Flokkaskipt greinasafn: Jútjúb Miksteip

Jútjúb mixteip – Nostalgía

Undanfarið hef ég fengið (og þegið) boð í ýmsar tónlistartengdar Facebook grúppur, virðist vera soldið trend um þessar mundir. Þar pósta menn youtube linkum af miklum móð. Að stunda þessar grúppur er soldið eins og að vera í partýi með of mörgum plötusnúðum, flestir eru uppteknari af því að koma sínum eigin plötum að heldur en að hlusta á og/eða ræða tónlistina sem er í gangi hverju sinni (nú eða bara að fá sér snúning). Oft eru lög til að mynda sett á vegginn örar en maður gæti nokkurn tíman náð að hlusta á þau!

Annað merki þessara grúppna er fortíðarþráin, nostalgían, sem oft er ansi sterk. Nostalgían er bundin við mismunandi tímabil, sem þó helst oft í hendur, tímalega séð, við unglingsár þeirra sem grúppuna skipa. Sjálfur er ég alveg svag fyrir fortíðarþrá, en öllu má líka ofgera.

Það er rétt að hafa í huga að það var ekki alltaf allt sjálfkrafa betra þegar maður var yngri, hins vegar var maður yngri þegar maður var yngri… Fáir neita því hversu mikil mótunartími unglingsárin eru og held ég að það eigi við um tónlist eins og allt annað. Tónlist mun sennilega ekki snerta mann aftur á sama hátt og hún gerir þegar maður er fyrst að kynnast henni almennilega, þegar maður fer að sinna músík sem áhugamáli, þegar maður er að móta sér smekk og máta sig við hinar og þessar stefnur. Upplifanir eins og að kaupa sínar fyrstu plötur, fara á sín fyrstu tjútt og ýmislegt annað sem maður gerir í fyrsta (og kannski síðasta) sinn verða heldur aldrei endurteknar né toppaðar.

Í þessu felst þó ekki að sándtrakk þessara ára sé í sjálfu sér eitthvað betra eða verra en tónlist annara tíma. Þegar maður talar um þessa tónlist og ber hana saman við nýrri og eldri tíma er mikilvægt að muna eftir eigin hlutdrægni og minna sjálfan sig á að yfirburðir og sérstæða þessarar tónlistar eru kannski frekar huglægar og einstaklingsbundnar en hlutlægar og almennar.

Sömuleiðis er ekki rétt að afskrifa það sem á eftir eða á undan kom fyrirfram, sérstaklega ef að maður er hættur að hlusta. Hættir þú að hlusta á tónlistarstefnu x af því að þú varst ekki að heyra neitt gott eða ertu ekki að heyra neitt gott úr tónlistarstefnu x af því að þú ert hættur að hlusta?

Getur verið að það sé ennþá verið að gera góða drum & bass músík en þú bara sért ekki að hlusta á hana? Er old school hardcore virkilega fullkomnun raftónlistar eða var það bara sándtrakkið við æsku þína? Hafa mögulega aðrir en MAW gert mjög góða house músík? Er kannski ennþá verið að gera gott hip hop en þú bara hættir að gefa því séns eftir að Wu Tang Forever kom út? Held að margir, undirritaður er þar á meðal, gerðu gott í því að hafa svona spurningar og aðrar líkar þeim í huga í Facebook grúppum sem og annars staðar. Annars er þessi hugleiðing nú bara langur inngangur að youtube mixteipi þessu, hér er tekið á fortíðarþrá og gullaldartímum á ýmsa vegu. Leyfum tónunum að tala sínu máli:.

Abe Duque feat. Blake Baxter – What Happened
Blake Baxter er gamall hundur, í þessu lagi rifjar hann upp gamla tíma og ber þá saman við samtímann. Baxter virðist ekki vera vel við breytingar og þróun tónlistarinnar en þó virðist þetta nú líka vera kaldhæðnisleg gagnrýni á nostalgíu almennt í leiðinni. Glöggir danstónlistaraðdáendur muna kannski eftir dularfullri íslenskri „cover-útgáfu“ af þessu lagi „Hvað gerðist?“ sem var spiluð soldið á klúbbum í fyrra, gaman að því.

.

