Flokkaskipt greinasafn: íslenskt

Dagbók frá Iceland Airwaves


Fjórir dagar á tónlistarhátíð

Eftir lendingu sem á sér stað klukkan tíu mínútur yfir fjögur og mat hjá mömmu sem klárast klukkan níu, hefst Airwaves. Þetta er önnur hátíðin mín og í raun hef ég enga sérþekkingu á því að skrifa tónlistar- eða tónleikarýni, í raun held ég að ég hafi aldrei gert það. En við skulum sjá hvernig þetta gengur. Sökum efnis síðunnar ætla ég að einbeita mér að því að fjalla um það sem fellur undir eitthverskonar danstónlist.

Miðvikudagskvöldið virkaði fremur óspennandi og var því aðallega eytt í reykingarbúri NASA. En uppsteyt gegn lögreglusáttmála Reykjavíkurborgar redduðu kvöldinu á síðustu stundu, slíkt var gert á uppákomunni and-Airwaves. Á Skúlagötunni, gegnt Aktu Taktu, liggja gamlar skrifstofur Kexverksmiðjunnar Frón og á einni hæðinni er búið að koma upp eitthverskonar einkaklúbbi/billiardbúllu (ef þetta eru gamlar upplýsingar fyrir þig þá biðst ég forláts). Það verður að segjast að partýið var frekar gott. Venuið var töff og mér leið nokkurn vegin eins og ég væri staddur í Harley Davidson and Marlboro Man , nema það var spilað house. Tónlistin var grúví og fólk var í góðu stuði. En um hálf þrjúleitið hætti partýið óvænt, ástæðan; herskari af hressum lögregluþjónum. Eftir að hafa bölvað opnunartímum skemmtistaða og beðið eftir því að lögreglan væri búin að leita á öllum viðstöddum, eftir eiturlyfjum sem aldrei fundust, var miðvikudagurinn liðinn.

Fimmtudagurinn á, í raun og veru, ekkert erindi í þessa grein fyrir utan lokin á honum sem eytt var á Apótekinu. Ég verð að segja að mér finnst Apótekið vera frekar undarlegur sem skemmtistaður þar sem maður á að vera dansandi. Þegar maður gengur inn mætir manni undarlega stórt og tómt svæði sem virðist ekki vera til neins annars ætlað en að gefa manni þá tilfinningu að enginn sé inni á staðnum. En aftur að kvöldinu. Breakbeat.is hélt kvöldið,  en eins og allir vita er það langlífasta og mest aktíva klúbbakvöld (djöfull finnst mér búið að skemma þetta orð) landsins. Sökum annara plana missti ég af stærstum hluta kvöldsins en mæti þó þegar veiklulegi djinn með flókna nafnið Ramadanman, er að byrja sitt sett. Framan af var stemmingin eiginlega ekkert sérstök og tónlistin fór eitthvað í mig. Mér fannst settið hans byrja aðeins of poppað og sterílt. En eftir því sem leið á kvöldið fór fleira fólk að tínast inn, á sama tíma fór tónlistin að grúva og Apótekið að tryllast. Klukkan sjö mínútur í tólf (ég veit það af því að ég skrifaði það niður) skellti Ramadanman í eitthvað sem ég þekki ekki, en jafnfram eitthvað sem toppaði gjörsamlega. Sett sem mér þótt fara full hægt af stað hafði endað frábærlega.

Föstudagurinn hófst í kaffibolla á Prikinu og þynnku uppi á Njálsgötu. Eftir að hafa skemmt sér við óþreytandi myndlíkinga geðveiki Jeff, var förinni heitið á Berndsen.  Berndsen mætti kannski frekar flokka undir neo-eighties popp tónlist, þá er eitt víst, það er hægt að dansa við tónlistina hans. Tónleikarnir voru einstaklega hressir en liðu (eins og svo margir aðrir tónleikar) fyrir hversu ótrúlega stutt slott hljómsveitir fengu til að róta og spila. Því má segja, gott partý sem varði í rétt rúman hálftíma. Ég ákvað síðan að láta mig vanta á Bloodgroup þar sem ég fæ enn illt í hjartað að hugsa til Hróarskeldu 2008, þar sem 2000 Íslendingar enduðu tónleikana á að öskra ,,Ísland, Ísland, Ísland …“. Kvöldið fór svo í tónleika sem seint mætti flokka undir danstónlist.

