögur hermi að dansinn hafi verið stigin í kjallaranum eftir það). Listamennirnir stóðu sig allir vel og eiga ásamt Weirdcore hrós skilið fyrir kvöldið.

Djammrýni – Breakbeat.is:Fastakvöld @ Jacobsen 05.03.09

Það fór misjafnlega í fólk að Breakbeat.is hafi flutt sig yfir á Jacobsen. Margir vildu meina að staðurinn væri of stór til þess að almennileg stemning gæti myndast á þessum kvöldum, á meðan aðrir sögðu að staðurinn væri kjörinn fyrir kvöldin, þar sem hann hefur gott kerfi og stórt dansgólf.

Ég mætti um ellefuleytið á Jacobsen og þá var enginn á dansgólfinu, en staðurinn nokkuð þétt setinn. Tmus var búinn að spila og Anton var á bakvið spilarana. Anton spilaði DnB til að byrja en með smá svona dubstep keim inná milli.

n23470171266_1645225_1057017

Smám saman fór umferðin á dansgólfinu að aukast og þegar Ewok tók við  um tólf-leytið var gólfið orðið fullt. Ewok spilaði 50/50 dubstep/DnB sem fólk virtist taka vel í. Eins og í öll  dubstep sett a vegum Breakbeat.is innihélt settið hans: Spongebob, Night og Anti War dub, spurning hvenær verður hægt að sleppa þessum lögum? En settið var þrátt fyrir það mjög skemmtilegt og Gunni sannfærði mig enn einu sinni að hann er einn af mínum uppáhalds snúðum.

Klukkan 1 var stemningin svo góð að eigendur Jacobsen leyfðu partýinu að rúlla. Veit ekki endilega hvort að þetta hafi verið jákvætt fyrir mig þar sem þetta þýddi að ég gat haldið áfram að drekka sem jók líkurnar á því að hrokaMagnús myndi mæta, en partýið hélt engu að  síður áfram til klukkan að verða 2.

Gaman var að sjá hve mikið crowdið hefur breyst, mikið af ungum krökkum (en ekki  of ungum) steppuðu dub og er líkegt að ákveðinn kynslóðaskipti séu  að eiga sér stað í danstónlistarsenunni á Íslandi, sem er nátturulega frábært.

Jacobsen staðurinn er frábær, einfaldlega lang mest töff staðurinn í Reykjavík í dag. Vonandi nær hann að festa sér sess í íslensku skemmtanalífi. Þessi hornrúms pæling á neðri hæðinni massívt sniðug.

Á  heildina litið var þetta frábært kvöld og gott að sjá að breakbeatmenn eru back in the game, ég vona að komandi kvöld verði jafn góð og þessi.

Magnús Felix //magnusfelix@gmail.com

Ghostly International

Ég er staddur í norðurhluta Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum þessa dagana. Mun njóta lífsins hér um stund og reyna í leiðinni að drekka í mig bandaríska menningu sem á vegi mínum verður. Síðastliðinn föstudag ákvað ég að bregða undir mig betri fætinum og kíkja á leibelkvöld hjá Ghostly útgáfunni á Mezzanine klúbbnum í San Francisco.

Ghostly 10 ára

Ég hef allt frá því ég heyrði fyrst um þessa útgáfu staðið í þeirri trú að hún væri Techno/House-útgáfa rekin af Matthew Dear (Audion). Svo er hinsvegar ekki. Útgáfan er stofnuð af Sam Valenti IV nokkrum sem ólst upp í nágrenni Detroit borgar. Fyrsti listamaðurinn sem hann réð til sín var hinsvegar Matthew Dear. Undirútgáfa Ghostly, Spectral Sound, er samt sem áður nánast eingöngu Techno og átti t.d. klúbbaslagarann Billy Says Go í fyrra frá títtnefndum Audion.

Listamennirnir sem boðið var upp á voru flestir eitthvað að vefjast fyrir mér – kannaðist ekki við neinn nema stelpu frá Chicago sem heitir Kate Simko og gerir fínasta House. En það er auðvitað bara meira spennandi að vita sem minnst.

Tónlistarfólkið sem ég sá var Michna, Kate Simko, Tycho og The Sight Below (missti af öðrum því ég kom svolítið seint). Allir spiluðu live sett og voru eilítið í DownTempo/IDM áttina, nema þá Kate Simko sem var með pjúra House sett frá byrjun og Michna var að spila einhverskonar skrítið raf-popp. Músíkin var hinsvegar mjög fín oftast og staðurinn og sándið gott. Ég komst líka að því að hönnun er eitt af aðalsmerkjum Ghostly og voru bæði visjúalar (með öllum öktum), bolir og pósterar sem voru til sölu alveg fyrirtak. Ég er þeirrar skoðunnar að hægt sé að blanda hönnun (grafík) og tónlist skemmtilega saman og á Ghostly fólk hrós skilið fyrir vel heppnaða blöndu.

Mæli með að fólk smelli á eitthvað af linkunum og hlusti á tóndæmi.

http://www.ghostly.com

– Leópold Kristjánsson

Djammrýni – PZ og TFA: Stephan Bodzin @ NASA 21.02.2009

Ég mætti heldur seint á Nasa eða um 2 leitið. Þegar ég gekk í hús voru Biggi Veira og Casanova að spila og stemningin góð. Það sem ég furðaði mig mest á var hvernig crowdið var, en það einkenndist af óhugnalega stórum og ljósabekkjabrúnum  mönnum. Hefur þetta alltaf verið svona eða er þetta eitthvað sem hefur þróast undanfarinn ár? Ég hef ekki mætt á svona risa-klúbbakvöld á Íslandi í nokkurn tíma en mig minnir sterklega að crowdið hafi ekki verið svona einsleitt.

En tónlistin var skemmtileg og það skiptir mestu máli. Þeir félagar spiluðu skemmtilega tónlist, þéttir og voru í góðu samræmi við stemmninguna.Eitthvað heyrði ég að Biggi hefði verið að spila nýtt GusGus dót en þori ekki að fullyrða það sjálfur.

Næst var komið að Oculus. en hann spilaði einhvers konar blöndu af minimali og electro house (þ.e. gott electro house – líkt og sá geiri var áður en hann varð það drasl sem hann er í dag). Þetta sound tryllti gjörsamlega lýðinn og verð ég að segja að mér fannst það geðveikt, skil núna afhverju labelinn bíða í röðum eftir að gefa hann út.

Um 3 leitið var síðan komið af Bodzin. Ég hefði vonast eftir því að hann tæki live sett en sú varð ekki raunin. Bodzin hóf leik á pumpandi technoi sem hann gerði svo fjölbreyttara með DJM 800 effectunum. Kannski var það bara vegna þess hve góður Oculus var, en mér fannst Bodzin alls ekki standa undir væntingum. Hann spilaði margt skemmtilegt en náði ekki sömu hæðum og Oculus.

Ég hef ekki verið mikill Bodzin aðdáandi en mér fannst hann skemmtilegri þegar hann kom 2007 heldur en núna. Kannski er það bara af því að ég er orðinn þreyttur á ,,blautu“ technoi (hugtak sem ég útskýri seinna) eða kannski er hann bara einfaldlega verri plötusnúður en live artist. Ég þori ekki alveg að fara með.

Annars fannst mér kvöldið skemmtilegt, Party Zone og co. eiga lof skilið fyrir að halda svona kvöld eins og ástandið er núna og ég vona þeir haldi áfram á sömu braut.

Magnús Felix // magnusfelix@gmail.com