Cunning Lynguists feat. Masta Ace – Seasons

Rap músík er mikið fyrir að vitna í gullöldina, menn bara eru ekki alltaf sammála um hver gullöldin er. Í þessu lagi stilla Cunning Linguists þróun og sögu hip hop tónlistar upp sem árstíðunum og segja frá sinni upplifun af sögunni yfir takti frá RJD2. Þar teljast 8. og 9. áratugurinn til vors, hlutirnir fara af stað, allt að gerast og við tekur sumarið (gullöldin), 85-95 (give or take?). Eftir það liggur leiðin niður á við, bling, karlremba og rnb taka yfir en að lokum geta þeir félagar þess þó að vor taki við að vetri liðnum. Spurning hvað þeir hafa að segja um hip hop músík í dag (lagið kom út í byrjun síðasta áratugar, 2003 held ég)?

.

Lynx & Kemo – Deez Breaks

Sögustund með Lynx og Kemo, farið yfir þróun hardcore, jungle og drum & bass tónlistarinnar í tónum og tali. Hef gaman af innskotum Lynx en hann laumar sömplum ófáum úr klassíkerum inn í bítið, glettilega vel gert (töluvert betra en klisjukenndur texti Kemo). Þeir félagar hvetja fólk til þess að kynna sér „Deez Breaks“ og tekur dansidans undir það.

.

Fuckpony – Body Movement

Jay Haze tekur hér á sinni fyrstu upplifun af house músík, 909 bassatrommur, 808 snerlar og góð partý. Í dag snýst þetta meira um pólitík að mati Haze, synd og skömm.

.

The Streets – Weak become heroes

Sennilega mitt uppáhalds Streets lag af fyrstu og bestu breiðskífu Mike Skinner. Fjallar kannski meira um stemningu og fíling heldur en tónlist, hveitibrauðsdagarnir með danstónlistinni og e-pillum rifjaðir upp og bornir saman við samtímann.

-Karl Tryggvason | karltryggvason.com

Jútjúb Miksteip #11 Iceland Airwaves 2010

Það styttist í Iceland Airwaves hátíð ársins 2010, rétt rúmur mánuður þegar þetta er ritað og undirritaður er bara orðinn nokkuð spenntur. Line uppið er það besta í langan tíma, að fyrri hátíðum ólöstuðum, mikið af spennandi elektrónísku dóti sem spannar vítt svið þótt indie og önnur rokk músík eigi líka sinn fasta sess á hátíðinni.

Að tónlistinni undanskilinn er líka oftast frekar góð stemning í bænum, fólk hvaðan af úr heiminum komið hingað til þess að skemmta sér og fara á tónleika og fyrir Íslendinga er hátíðin ákveðin sólargeisli í haustmyrkrið sem tekur annars á móti okkur þessa dagana. Hér að neðan er jútjúb mixteip með nokkrum af þeim nöfnum sem ég er hvað spenntastur fyrir í ár.


Ramadanman – Work Them
Juke skotið lag frá Ramadanman sem er fjölbreyttur og flottur pródúsent, hefur samið og gefið út house og drum & bass músík en er kannski þekktastur fyrir dubsteppið sitt. Spilar á Breakbeat.is kvöldi Iceland Airwaves fimmtudaginn 14. október.

.


Mount Kimbie – Would Know
Breskt tvíeyki sem er undir miklum áhrifum frá dubstep heiminum en þó er ekki beint hægt að kalla tónlistina þeirra dubstep, það er flakkað á milli bpm sviða og hljóðheima en yfirleitt takast elektrónískir taktar á við bjartar og fallegar melódíur.

.


James Blake
James Blake finnst mér soldið vera eins og Mount Kimbie með meiri húmor, glaðværari laglínur og rnb sömpl snúast í kringum dubstep skotna taktana.

.


Hercules & Love Affair – You Belong
Hercules & Love Affair er project Andrew Butlers, retróleg 80s house og diskó tónlist sem nær hljóm og fíling fæðingaráratugs housetónlistarinnar mjög vel. Anthony úr Anthony & The Johnssons kemur mikið við sögu á plötu þeirra frá 2008 og sérstæð rödd hans hentar danstónlist vel. Er hann sjaldnast með þeim á tónleikum skilst mér, því miður.