Laugardagurinn hófst eins og allir hinir dagarnir, fremur illa. En eftir góðan Búllu borgara og bjór var stefnan sett á listasafnið. Mér hefur alltaf þótt listasafnið vera fremur leiðinlegt venue fyrir tónleika. Hljómburðurinn er slæmur og stemmingin virðist, af eitthverjum ástæðum, alltaf vera frekar vandræðaleg. Þar voru tónleikar með dönsku sveitinni Spleen United. Ég ætla ekki að ræða frekar þetta glataða nafnaval, heldur dæma tónleikana sem þeir héldu og tónlistina sem þeir spiluðu. Í stuttu máli sagt þá eru hipstera Danir með yfirvaraskegg að spila hallærislega steríla, alltof þreytta, danstónlist á leiðinlega syntha ekki minn tebolli. Menn með óþol fyrir lélegum enskum textum og orðinu ,,baby“ ættu sérstaklega að halda sig fjarri. En þeir voru allavega í stuði.

Þeir tónleikar sem ég var búinn að hlakka hvað mest til voru tónleikar Hercules & Love Affair. Ég var búinn að vera aðdáandi fyrstu breiðskífu þeirra í þó nokkurn tíma og spurningin sem margir voru að spyrja mig ,,á ekki að skella sér á Robyn?“, var alltaf svarað með ,,veistu, nei“. Það er bara eitthvað við trúverðuleika tónlistarmanns, sem fer frá því að vera frægur fyrir það að keppa í forkeppni Eurovision í Svíþjóð, í að vera ást og yndi hipstera og fólks sem segir ,,ohhh, Airwaves“ , sem ég kaupi ekki. En ég er að fjarlægjast punktinn. Hercules and Love Affair tónleikarnir hófust á slaginu tólf á Nasa og þeir ullu mér ekki vonbrigðum. Undarlegt gengi tveggja klæðskiptinga og jakkafataklæddar lesbíu sá um að fylla skarðið sem Anthony Hegarty, úr Anthony and The Johnsons, skildi eftir sig. Tónleikarnir voru keyrðir áfram á hröðu tempói og voru róleg lög eins og You Belong keyrð upp, til að passa við stemminguna. Tónleikarnir náðu ákveðnum hápunkti í stuði þegar frægasti slagarinn Blind var tekinn. Lögin af nýju plötunni, sem væntanleg er í janúar, virkuðu einnig mjög vel og allt í allt voru þetta topp tónleikar. Eftir það endaði kvöldið á Venue þar sem danska hljómsveitin Reptile and Retard voru að spila eitthverskonar blöndu af pönki og danstónlist. Ég held að besta leiðin til að lýsa þessum tónleikum sé; Johnny Rotten frontar LCD Soundsystem. Restin af nóttinni fór svo í það ómögulega verkefni að reyna að sulla ekki niður bjór á Kaffibarnum.

Allt í allt var þetta frekar skemmtileg hátið. Þrátt fyrir að bjórinn hafi verið dýr, raðirnar oft á tíðum langar og tónleika slottin alltof stutt, þá var margt skemmtilegt í gangi. Einnig mætti vel nefna off venue tónleika með Rabbi Bananas, sem ég sá á Kaffibarnum. Þar heyrði ég Skweee tónlist spilaða í fyrsta sinn og var ég bara nokkuð hrifinn. En ef ég á að ljúka þessu á eitthverju þá er það bara það að mér finnst  Airwaves vera flott dæmi og gott innlegg í flóruna, en varla mikið meira en mjög gott laugardagskvöld í Reykjavík.

Elías Þórsson

Vörukynning í Tjarnabíó-i

Í dag munu allir helstu endursölu aðilar dj-tóla á Íslandi standa fyrir vörukynningu í Tjarnabío-i. Helstu plötusnúðar landsins munu sjá um að kynna vörur frá hinum ýmsu framleiðendum t.d  Pioneer , Numark og Allen & Heath.

