Flokkaskipt greinasafn: pælingar

Tónlistartímaritið Muzik

Um daginn rakst ég á vefsíðu tónlistartímaritsins Muzik sem var gefið út á árunum 1995-2003. Ég á margar góðar minningar um Muzik, keypti svo til hvert tölublað á tímabili og höfðu greinar, skrif og gagnrýni þess mikil áhrif á mig. Muzik var ásamt Undirtónum og Knowledge ein helsta upplýsingaveita mín um nýja tónlist og gagnrýna umfjöllun um lífstílinn og menninguna sem tónlistinni fylgdi. Mér þótti Muzik alltaf á hærra plani en t.d. Mixmag (með myndir af berum stelpum og greinar um „how to get twatted in Ibiza“) og hafa skemmtilegri efnistök en DJ Mag. Það var einna helst Jockey Slut sem stóðst Muzik snúninginn að mínu mati en það var oft illfáanlegt í bókabúðum höfuðborgarinnar.

Muzik

Þessi tímaritskaup mín voru auðvitað fyrir tíma internetsins, en hún er margtugginn klisjan um hversu mikið internetið hefur breytt gangi mála. Ég minnist þess oft að lesa um lög eða plötur og reyna að gera mér í hugarlund hvernig þau hljómuðu útfrá lýsingum og myndum. Þegar maður svo komst yfir tónlistina í útvarpi eða Þrumunni löngu síðar var tónlistin auðvitað allt önnur en sú sem hafði ómað í ímyndun manns.

Ástæðan fyrir þessari færslu er annars sú að hægt er að ná í öll tölublöð Muzik á pdf formi á vefsíðu þeirra. Þannig er hægt að rifja upp gamla tíma eða kynnast þeim í fyrsta sinn. Það er allt öðruvísi að lesa samtímaheimildir heldur en að skoða fortíðina í gegnum nostalgíugleraugun góðu. Tímans tönn fer misvel með skrif Muzik manna, en það getur verið fróðlegt að skanna skrif þeirra um liðna tíma og gamlar hetjur. Mæli með því!

DJ TechTools og controllerisminn

Undanfarin misseri hefur vefsíðan Dj TechTools verið mikið lesin á mínum bæ.  Á bakvið þessa síðu/vefverslun er metnaðarfullt og klárt fólk sem er að nýta stafræna tækni til tónlistarflutnings á skemmtilegan hátt. Ég hef áður talað um það hér á DansiDans að þægindi og sparnaður virðist oft ráðast för hjá stafrænum snúðum og að hljóðskrár og önnur tæknitól séu ekki nýtt á neina vegu sem er svo frábrugðin því sem gera má með tveimur vínylplötum. Skríbentar Dj TechTools falla þó ekki í þann hóp enda eru þeir forvígismenn svokallaðs „controllerisma„.

Nafnið controllerismi er komið af hugtakinu turntableism. En sem kunnugt er hefur það heiti verið notað yfir hip hop skotið skífuskank, bít juggl og fleiri listir sem plötusnúðar á borð við Q-Bert, DJ Craze og A-Trak leika á bakvið spilarana. Í turntableisma er plötuspilaranum á vissan hátt beitt sem hljóðfæri. Controllerism vilja þeir Dj TechTools menn svo nota sem heiti um sambærilega beitingu midi controllera, dvs kerfa, fartölva og annars tæknibúnaðs sem gerir manni kleift að manipúlera upptekna tónlist í rauntíma. Forrit eins og Serato Scratch Live, Traktor og Ableton Live eru þar á meðal auk óteljandi stýritækja frá óteljandi framleiðendum.


beat jugglað með controllerum

Nú er ég ekki sannfærður um eiginlegt ágæti controllerisma. Mér finnst þetta oft sömu effectarnir (filter, beat repeat og eitthvað stutter dót) notaðir á sama hátt yfir sömu tónlistina (electro house og wobblað dubstep). Þá er mjög auðvelt að missa sig í effectunum og gleyma að leyfa tónlistini að njóta sín. En það er kannski líka bara spurning um smekk. Allavega er ljóst að þarna úti er metnaðarfullt og öflugt fólk sem er að prófa sig áfram með allskyns tækni, tæki og tól. Það finnst mér vera fyrir öllu, að tölvutæknin og stafræn músík verði hvati að þróun og breytingum en ekki bara að plötusnúðar sleppi við að bera töskur og spari sér krónur. Í kringum controllerisman er að spretta upp öflug og góð menning sem verður spennandi að fylgjast með næstu misserinn.