.


Moderat – Rusty Nails
Apparat og Modeselektor  vinna saman undir Moderat nafninu og gáfu út samnefnda plötu í fyrra. Techno-breakbeat-glitchy-idm dót, skemmtilega epískt oft og eru þeir víst með flotta visjúala læf, spennandi.

.


Toro y Moi – Talamak
Toro Y Moi er eins manns band Chaz Bundicks, en þegar hann spilar á tónleikum eru víst hljóðfæraleikarar með í för. Tónlistin er lo-fi popp, rafrænt og lífrænt í bland oft kaffært í reverbi, delayi, distortioni og öðrum effectum, geiri sem fólk hefur í mismikilli alvöru verið kallað chillwave. Að öllum flokkunum slepptum þá er músikin oft hin ágætasta og ég hef gaman af Toro Y Moi.

.


Neon Indian – Deadbeat Summer
Neon Indian er á svipuðum slóðum og Toro Y Moi, rólegt rafskotið popp, fuzz og detjúnaðar falsettur. Rosalega hipsterlegt en ágætt engu að síður.

Annars væri ég svo til í að sjá alla hér að ofan dj’a, vona að einhver þeirra verði plataður í slíkt á KB, Bakkus eða eitthvað álíka, að tónleikum loknum.

Ég smellti annars í Youtube playlista með erlendum listamönnum og böndum sem verða á Airwaves til þess að kynnast aðeins þessari músík (íslensku öktin þekkja allir og hafa séð milljón sinnum á tónleikum).

Að lokum er rétt, í nafni gagnsæis, að taka fram að ég er einn umsjónarmanna Breakbeat.is og stend að kvöldinu með Ramadanman, einnig hef ég unnið aðeins fyrir Airwaves hátíðina á árum áður.

-Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com


Jútjúb Miksteip #10 Klassix

Eins og ég hef áður minnst á hafði All-Time-Top-40 listi Party Zone árið 2003 mikil áhrif á mig þegar ég var að byrja að hafa áhuga á danstónlist. Ég mæli með því að fólk skoði þennan lista vel því af honum er hægt að læra ýmislegt um sögu danstónlistar og heyra alveg æðisleg lög. Þetta mixteip inniheldur 5 vel valin lög af listanum.


1.Crystal Waters – Gypsy woman(Mercury)
Þessi banger  virkar enn á dansgólfinu í dag þótt það séu liðin tæp 20 ár frá því að hann kom út. Orgelið mega flott og alltaf jafn gaman þegar kickið kemur og svo þegar hún byrjar að syngja „la da de, la de da“. Því miður á ég bara eitthvað gelt remix af laginu á vínyl sem er ekki alveg jafn gott. Lagið komst í 21. sæti á PZ all time listanum.


2.K Scope – Planet K(Tribal)
Eðal deep house hér a ferð. Seiðandi panflautur yfir synthalínu sem virðist aldrei ætla enda. Eric Kupper sem er maðurinn bakvið K Scope er enn að og gerði meðal annars þetta lag sem er alveg skuggalega líkt Mandarin girl meða Booka Shade.


3.Mood II Swing- All night long(Groove on)
Uppáhalds lagið mitt með house hetjunum í Mood II Swing. Temmilega væminn vokall en samt eitthvað svo fínn.


4.Layo & Bushwacka – Love story(XL recordings)
Þetta lag er talsvert yngra en hin, var topplagið árið 2002. Síðan þá hefur það verið remixað ótal sinnum. Ég held að frægasta remix útgafan af þessu lagi sé mashupið „Final Story“ þar sem vokalnum úr Finally með Kings of Tomorrow er splæst saman við lagið. Hvað heyrist ykkur gaurinn vera að segja í breakdowinu? Ég held að hann sé að segja „all he was trying was to get the love he was buying“.


5.Gus Gus – Purple(4AD)
Elska þessa bassalínu og þetta rosaleag dramantíska breakdown. Í það eina skipti sem ég hef séð Gus Gus spila þá spiluðu þeir það ekki. Hafið þið séð þetta live?