Húsið opnar klukkan 16:00 og hægt er að kaupa miða hér. Mæli með að fólk tékki t á þessu, en missi sig ekki í gleðinni, margt er óþarft þó það sé sniðugt.

Undir Jökli – Ný Íslensk Raftónlistarhátið

Næstu helgi fer fram raftónlistarhátið á vegum Extreme Chill á Hellissandi á Snæfellsnesi. Hátíðin ber nafnið Extreme Chill Festival Undir Jökli, þar koma fram 18 tónlistarmenn og spila bræðing af raf, dub og reggea tónlist. Af tónlistarmönnum sem þar stíga á stokk má nefna Stereo Hypnosis, Legend, Biogen, Futurgrapher, Frank Murder, Ruxpin, Xerxes frá Noregi og Moonlight Sonata frá Frakklandi.

Forsala á armböndum er í 12 Tónum og Smekkleysu Plötubúð. Armbandið kostar aðeins 2500 kr og er um að gera að tryggja sér armband sem allra fyrst. Einnig verður hægt að kaupa armbönd á félagsheimilinu Röst á Hellissandi.

Tjaldsvæði er á staðnum og er frítt fyrir þá sem að bera armbönd og verða ýmsar uppákomur á tjaldsvæðinu þar á meðal live uppákoma fra Captain Fufanu og dj sett fra Karius og Baktus o.fl. Einnig er hótel sem að hægt er að gista á fyrir þá sem að ekki eiga tjald.

Party Zone leitar af garðveisluplötusnúð ársins 2010

Dansþáttur þjóðarinnar stendur nú fyrir keppni þar sem sigurvegarinn verður krýndur garðveisluplötusnúður ársins 2010. Til að taka þátt í keppninni þarf einfaldlega að senda þeim mix fyrir 10 júni ,dómnefnd mun síðan gefa settunum einkunn. Dj settið þarf að hafa nafn og er frumleg nafngift eitthvað sem hjálpar.

Skv. Party Zone hefur stór hluti af landsliði plötusnúða tilkynnt þáttöku sína og má meðal annars nefna Jónfrí, Andrés og Alfons X. Fyrsti settið er komið í hús og það er plötusnúður Útursnúður sem á bakvið það. Mixið hans er hægt nálgast hér og fleirri upplýsingar um keppnina hér.

Enn af umboðsmanni plötusnúða

Í framhaldi af síðustu færslu hér á DansiDans tel ég rétt að upplýsa um svör Ástu Ragnheiðar við bréfi mínu. Í stuttu máli var þetta mjög dipló svar þar sem Ásta upplýsti um fjölbreyttan starfsferil sinn og lýsti því yfir að hún teldi sig vera fulltrúa allra þeirra starfstétta og Íslendinga almennt. Það er því auðsýnt að plötusnúðar þurfa að leita á aðrar slóðir að umboðsmanni. En örvæntið þó ekki, í ljósi þessarar fréttar hef ég ákveðið að hafa samband við Bjarna Benediktsson og spyrja hvort hann hafi áhuga á þessu embætti.

Reynist ættarlaukur Engeyjarættarinnar hafa áhuga á að vinna að hagsmunum plötusnúða mun ég bjóðast til þess að kenna honum á þartilgerð tæki og tól og kenna honum að beatmixa, heimili mitt er steinsnar frá Alþingishúsinu og getur Bjarni litið við í þinghléum og lært plötusnúðalexíur.

Karl Tryggvason

viðbót 23.04.2010
tölvupóstur sem undirritaður sendi á Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Bjarna Benediktsson

from: Karl Tryggvason ktryggvason@gmail.com
to:Ásta R. Jóhannesdóttir“ – arj@althingi.is
cc: bjarniben@althingi.is
date: Fri, Apr 23, 2010 at 12:11 PM

subject: Re: Íslenskir plötusnúðar

Sæl Ásta

Þakka þér fyrir skjót svör og sömuleiðis fyrir óeigingjarnt starf í þágu landsmanna allra. Þótt það hryggi mig að þú sjáir þér ekki hag í að gerast sérstakur málsvari plötusnúða. Enn leikur mér þó hugur á að vita hvort hægt væri að fá þig aftur bakvið spilarana og snúa skífum?