Midi Fighter

Dj Tech Tools gera þessari menningu góð skil. Til þess að telja fátt eitt til má nefna nýlega umfjöllun um framtíð fartölvunnar, video um notkun á Microsoft Kinect sem tónlistarcontroller og grein um powertools, sampl pakka sem hentar fyrir live spilamennsku. Þá reka þeir félagar verslun sem m.a. selur retroskotna controllerinn þeirra Midi Fighter. Það er því vel þess virði að vafra um bloggfærslur þeirra Dj Tech Tools manna og velta fyrir sér controllerismanum.

DJ Ævisögur

Síðustu misseri hefur promotion á partýum færst frá plakötum og flyer-um yfir á internet samskiptaborð á borð við Facebook, Myspace og Resident Advisor. Þessi þróun hefur valdið því að hægt er að miðla meiri upplýsingum um plötusnúða. Þar sem plássið á plakötunum og flyer-unum er takmarkað og aðeins var hægt að benda á nafnið á plötusnúðnum og útgáfum og partýum sem tengdust honum. Í dag er hinsvega hægt að sjá top 10 lista yfir útgáfur, viðtöl og svo kallaðar dj ævisögur (dj bios) þar sem pláss er ekki lengur vandamál.

Undanfarið hef ég verið að spá mikið í það hversu líkar margar af þessum dj ævisögum eru. Skv. dj ævisögum eiga margir plötusnúðar það sameiginlegt að hafa átt foreldra sem áttu rosalega stórt plötusafn sem þeir eyddu allri sinni æsku í að róta í. Þeir koma flest allir frá smábæjum en leituðu til stórborgana eftir menntó og slógu þar heldur betur í gegn. Joy Division, Kraftwerk, New Order og Depeche Mode hafa veitt þeim gífurlegan innblástur, þó svo að það heyrist kannski ekki á tónlistinni þeirra.

Af einhverjum ástæðum á ég mjög erfitt með að trúa öllum þessum ævisögum og mig grunar að oft séu þetta snúðarnir sjálfir að skrifa um sjálfan sig ,þar sem í sumum tilfellum er hoppað á milli þess að  skrifa í 1. og 3. persónu. Að lýsa sjálfum sér með þessum hætti þykir mér kjánalegt egó rúnk og þótti mér mjög skemmtilegt að rekast á þessa grein, þar sem netverjin the Luisgarcia skrifar um þetta. Hann nefnir fleiri klisjur og svo skrifa hann líka ágiskun um á hvernig raunveruleg dj ævisaga gæti litið út. Mæli með að fólk tékki á þessu.

 

Jútjúb mixteip – Nostalgía

Undanfarið hef ég fengið (og þegið) boð í ýmsar tónlistartengdar Facebook grúppur, virðist vera soldið trend um þessar mundir. Þar pósta menn youtube linkum af miklum móð. Að stunda þessar grúppur er soldið eins og að vera í partýi með of mörgum plötusnúðum, flestir eru uppteknari af því að koma sínum eigin plötum að heldur en að hlusta á og/eða ræða tónlistina sem er í gangi hverju sinni (nú eða bara að fá sér snúning). Oft eru lög til að mynda sett á vegginn örar en maður gæti nokkurn tíman náð að hlusta á þau!

Annað merki þessara grúppna er fortíðarþráin, nostalgían, sem oft er ansi sterk. Nostalgían er bundin við mismunandi tímabil, sem þó helst oft í hendur, tímalega séð, við unglingsár þeirra sem grúppuna skipa. Sjálfur er ég alveg svag fyrir fortíðarþrá, en öllu má líka ofgera.