Jútjúb Miksteip #9 Þegar remixið er vinsælla en orginal-inn

Nú fyrir skemmstu kom út smáskífa með laginu „You got the love“ í flutningi Florence + the Machine (ásamt ófáum endurhljóðblöndunum) og hefur skífan gert góða hluti um víðan völl. Eins og flestir vita er þetta lag aðeins endurflutningur af lagi sem var upprunarlega samið af Candi Staton.

Það sem er sérstakt við „You got the love“ er að remix af laginu er þekktara heldur en upprunarlega lagið. Það kemur stundum fyrir að remix verðir vinsælli en orginalarnir og geta ástæður þess verið margar, t.d. þegar remixarinn er frægari heldur en artistinn sem gerir lagið, þegar upphaflega lagið er komið til ára sinna eða þegar remixið er einfaldlega betra. Í þessu Jútjúb mixteipi verður farið yfir „You Got the love“ í ýmsum útgáfum.


The Source Feat. Candi Staton – You got the love
„You got the love“ er soul lag frá 1986. Óhætt er að  fullyrða að lagið er rosalega funky ,gott groove, syntharnir klassískir og lagið eðall. Þrátt fyrir gæði þessa lags þekkja mun fleirri acapelluna í annari útgáfu, það er í einhvers konar sambræðingi við næsta lag.Frankie Knuckles – Your love
Eins og áður hefur komið fram á Dansidans er Frankie Knuckles talinn vera  einn af upphafsmönnum house tónlistar. „Your love“ sem er frá 1989 er líklega eitt af vinsælustu lögum kappans  og eitt af mínum uppháhalds lögum. Uppbyggingin í byrjun lagsins er stórskemmtileg og synthalínan algjör classic. En árið 1991 kom út annað lag eða bootleg sem ég held að hafi haft stór áhrif á vinsældir lagsins.Candi Staton feat. The Source – You got the love
Þessi sambræðingur af fyrrnefndum lögum er vægast sagt algjör bomba á dansgólfinu og gerði bæði lögin ódauðleg. Ég tel að þessi útgáfa sé mun meira spiluð heldur en báðir orginalarnir sem eru notaðir. Þessi útgáfa er jafnvel svo þekkt að fólk heldur að hinar útgáfurnar séu endurhljóðblandanir en ekki öfugt. Hef heyrt sögur af hörkurifrildum milli Gunna Ewoks og hóp af stelpum um hvort lagið væri nú betra. Hvað finnst ykkur? Annars er forvitnilegt að lesa um tilurð þessa lags á Wikipedia.


Candi Staton feat. The Source – You Got the Love
Hér er svo önnur útgáfa sem líka er skrifuð á The Source,  lakara lag að mínu mati, minnir mig  þar að auki alltaf á „Clubbed To Death„… Kannski þekktast fyrir að hljóma undir lokaatriðinu í Sex and the City (DansiDans er metrósexúal og mikil aðdáandi Beðmálanna).


Florence & The Machine – You got the Love (Jamie XX remix)
Hér er þetta svo farið að verða virkilega póst-módernískt, remix af coveri af mashuppi, skemmtileg pæling! Jamie XX úr hipster hljómsveitinni vélar um endurhljóðblöndun af trendý kollega sínum Florence & The Machine. Garage bræðingur einhvers konar og vókalaleikfimi, lag sem er heldur betur að slá í gegn þessa dagana, enda frábært lag (slær seint upphaflega lagið út, eða þið vitið, remixið af upphaflega laginu sem var sett saman úr tveim öðrum lögum eða þannig…)

Jútjúb Miksteip #8 – 80’s House

Grimmt og óforskammað plögg í gangi hér, en ég er ásamt Árna Kristjáns að standa að 80s danstónlistarkvöldi undir nafninu 198X á Kaffibarnum á fimmtudaginn kemur. Þar ætlum við að spila boogie, house, electro, techno og sitt lítið fleira frá níunda áratugnum. En svo sem löngu kominn tími á smá 80s house og hér er ætlunin að tína til þekkt og góð lög sem eru þó kannski ekki á allra vitorði.

.


Frankie Knuckles & Satoshie Tomiie – Tears
Frankie Knuckles er oft kallaður guðfaðir house tónlistar en nafn stefnunnar er sagt hafa komið frá Warehouse klúbbnum þar sem Knuckles var fastasnúður. „Tears“ var unnið með Satoshie Tomiie árið 1989 að ég held og í vókal útgáfunni sem við heyrum hér er það rödd house tónlistar, Robert Owens, sem að þenur raddböndin.