Leyfi mér að setja hér internet-krækju á nýja færslu sem ég setti upp á vefsíðuna DansiDans
(https://dansidans.com/2010/04/23/enn-af-umbodsmanni-plotusnuda/).

Í ljósi þessarar fréttar http://www.ruv.is/frett/margir-thingmenn-fulltruar-hagsmuna hef ég ákveðið að beina fyrirspurnum um umboðsmann plötusnúða til Bjarna Benediktssonar (og setti hann í cc í tölvupósti þessum), hann virðist fúsari til þess að starfa á alþingi í þágu hagsmuni takmarkaðra hópa í þjóðfélaginu (eins og má kannski dæma af þingferli hans). Kannski er hann fáanlegur til þess að starfa ötult að bættu starfsumhverfi plötusnúða.

bestu kveðjur
-Kalli

Umboðsmaður plötusnúða

Ég legg til að Plötusnúðafélag Íslands biðli til Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, 10. þingmanns Reykjavík-Suður og Forseta Alþingis, um að gerast verndari félagsins og sérstakur umboðsmaður plötusnúða. Þessa tillögu legg ég fram í ljósi ferils Ástu en í ferilskrá hennar á www.althingi.is segir m.a.

Plötusnúður í Glaumbæ 1969-1971, auk þess í Tónabæ og Klúbbnum

Margir þingmenn vinna að hagsmunum ólíkra starfstétta og hafa fyrrum stéttarsystur og bræður sína í huga við störf sín á Alþingi. Ásta ætti að vera öflugur málsvari plötusnúða á Alþingi. Ég vil til að mynda sjá frumvarp sem bindur í lög rétt plötusnúða til almennilegs tækjakostar, monitoraðstöðu, fasts sætafjölda á gestalista og lágmarkslaun, þá ætti að skrá í lög skattaafslátt af headphonum og plötuspilurum og niðurgreiða vínylplötur sem atvinnutæki (annað eins hefur nú verið gert fyrir aðrar stéttir).

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður og fyrrum plötusnúður

Ég hugsa að ég fari ekki með fleipur þegar ég segi að ógreiddar og útistandandi skuldir plötusnúða hjá núverandi og fyrrverandi skemmtistaðaeigendum og prómóterum nemi milljónum, þessar upphæðir hafa svo sannarlega áhrif á þjóðarbúið. Ríkið ætti að gangast í ábyrgð fyrir slíkum skuldum og almennt að styðja betur við bakið á plötusnúðastéttinni.

Hlutverk plötusnúða sem eins konar öryggisventill kapítalísks þjóðfélags er óumdeilt, hver veit hvar samfélagið endaði ef ekki væri fyrir skemmtanalífs soundtrackið sem plötusnúðar bjóða upp á. Við þá tóna fær ölvaður almenningur dans-útrás fyrir fústrasjónir daglegs lífs á hrunskerinu. Líkt og glímukappar í hringleikahúsum Rómar hið forna eru plötusnúðar samtímanum mikilvægir og koma jafnvægi á ringulreiðina. Því er ekki nema sanngjarnt að þeir eigi sérstakan fulltrúa hjá löggjafavaldinu.

Að lokum legg ég til að fræknir rekstraraðilar skemmtistaða bóki Ástu Ragnheiði til þess að spila hjá sér, væri skemmtilegt að sjá hvaða skífur hún leggur á fón og hvernig hún gæti náð upp stemningunni á dansgólfum landsins. Að snúa skífum er eins og að hjóla, list sem gleymist seint ef hún einu sinni er lærð.

Ég hef sent Ástu Ragnheiði tölvupóst með hlekk á þessa færslu og áskorun um að láta til sín taka í þessum málum. Áhugasamir lesendur geta fylgst með framvindu mála hér á DansiDans.

-Karl Tryggvason

viðbót 20.04.2010 – texti úr tölvupósti til Ástu R.