Það er rétt að hafa í huga að það var ekki alltaf allt sjálfkrafa betra þegar maður var yngri, hins vegar var maður yngri þegar maður var yngri… Fáir neita því hversu mikil mótunartími unglingsárin eru og held ég að það eigi við um tónlist eins og allt annað. Tónlist mun sennilega ekki snerta mann aftur á sama hátt og hún gerir þegar maður er fyrst að kynnast henni almennilega, þegar maður fer að sinna músík sem áhugamáli, þegar maður er að móta sér smekk og máta sig við hinar og þessar stefnur. Upplifanir eins og að kaupa sínar fyrstu plötur, fara á sín fyrstu tjútt og ýmislegt annað sem maður gerir í fyrsta (og kannski síðasta) sinn verða heldur aldrei endurteknar né toppaðar.

Í þessu felst þó ekki að sándtrakk þessara ára sé í sjálfu sér eitthvað betra eða verra en tónlist annara tíma. Þegar maður talar um þessa tónlist og ber hana saman við nýrri og eldri tíma er mikilvægt að muna eftir eigin hlutdrægni og minna sjálfan sig á að yfirburðir og sérstæða þessarar tónlistar eru kannski frekar huglægar og einstaklingsbundnar en hlutlægar og almennar.

Sömuleiðis er ekki rétt að afskrifa það sem á eftir eða á undan kom fyrirfram, sérstaklega ef að maður er hættur að hlusta. Hættir þú að hlusta á tónlistarstefnu x af því að þú varst ekki að heyra neitt gott eða ertu ekki að heyra neitt gott úr tónlistarstefnu x af því að þú ert hættur að hlusta?

Getur verið að það sé ennþá verið að gera góða drum & bass músík en þú bara sért ekki að hlusta á hana? Er old school hardcore virkilega fullkomnun raftónlistar eða var það bara sándtrakkið við æsku þína? Hafa mögulega aðrir en MAW gert mjög góða house músík? Er kannski ennþá verið að gera gott hip hop en þú bara hættir að gefa því séns eftir að Wu Tang Forever kom út? Held að margir, undirritaður er þar á meðal, gerðu gott í því að hafa svona spurningar og aðrar líkar þeim í huga í Facebook grúppum sem og annars staðar. Annars er þessi hugleiðing nú bara langur inngangur að youtube mixteipi þessu, hér er tekið á fortíðarþrá og gullaldartímum á ýmsa vegu. Leyfum tónunum að tala sínu máli:.

Abe Duque feat. Blake Baxter – What Happened
Blake Baxter er gamall hundur, í þessu lagi rifjar hann upp gamla tíma og ber þá saman við samtímann. Baxter virðist ekki vera vel við breytingar og þróun tónlistarinnar en þó virðist þetta nú líka vera kaldhæðnisleg gagnrýni á nostalgíu almennt í leiðinni. Glöggir danstónlistaraðdáendur muna kannski eftir dularfullri íslenskri „cover-útgáfu“ af þessu lagi „Hvað gerðist?“ sem var spiluð soldið á klúbbum í fyrra, gaman að því.

.

Cunning Lynguists feat. Masta Ace – Seasons

Rap músík er mikið fyrir að vitna í gullöldina, menn bara eru ekki alltaf sammála um hver gullöldin er. Í þessu lagi stilla Cunning Linguists þróun og sögu hip hop tónlistar upp sem árstíðunum og segja frá sinni upplifun af sögunni yfir takti frá RJD2. Þar teljast 8. og 9. áratugurinn til vors, hlutirnir fara af stað, allt að gerast og við tekur sumarið (gullöldin), 85-95 (give or take?). Eftir það liggur leiðin niður á við, bling, karlremba og rnb taka yfir en að lokum geta þeir félagar þess þó að vor taki við að vetri liðnum. Spurning hvað þeir hafa að segja um hip hop músík í dag (lagið kom út í byrjun síðasta áratugar, 2003 held ég)?

.

Lynx & Kemo – Deez Breaks

Sögustund með Lynx og Kemo, farið yfir þróun hardcore, jungle og drum & bass tónlistarinnar í tónum og tali. Hef gaman af innskotum Lynx en hann laumar sömplum ófáum úr klassíkerum inn í bítið, glettilega vel gert (töluvert betra en klisjukenndur texti Kemo). Þeir félagar hvetja fólk til þess að kynna sér „Deez Breaks“ og tekur dansidans undir það.

.

Fuckpony – Body Movement

Jay Haze tekur hér á sinni fyrstu upplifun af house músík, 909 bassatrommur, 808 snerlar og góð partý. Í dag snýst þetta meira um pólitík að mati Haze, synd og skömm.