.


Plez – I Can’t Stop
Þekki ekki mikið til Plez en „I Can’t Stop“ er algert killer lag, var meðal annars að finna á Ame Fabric disknum sem kom út í fyrra enda hljómar þetta eins og þetta gæti verið að koma út í dag.
.


Mr. Fingers – Beyond the Clouds

Í hverri einustu upptalningu af klassískum house lögum má finna „Can You Feel It“ með Mr. Fingers, enda á maður það orðið í 15 mismunandi útgáfum á 30 mismunandi safnskífum. Larry Heard e.þ.s. Mr. Fingers hefur þó gert óteljandi aðra klassíkera í gegnum tíðina og „Beyond the Clouds“ er einn þeirra, ljúfur og svífandi acid fílingur í gangi.

.


JM Silk – Music Is The Key
Smellum hér inn einu hip house lagi enn eins og nafnið bendir til var hip house tilraun til þess að blanda saman hip hop og house tónlist, þetta var skammlíft trend sem þó hafði mikil áhrif á eurodance dót næstu ára/áratuga. Sum þessara laga eru þó stórskemmtileg og ekki síst vókalarnir, finnur t.a.m. varla betri línu en „I am a dj man / and Music is my plan“ eins og er sönglað hér í upphafi.

.


KC Flightt – Let’s get Jazzy
Smá jack fílingur í gangi hér, fáránlega góð bassalína og voxarnir og percussionið í kring er gott partý.

Svona mætti auðvitað lengi telja og væri gaman að fá fleiri linka í athugasemdir. En ef þið viljið tjútta við svona stöff sjáumst við vonandi á Kaffibarnum á morgun.

Jútjúb Miksteip #7 – Them summer tracks maður

Sólin hefur aldeilið leikið við okkur íslendinga undanfarna daga og er þá fátt betra að gera en að njóta hennar á meðan maður hlustar á eðalgroove. Í þessu mixteipi ætla ég að benda á nokkur sem ég af einhverjum ástæðum tengi við sumar og sól.


1.Nuyorican Soul – Runaway

Nuyorican Soul er hliðarverkefni þeirra Louie Vega og Kenny Dope, en þeir félagar eru betur þekktir sem Masters At Work. Sem Nuyorican Soul fá þeir hljóðfæraleikara með sér í lið og semja soul tónlist. Í þessu lagi fá þeir söngkonuna India til að syngja en lagið er upprunanlega eftir Lolleata Holloway.


2.Johnny D – Walkman

Etríski Þjóðverjin Johannes Debese aka Johnny D átti lag ársins í fyrra að mínu mati. „Walkman“ er frá árinu 2007, hann hefur búið sér til einskonar signature sound með því að syngja yfir lögin sín. Af einhverjum ástæðum minnir þessi söngur mig á BÓ sem mér finnst „smart“ og líður þess vegna „smart“ þegar ég hlusta á þetta lag. Að vera smart í sólinni er mikilvægt, því er gott að hafa þetta lag við hendina.


3.Shaun Escoffrey – Days like these (Dj Spinna rmx)

Ef laglínan er kominn inn og þú ert ekki farinn út að grilla þá ganga hlutirnir ekki upp.


4.Inner City – Good Life

„No more rainy days,the sun will chase the clouds away.“ Kevin Saunderson kom house á kortið í Bandaríkjunum með þessu lagi. Mér finnst allt vera sumarlegt við þetta lag, syntharnir, hljómagangurinn og textinn. Myndbandið hér fyrir ofan er tekið í London 1989, tékkið á gæjanum á trommudótinu hann er á fleygiferð.


5.Hardsoul feat.Ron Carrol -Back together

Þetta lag er að finna á Party Zone summer disknum. Ron Carrol sem síðar söng lagið „Lucky Star“ sem komst í spilun á Popp Tívi syngur hér rosalega cheesy texta og er lagið sjálft frekar cheesy, samt alveg geðveikt.