Sæl Ásta

Karl Tryggvason heiti ég, er plötusnúður og áhugamaður um tónlist ýmis konar. Á vafstri um veraldarvefinn varð fyrir vegi mínum ferilskrá þín á www.althingi.is og þótti mér forvitnilegt að sjá þar að þú starfaðir sem plötusnúður á árum áður.

Í ljósi þessara upplýsinga setti ég fram áskorun á vefsíðunni DansiDans.com (ég er einn umsjónarmanna síðunnar), þar sem ég legg til að þú talir máli plötusnúða á okkar háa Alþingi, auk annarra tillagna þessu máli tengdu. Vil ég gjarnan heyra hvað þér finnst um þessa hugmynd og hvort þér þyki ekki rétt að kjörnir fulltrúar landsins styðji við bakið á plötusnúðum líkt og öðrum starfstéttum? Hlekkur á þess áskorun: https://dansidans.com/2010/04/20/umbodsmadur-plotusnuda/

bestu þakkir og kærar kveðjur
-Kalli

Hliðrænt í Stafrænt – Plötuupptökur Bjögga Nightshock

Síðustu færslur hér á DansiDans hafa fjallað um vínylást og plötusöfnun en því verður ekki neitað að þrátt fyrir alla sína kosti er vínyllinn ekki jafn handhægur og hin ýmsu stafrænu skráarsnið sem hafa rutt sér til rúms á undanförnum árum. Af þeirri ástæðu og ýmsum öðrum hafa margir lagst í það verkefni að koma skífum sínum á stafrænt form á síðustu árum; plötusnúðurinn Bjöggi Nightshock er í þeim hópi. Bjöggi hefur á undanförnum árum lagt mikinn tíma og vinnu í slíkar upptökur og er fróðari en margur um málefni þessu tengt. DansiDans fór á stúfana og spurði Bjögga spjörunum úr um plötuupptökur.

Hvernig kom það til að þú fórst að taka upp plöturnar þínar (og annarra) í stórum stíl?
Það er svo langt síðan ég byrjaði að taka upp plötur að ég man ekki lengur af hverju ég byrjaði. Það er auðvitað mjög þægilegt að geta sett saman playlista með fullt af lögum og hlustað í stað þess að vera kannski með 20 plötur á gólfinu og svo setja hverja plötu á fóninn.

En einhvern veginn varð þetta að risa stóru áhugamáli og maður hreinlega festist í þessu. Svo þegar maður er kominn með plötusafn upp á 1500 plötur þá er þetta einnig mjög fín leið til að „kynnast“ plötunum.

Hvaða græjur ertu að nota í augnablikinu?
Ég nota „moddaðan“ Technics 1200MK2 spilara. Fyrst var vökvadempari sem er fylltur af sílikoni settur á tónarminn. Hugmyndin bakvið það er að nálin helst betur í grúvinu þó svo að platan sé ekki endilega slétt (sem fæstar plötur eru) og minnkar alla mótstöðu sem er mjög mikilvægt þegar nálin er stillt á rétta þyngd.

Svo var settur mjög fínn koparvír inn í tónarminn sem er svo leiddur út á plötu bakvið spilarann og tengt svo í Ecler Nuo 2.0 mixer sem er svo tengdur í Lynx L22 hljóðkort í tölvunni.

Allt er svo rétt stillt eftir leiðbeiningum. Tónarmurinn þarf að vera í réttri hæð, nálin þarf að vera í réttri lengd frá tónarminum, anti-skate þarf að vera stillt í samanburði við þyngdina á tónarminum og svo framvegis. Þetta er allt breytilegt miðað við hvað maður er með.

Ég hlusta á allar upptökur í Sennheiser HD650 heyrnartólum sem eru keyrð af Creek OBH-11 headphone magnara.

Hvernig pickupp notarðu?
Ortofon 2m Bronze. Mjög fínn pickupp sem er með mjög mjórri nál sem er til þess að hún komist dýpra í plötuna og þar af leiðandi í svæði sem eru kannski alveg ósnert af öðrum nálum. Ég valdi hann þar sem að mig vantaði mjög góðan pickupp í upptökur sem myndi einnig endast mjög lengi.