.

The Streets – Weak become heroes

Sennilega mitt uppáhalds Streets lag af fyrstu og bestu breiðskífu Mike Skinner. Fjallar kannski meira um stemningu og fíling heldur en tónlist, hveitibrauðsdagarnir með danstónlistinni og e-pillum rifjaðir upp og bornir saman við samtímann.

-Karl Tryggvason | karltryggvason.com

Juke

Það var undir lok ársins 2009 sem ég heyrði fyrst um juke eða footwork tónlistarstefnuna. Þessi stefna er sprottin upp í Chicagoborg og er skilgetið afkvæmi ghetto house, ghettotech og house tónlistarinnar. Smám saman hefur hún þó vikið út fyrir hreinan og beinan 4/4 ramma forvera sinna og orðið ryþmískt séð spennandi og lifandi. Þá er minna um rap og vókala en í stað þess er vókal sömplum snúið fram og aftur með þar tilgerðum tækjum og tólum.  Juke/Footwork tónlistin hefur þróast í tvíhliðasambandi við samnefndan dansstíl, þar sem ungmenni úr borg vindanna takast á í dansböttlum sem ganga út á hraðar en nákvæmar fótahreyfingar.


EB & Keese VS AG & Litebulb

Tónlistin sjálf er hröð, 150+ bpm, og einkennist af mikilli trommuheilanotkun. 808 og 909 toms, snerlar og kúabjöllur hringsnúast umhverfis sömpl úr þekktum rnb og popplögum eða annari dægurmúsík eða takast á við einfaldar bleepy techno skotnar syntha línur. Oftar en ekki er tónlistin frekar hrá, lo-fi próduktion value og ekki reynt að fela einföld trick eins og pitchbreytingar.


DJ Rashad – Itz not Rite

Tónlistin hefur oftast fallið í grýttann jarðveg þegar ég hef sett þetta á fón fyrir íslensk dansgólf. Einstaka „head“ sem kinkar kolli og brosir en hinn almenni borgari bíður eftir að maður svissi aftur í dubstep eða drum & bass tóna enda hljómar footwork framandi, svona fyrst að minnsta kosti.

Þessi sena hefur þó þegar haft áhrif um víðan völl, eins og má heyra í nýlegum tónum Addison Groove, Ramadanman og Girl Unit. Á tónlistarnördaborðinu Dissensus hefur tónlistin verið krufinn í þaular. Þá hefur Íslandsvinurinn Mike Paradinas tekið tónlistina upp á sína arma, framundan á útgáfu hans Planet Mu eru skífur frá mönnum á borð við DJ Rashad, DJ Nate og DJ Roc. Þá er rétt að minnast á grein og syrpu sem Paradinas setti saman sem voru í raun kveikjan að færslu þessari, góð lesning enda Paradinas betur að sér en undirritaður.


DJ Nate – Hatas our motivation

Maður vonar að þessi sena fái að dafna í friði, verði ekki útþynnt og eyðilögð með of mikilli athygli og óvirðingu eins og aðrar staðbundnar míkrósenur fyrri ára. Baile Funk, Kuduro, Kwaito og Baltimore Club hafa allar verið illa leiknar af menningarlegum hrægömmum, maður verður að fara vel með tónlistina og sýna henni virðingu. Nýjir straumar og áhrifavaldar eru óumflýjanlegir en það er mikilvægt að setja sitt eigið twist á hlutina og koma með eitthvað nýtt sjálfur. Ekki hef ég nú mikla trú á að hér spretti upp mikil og heildstæð juke sena en tónlistin er fersk og framandi, stútfull af hugmyndum og skemmtilegt að lauma henni inn á meðal annara viðteknari tóna.

Fyrir þá sem vilja tjekka á juke/footwork er rétt að benda á Juke Tracks Online og Dance Mania útgáfurnar en sú síðarnefnda ætti að vera house unnendum kunn frá fyrri tíð. Einnig hafa þeir pródúserar sem ég hef sett mig í samband við verið hressir og jafnvel til í að selja mp3 fæla eða hooka upp mixum, ákveðinn menningarmunur gerir slík samskipti einnig að skondinni upplifun að öllu leyti.

Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com

viðbót 13.08.2010
Bleep hefur sett saman í juke umfjöllun, greinar, listar og juke mp3 pakkar á spotprís, tjekk it!

Soundcloud tölfræði og aðrar samfélagsmiðlapælingar

Tónlistarbransinn hefur breyst talsvert  á síðustu árum, sérstaklega hvernig fólk getur komið sér á framfæri. Í dag stendur fólki til boða fjöldinn allur af internet platformum, samfélagsvefjum og kynningarleiðum til að koma sjálfum sér á framfæri. Nú ætla ég ekki að fara að ræða um kosti og galla netvæðingarinnar almennt heldur aðallega velta fyrir mér tilteknu, skondnu hegðunarmynstri fólks á þessum nýju miðlum.

Ég hef verið virkur á Soundcloud í u.þ.b 2 ár og hægt og rólega hef ég fundið hóp af fólki sem mér þykir vera að gera spennandi og góða hluti tónlistarlega séð. Ég lendi í því öðru hverju að random lið byrjar að follow- a mig. Tónlistin þeirra er frábrugðinn minni eigin, það virðist ekki hafa neinn sérstakan áhuga á því sem ég er að gera, hlustar ekki á neitt af tónlistinni minni, hefur ekki samband við mig með beinum hætti né sýnir prófíl mínum meiri athygli heldur en einföldum follow-músasmelli.  Við nánari athugun kemur í ljós að þetta lið er að follow-a mörg þúsund manns. Þessa viðleitni hef ég aldrei skilið. Hvað er markmiðið með svona löguðu? Að fá fólk til að svara í sömu mynt og öðlast þannig góðan hóp af aðdáendum sem hafa þó líklegast ekki mikinn áhuga á því sem þú ert að gera en fylgja þér eingöngu vegna samviskubits?


Soundcloud – Skemmtileg vefþjónusta en notendur hennar eru misjafnir

Ég hugsa að flestir SoundCloud notendur kannist við skilaboð með fyrirsögninni „X just sent a private track called Y to you and 99999 other people“. Hversu prívat eru slík skráarskipti í raun og veru? Á maður að vera uppi með sér af því að maður var hluti af þeim tugum þúsunda sem X tróð lagi sínu upp á óumbeðinn eða á maður bara að flokka þetta sem ruslpóst?

Það sem gerir þetta enn skrýtnara er svo að því frægari sem maður er því minna vill maður fylgja fólki. Flest allir á á Soundcloud sem eru með stóran aðdáenda hóp follow-a aðeins aðra fræga (frægur í þessu samhengi vísar þá til þess að vera með stóran hóp að fylgjenda). Þetta þykir mér fyndin pæling, ennþá fyndnari er hún þegar maður hefur hefur fylgst með þróun Soundcloud ferils viðkomandi. Þar sem þeir byrja á því fylgja eins mörgum og þeir geta, en fækka svo í þeim hópi er þeirra eigin fylgjendum fjölgar.

Þessi þróun er annars síður en svo bara bundinn við SoundCloud, aðrir tónlistatengdir vefir á borð við Bandcamp, Myspace og Mixcloud eru sama merki brenndir og svipaða sögu er að segja af síðum eins og Facebook og Twitter. Í mínum bókum stafar svona internet-hegðun af einhvers konar blöndu af sjálfhverfu, frægðarþrá og yfirborðskennd. Þegar á heildina litið held ég líka að það sé betra að nota þessar samskiptaleiðir, líkt og flestar önnur samskiptaform, meira í samræðuformi, af meiri einlægni og gagnkvæmum áhuga. Afhverju ekki að fylgjast almennilega með 100 manns sem þú hefur áhuga á, eiga í merkingabærum samskiptum við þá, fá gagnrýni og ábendingar og tónlist eða aðra menningu sem þú hefur áhuga á í stað þess að spamma 1000 manns sem finnst þú frekar óþolandi?