Jútjúb Miksteip #6 – halfstep/half-tempo drum & bass

Þegar jungle kom fyrst fram á sjónarsviðið var eitt af auðkennum þess hvernig það tengdi takta og trommur sem sem voru í kringum 150-160 bpm við dub skotnar bassalínur sem virkuðu eins og þær væru um helmingi hægari. Bassinn skapaði þar einskonar jarðtengingu við hraðar taktaleikfimina.

Nokkrum árum síðar var drum & bass búið að festa sig í sessi í kringum 170 slög á mínútu. Þá fóru nokkrir tónlistarmenn að fikta við að semja lög þar sem takturinn og aðrir hlutar lagsins virtust rúlla á hálfum hraða, þ.e.a.s. í kringum 85 bpm, á svipuðu róli og mikið af dub tónlist og rólegu hip hopi. Kannski er þetta allt saman bara skilgreiningaratriði, ég er ekki nógu vel að mér í tónlistarfræðum til þess að skera úr um slíkt, en hér að neðan eru í það minnsta nokkur vel valin half tempo / halfstep drum & bass lög. Takið eftir því hvernig orkan og krafturinn í þessum lögum er allt öðruvísi heldur en í hefðbundinni kick-snare drum & bass tónlist.

.


1. Digital – Deadline (31)
Ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að Deadline hafi verið eitt af fyrstu lögunum í þessum gír og Digital ásamt félaga sínum Spirit á mikið lof skilið fyrir að hafa komið þessu sándi á kortið. Digital tengdi saman reggeaskotinn sömpl við old skool/reif hljóðheim, allt byggt á sterkum grunni flott sem hinn massífi bassi myndar.

.


2. Amit – Immortal (Commercial Suicide)

Amit vann vel úr arfleið Digital og mætti kannski kalla hann erfðarprins halfstepsins. Hann hefur tosað og teygt þessar pælingar í ýmsar áttir og hefur sett saman grjótharða gólfatrylla en líka lög eins og Immortal, sem er epískt og fallegt lag. Mér finnst alltaf eins og þetta lag eigi heima í sándtrakki við einhverja Hollywood stórmyndina en það er að finna á Neverending breiðskífu Amit frá árinu 2006.

.


3. Breakage – Clarendon (Digital Soundboy)
Á breiðskífu Breakage, “This too shall Pass”, var heill diskur tileinkaður downtempo dub, dnb og hip hop pælingum. Clarendon kom þó út aðeins síðar, gjörsamlega fáránlegt lag, drifið áfram með bassatrommu og brútal bassa sem Breakage fléttar svo trommufill í kringum.

.


4. Kryptic Minds & Leon Switch – Minor Nine (Defcom)
Kannski ekki half-tempo lag per se, en í svipuðum gír. Tekið af breiðskífu þeirra félaga “Lost All Faith”. Núna nýlega komu út dubstep remix af “Minor Nine”, frá Headhunter og Kryptic Minds & Leon Switch sjálfum, held að það séu athyglisverðar tengingar milli halfstep pælingana í dnb og dubstep, meir um það síðar.

.


5. Instra:Mental – Sakura (Darkestral)
Eitthvert heitasta nafnið í drum & bass senunni í dag, spikfeitt analogue sánd í þessu hugljúfa elektrófílings lagi. Takið eftir hvernig percussion fillinn snúast í kringum þungan og drífandi taktinn. Ég ætlaði reyndar að setja hér inn lagið Commanche en fann það ekki á Youtube, hneyksli…

.


Bónus: Loefah – Horror Show (DMZ)

“Horror Show” ku vera fyrsta halfstep dubstep lagið og ég held að það sé óhætt að fullyrða að fáir komist með tærnar þar sem Loefah hefur hælana í þessum málum. Þungt, drungalegt og yfirþyrmandi sánd. Í dubsteppi eru halfstep pælingarnar algerlega bornar uppi af bassanum og því sem kemur á milli trommuhittana, því tempóið er komið niður í kringum 70 slög á mínútu. Það væri athyglisvert að komast að því hvort listamenn eins og Amit og Digital hafi haft áhrif á Loefah og hans líka, en ég held að óhætt sé að fullyrða að halfstep pælingar í drum & bass geiranum hafi orðið algengari eftir vinsældir dubstep tónlistarinnar.