Hvernig geymirðu upptökurnar? Mp3? Wav? Flac? Ertu með backup?
Fyrst voru upptökurnar geymdar sem 64kbit Mp3 skrár og voru teknar upp á +6 eða +8 svo lögin væru styttri. Svo eftir því sem diskapláss stækkaði þá stækkuðu gæðin líka. Í dag geymi ég upptökurnar sem 96khz 24bit Flac skrár og finnst það vera í raun meira en nóg! Ég hef stóran hluta af safninu á 320 Mp3 formi á flakkara en stefni á að skipta því yfir í Flac á endanum.

Hvernig er ferlið í kringum upptökur hjá þér?
Fyrst er platan hreinsuð, ef það er eitthvað um puttaför eða platan er augljóslega drullug þá er hún þrifin í köldu vatni með sápu og látin þorna í nokkra klukkutíma eftir að búið er að þurrka plötuna. Ef mikið af stöðurafmagni á plötunni þá nota ég sérstakan vökva til að losna við það. Ef ég þarf ekki að þvo plötuna þá nota ég límbandsrúllu sem ég fann á Chemical Records til að „rífa“ rykið af plötunum, svínvirkar! Ég hef prófað svona vökvasprey sem á að leysa upp drullu af plötum en hef ekki fengið neitt voðalega góðar niðurstöður af þeirri notkun.

Nálin á pickuppnum er hreinsuð fyrir og eftir hverja plötu með bursta sem fylgdi með honum. Það safnast alltaf eitthvað af ryki og drullu á nálina alveg sama hversu hrein platan er og ef þetta er ekki fjarlægt þá bæði dreyfir þetta meiri drullu á næstu plötur og festist á nálinni sem gerir það að verkum að hún fer að hljóma verr. Það eru til vökvalausnir sem hreinsa skítugar nálar en ég er ekki mikið hrifinn af því.

Hvert lag er svo tekið upp í Adobe Audition eins hátt og hægt er án þess að hljóðið fari að bjagast. Eftir að lagið er tekið upp skoða ég lagið með frequency analyzer til að finna út hvort að það sé mikill hávaði frá plötunni sjálfri í upptökunni og svo lagið bútað niður í kafla og hent í forritið DenoiseLF sem fjarlægir tíðnir á bilinu 20-220hz, það fer allt eftir laginu hversu mikið er fjarlægt og á nýjum plötum er nánast ekkert fjarlægt þar sem að þetta er mest áberandi á gömlum mjög spiluðum plötum og picture diskum. Eftir að búið er að fjarlægja lágtíðnir sem eru ekki hluti af laginu þá er lagið sett í gegnum Clickrepair ef það er eitthvað um rispur í laginu. Eftir það er lagið sett saman aftur og svo hlustað á það til að gá hvort að ég hafi misst af einhverju og hvort þetta hljómi ekki bara ásættanlega.

Hvað ertu búinn að taka upp mikið af tónlist?
Ég held að ég hafi byrjað að taka upp árið 2000. Ef ég tel með öll skiptin sem ég hef tekið upp frá grunni þá hef ég tekið upp alveg mörg þúsund lög (kannski hátt í 10.000). Það er alveg gríðarlegur tími sem er búinn að fara í þetta.

Fyndist þér svindl að stela bara upptökunum (t.d. torrent eða eitthvað slíkt)
Það hjálpar mér mjög lítið þar sem ég veit ekkert um gæðin á þeim og ég vill hafa lögin í sömu gæðum. 320 mp3 passar ekki alveg inni í safn af 96khz 24bit Flac skrám. Ef það væri einhver þarna úti sem væri með nákvæmlega eins setup og ég og væri búinn að taka upp allar plöturnar í safninu mínu þá myndi ég sennilega „stela“ þeim.

Hvað notarðu til þess að halda utan um upptökurnar, einhvern gagnagrunn? iTunes? Winamp?
Hver plata fær möppu sem er geymd í möppu fyrir hvert og eitt útgáfufyrirtæki. Fyrir stærri label eins og moving shadow sem eru með mörg mismunandi catalog númer þá eru sér möppur til að halda utan um það líka (t.d. MSX, ASHADOW, SHADOWR). Hver mappa byrjar á ártali, svo catalog númeri, listamanni og svo loks titli skífunnar.