Þetta tel ég vera einn stærsta gallann við DIY-internet hugmyndina, það leiðir til þess að þeir sem eru óforskammaðir ná lengra en þeir ættu að ná. Allavega ná þeir óskammfeilnu fleiri eyrum og skapa meiri pirring heldur en þeir sem eyða tíma sínum frekar í tónsmíðar eða aðra skapandi vinnu, í það minnsta fyrst um sinn. Þegar til lengri tíma er litið held ég að það sé öfugt samband milli þessu hversu miklum tíma þú eyðir á internetinu og hversu marga vini eða fylgjendur þú átt og svo þess hversu góða tónlist þú ert að gera.

Magnús Felix | magnusfelix@gmail.com

Áhrifamestu listamenn og hljómsveitir danstónlistarinnar

BBC greinir frá niðurstöðum könnunar sem breska tónlistarhátíðin Global Gathering stóð fyrir um áhrifamestu böndin og/eða listamennina í danstónlistarsögunni. Gömlu brýnin í Prodigy tróna á toppnum en fast á hæla þeira komu Daft Punk,  Faithless,  New Order, Orbital og Kraftwerk. Carl Cox, Paul Oakenfold og Fatboy Slim voru einu sólólistamennirnir og plötusnúðarnir á listanum. 

Persónulega þykir mér þessi listi slá saman frægustu og farsælustu við áhrifamestu, Prodigy er kannski ein þekktasta danstónlistarsveitin og vissulega hafa þeir félagar haft mikil áhrif en t.d. toppa þeir í mínum bókum seint Kraftwerk hvað varðar áhrif. Sömuleiðis er skemmtilegt að skoða þennan lista í ljósi þess hversu áberandi bresk bönd eru (enda könnunin bresk), aukinnheldur er merkilegt hversu 90’s listinn er í raun og veru. En þetta vekur umræðu og athygli, er það vel.

-Karl Tryggvason

Enn af umboðsmanni plötusnúða

Í framhaldi af síðustu færslu hér á DansiDans tel ég rétt að upplýsa um svör Ástu Ragnheiðar við bréfi mínu. Í stuttu máli var þetta mjög dipló svar þar sem Ásta upplýsti um fjölbreyttan starfsferil sinn og lýsti því yfir að hún teldi sig vera fulltrúa allra þeirra starfstétta og Íslendinga almennt. Það er því auðsýnt að plötusnúðar þurfa að leita á aðrar slóðir að umboðsmanni. En örvæntið þó ekki, í ljósi þessarar fréttar hef ég ákveðið að hafa samband við Bjarna Benediktsson og spyrja hvort hann hafi áhuga á þessu embætti.

Reynist ættarlaukur Engeyjarættarinnar hafa áhuga á að vinna að hagsmunum plötusnúða mun ég bjóðast til þess að kenna honum á þartilgerð tæki og tól og kenna honum að beatmixa, heimili mitt er steinsnar frá Alþingishúsinu og getur Bjarni litið við í þinghléum og lært plötusnúðalexíur.

Karl Tryggvason

viðbót 23.04.2010
tölvupóstur sem undirritaður sendi á Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur og Bjarna Benediktsson

from: Karl Tryggvason ktryggvason@gmail.com
to:Ásta R. Jóhannesdóttir“ – arj@althingi.is
cc: bjarniben@althingi.is
date: Fri, Apr 23, 2010 at 12:11 PM

subject: Re: Íslenskir plötusnúðar

Sæl Ásta

Þakka þér fyrir skjót svör og sömuleiðis fyrir óeigingjarnt starf í þágu landsmanna allra. Þótt það hryggi mig að þú sjáir þér ekki hag í að gerast sérstakur málsvari plötusnúða. Enn leikur mér þó hugur á að vita hvort hægt væri að fá þig aftur bakvið spilarana og snúa skífum?

Leyfi mér að setja hér internet-krækju á nýja færslu sem ég setti upp á vefsíðuna DansiDans
(https://dansidans.com/2010/04/23/enn-af-umbodsmanni-plotusnuda/).

Í ljósi þessarar fréttar http://www.ruv.is/frett/margir-thingmenn-fulltruar-hagsmuna hef ég ákveðið að beina fyrirspurnum um umboðsmann plötusnúða til Bjarna Benediktssonar (og setti hann í cc í tölvupósti þessum), hann virðist fúsari til þess að starfa á alþingi í þágu hagsmuni takmarkaðra hópa í þjóðfélaginu (eins og má kannski dæma af þingferli hans). Kannski er hann fáanlegur til þess að starfa ötult að bættu starfsumhverfi plötusnúða.

bestu kveðjur
-Kalli

Umboðsmaður plötusnúða

Ég legg til að Plötusnúðafélag Íslands biðli til Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, 10. þingmanns Reykjavík-Suður og Forseta Alþingis, um að gerast verndari félagsins og sérstakur umboðsmaður plötusnúða. Þessa tillögu legg ég fram í ljósi ferils Ástu en í ferilskrá hennar á www.althingi.is segir m.a.

Plötusnúður í Glaumbæ 1969-1971, auk þess í Tónabæ og Klúbbnum

Margir þingmenn vinna að hagsmunum ólíkra starfstétta og hafa fyrrum stéttarsystur og bræður sína í huga við störf sín á Alþingi. Ásta ætti að vera öflugur málsvari plötusnúða á Alþingi. Ég vil til að mynda sjá frumvarp sem bindur í lög rétt plötusnúða til almennilegs tækjakostar, monitoraðstöðu, fasts sætafjölda á gestalista og lágmarkslaun, þá ætti að skrá í lög skattaafslátt af headphonum og plötuspilurum og niðurgreiða vínylplötur sem atvinnutæki (annað eins hefur nú verið gert fyrir aðrar stéttir).

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, þingmaður og fyrrum plötusnúður

Ég hugsa að ég fari ekki með fleipur þegar ég segi að ógreiddar og útistandandi skuldir plötusnúða hjá núverandi og fyrrverandi skemmtistaðaeigendum og prómóterum nemi milljónum, þessar upphæðir hafa svo sannarlega áhrif á þjóðarbúið. Ríkið ætti að gangast í ábyrgð fyrir slíkum skuldum og almennt að styðja betur við bakið á plötusnúðastéttinni.

Hlutverk plötusnúða sem eins konar öryggisventill kapítalísks þjóðfélags er óumdeilt, hver veit hvar samfélagið endaði ef ekki væri fyrir skemmtanalífs soundtrackið sem plötusnúðar bjóða upp á. Við þá tóna fær ölvaður almenningur dans-útrás fyrir fústrasjónir daglegs lífs á hrunskerinu. Líkt og glímukappar í hringleikahúsum Rómar hið forna eru plötusnúðar samtímanum mikilvægir og koma jafnvægi á ringulreiðina. Því er ekki nema sanngjarnt að þeir eigi sérstakan fulltrúa hjá löggjafavaldinu.

Að lokum legg ég til að fræknir rekstraraðilar skemmtistaða bóki Ástu Ragnheiði til þess að spila hjá sér, væri skemmtilegt að sjá hvaða skífur hún leggur á fón og hvernig hún gæti náð upp stemningunni á dansgólfum landsins. Að snúa skífum er eins og að hjóla, list sem gleymist seint ef hún einu sinni er lærð.

Ég hef sent Ástu Ragnheiði tölvupóst með hlekk á þessa færslu og áskorun um að láta til sín taka í þessum málum. Áhugasamir lesendur geta fylgst með framvindu mála hér á DansiDans.

-Karl Tryggvason

viðbót 20.04.2010 – texti úr tölvupósti til Ástu R.

Sæl Ásta

Karl Tryggvason heiti ég, er plötusnúður og áhugamaður um tónlist ýmis konar. Á vafstri um veraldarvefinn varð fyrir vegi mínum ferilskrá þín á www.althingi.is og þótti mér forvitnilegt að sjá þar að þú starfaðir sem plötusnúður á árum áður.

Í ljósi þessara upplýsinga setti ég fram áskorun á vefsíðunni DansiDans.com (ég er einn umsjónarmanna síðunnar), þar sem ég legg til að þú talir máli plötusnúða á okkar háa Alþingi, auk annarra tillagna þessu máli tengdu. Vil ég gjarnan heyra hvað þér finnst um þessa hugmynd og hvort þér þyki ekki rétt að kjörnir fulltrúar landsins styðji við bakið á plötusnúðum líkt og öðrum starfstéttum? Hlekkur á þess áskorun: https://dansidans.com/2010/04/20/umbodsmadur-plotusnuda/