Hvaða fylgigögn (metadata) eru með lögunum? Titlar, útgáfur, bpm, artwork?
Titlar, ártal og catalog númer. Fyrir mér er það allar þær upplýsingar sem ég þarf.

Útlitsbreytingar og Viðburðadagatal

Glöggir lesendur DansiDans hafa tekið eftir smávægilegum útlitsbreytingum á síðunni, hér fyrir ofan getur nú að líta vísi að valmynd þar sem hægt er að komast beint á ýmsar undirsíður eða flokka DansiDans. Þá smelltum við inn DansiDans Viðburðadagatali á Google Calander, þar munum við setja inn raf- og danstónlistartengda viðburði á Íslandi. Smellið á hlekkinn „Á Döfinni“ hér að ofan til þess að skoða það nánar eða kíkið á RSS áskriftina hér til hægri.

Ef þú stendur að viðburði sem þú heldur að við gætum haft áhuga á skaltu láta okkur vita með tölvupósti eða í athugasemdum hér á síðunni.

Weirdcore með nýja safnskífu

Biogen, Tanya og félagar hjá Weirdcore bjóða upp á skemmtilega jólagjöf á vefsíðu sinni, fyrirtaks mpfrír safnskífu með íslenskri raftónlist. Meðal listamanna sem koma við sögu má nefna Yagya, Steve Sampling, Ruxpin, Hypno, Einum Of, Biogen og Skurken.

Plötusnúðaheyrn

Einn af leiðinlegri fylgifiskum þess að vera plötusnúður eða pródúsent er að þróa með sér það sem ég kýs að kalla plötusnúðaheyrn eða plötusnúðaeyra. Fyrir fólk með plötusnúðaheyrn gegnir tónlist öðru hlutverki en fyrir fólk almennt, hlutverki sem tengist starfi eða áhugamáli plötusnúðsins.

Tónlist hættir að vera list sem er einungis til upplýsingar, yndisauka eða skemmtunar og sætir í stað þessi sífelldri greiningu og gegnir öllu hagnýtara hlutverki. Einstaklingur með plötusnúðaheyrn yfirheyrir því sem næst alla tónlist sem hann kemst í kynni við, í hugarskoti hans leynast óteljandi spurningar um tónlistina sem er í gangi.

Þannig spyr plötusnúðaheyrandinn sig hvort það mætti lúppa eða sampla þessu lagi? Á hvaða tempói/bpm er tónlistin? Myndi þetta virka á dansgólf? Ætli það sé hægt að nálgast hana á vínyl? Í hvaða tóntegund er þetta lag? Mætti mixa þetta við aðra tónlist? Og svo mætti lengi telja.


Hlustaðu (mynd e. Alex//Berlin as photography)

Sá sem er með plötusnúðaheyrn er því ávallt að máta tónlistina við plötusnúðahlutverkið, þannig er hætta á því að önnur svið tónlistarnautnarinnar víki og er það miður. Geri ég mér í hugarlund að svipaðar hlutir geti komið fyrir annað „alvöru“ tónlistarfólk.

Athugið að ég er ekki að halda því fram að plötusnúðar njóti ekki tónlistar, að þeir hafi ekki gaman af henni eða þyki ekki vænt um hana. Heldur að starf þeirra geti gert það að verkum að þeir nálgist og hlusti á tónlist með öðrum og minna „hreinum“ hætti. Að það hvernig plötusnúðar „hagnýta“ tónlistina hafi varanleg áhrif á hvernig þeir neyti hennar. Því held ég að það sé verðug áminning til plötusnúða að skilja plötusnúðaeyrun stundum eftir, að reyna að setja minna funktíónal þætti tónlistarinnar í fyrsta sæti og njóta hennar á hreinni hátt. Spyrja sig frekar að því hver hafi verið ætlun tónskálds, hvaða tilfinningar er verið að tjá og hvaða tilfinningar vakna í brjósti manns sem hlustanda. Nú eða að sleppa spurningum og greiningum og hlusta bara. Það er gott að hlusta.

-Karl Tryggavson | ktryggvason@gmail.com