bestu þakkir og kærar kveðjur
-Kalli

Að byrja kvöldið

Síðustu helgi spilaði ég á mínu fyrsta giggi í Danmörku en ég flutti þangað síðasta sumar. Giggið var að hita upp fyrir hinn þýska Manuel Tur og skemmtistaðnum Dunkel. Ég átti að byrja kvöldið klukkan 23 og spila til klukkan 01. Ég myndi seint kallast reyndur plötusnúður og í aðdraganda að þessu fór ég mjög mikið að spá í því hvernig maður hitar upp fyrir aðra og hvernig maður byrjar kvöld yfirhöfuð og langar mig að skapa smá umræður um það hér. Ég hafði áður lesið greinar um að hita upp á Beatportal og Resident Advisor og  út frá þessum greinum og fyrri reynslu hef ég myndað mér ákveðinn gildi.

Passaðu hraðann á lögunum þínum.
Notaðu bpm mælinn sem er að finna á flestum mixerum og settu eitthvað hámark á hvað þú mátt vera að spila hratt.  Ég reyni yfirleitt að halda mig undir 120 bpm til miðnættis og svo halda mig á bilinu 120-124 til klukkan 1. Ástæðan fyrir því að ég geri þetta er, að þó að ég geti hlustað á pumpandi teknó klukkan 14 á daginn á það alls ekki við um alla. Flestir  sem eru á skemmtistað fyrir miðnætti eru þar ekki til að dansa heldur bara til að fá sér drykk.S kemmtistaður með tómt gólf og pumpandi tónlist þykir mér fráhrindandi

Forðastu stór breakdown.
Flest lög innihalda einhvers konar breakdown en stærðin á þeim er  mismunandi. Þó svo að mér þykir stór breakdown oft mjög skemmtileg, finnst mér þau svolítið spari og reyni að fara pent með þau. Dansgólfið þarf að vera orðið nægilega sterkt til þess að breakdown virki.

Ég reyni yfirhöfuð að forðast stór og sterk lög með of mikilli uppbyggingu. Mér finnst þau gera dansgólfið vandræðalegt og sjálfur er ég lítið fyrir stórt sound snemma kvölds.

Go Deep but not to deep
Síðast liðinn misseri hafa allir verið að missa sig í vera deep og Detroit á því, þó að flest af þessu „neu deep“ sé drasl má finna ýmsar svoleiðis plötur í töskunni minni. Ég reyni þó að forðast það að nota þær snemma um kvöld.

Mínar upplifanir á skemmtistöðum hafa alltaf verið þannig að það er groovið sem grípur mig og dregur mig út á dansgólf og svo seinna (ef ekki mun seinna) er ég tilbúinn til að hlusta á eitthvað deep. Ég reyni samt alltaf að spila eitthvað óhefðbundið sem ég fíla á á milli 23-01.

Á ég  að eltast við dansgólfið?
Fyrstu skiptinn sem ég spilaði var þetta svolítill stressfaktor. Ef fólk bað mig um óskalög átti ég þá að spila þau?  Það fer auðvitað alveg eftir því hvað manneskjan er að biðja um. Ef hún er að biðja um tónlist sem maður fílar þá gæti verið gaman að spila óskalagið. En maður á ekki að ekki að þurfa að spila dót sem maður fílar ekki til að fylla dansgólfi. Ef maður fílar góða tónlist og spilar það sem maður fílar myndast yfirleitt stemmning. Sá sem ræður þig í vinnu á að vita hvernig tónlist þú spilar og promota kvöldið eftir því.

Óskalög?
„Hérna geturu kannski spilað eitthvað sem hægt er að dansa við“,“áttu ekki eitthvað með ABBA“.  Ég hef  mjög oft verið spurður að þessu og hef ekki ennþá fundið gott svar þannig að ég set yfirleitt bara með heyrnatól á hausinn og þykist ekki heyra í fólkinu. Hér má finna mjög góð svör við flestum heimskulegum spurningum sem fólk kann að hafa.

Í raun skiptir mestu máli að skynja stemmninguna. Mínar reglur nota ég meira sem viðmiðun en ekki fasta reglur. Ef það er kominn mega stemmning snemma þá spila ég auðvitað með því.

Það væri gaman að hvernig aðrir plötusnúðar tækla þetta verkefni.

Magnús Felix|magnusfelix@gmail.com