Flokkaskipt greinasafn: Plötudómar

Plötudómur: Untold – I can’t stop this feeling / Anaconda

Untold
Can’t stop this feeling / Anaconda

Hessle Audio

HES08

Dubstep
3,5 / 5

Bretlandseyjar eru sem áður tónlistarlegur suðupottur, þar takast á ólíkir menningarheimar og samfélagshópar. Upp úr þessum fjölbreytileika spretta sífellt nýjar hugmyndir og stefnum og straumum ægir saman. Á stundum verða mörk hinna mismunandi tónlistarstefna óskýr og erfitt að segja til um hvar línurnar liggja. Nýjasta útgáfa Hessle Audio pilta, tólf tomma frá listamanninum Untold, er dæmi um slíka samsuðu, en um þessar mundir er mikil gerjun á milli neðanjarðargeira á borð við techno, house, dubstep og grime, drum & bass, hip hop og svo mætti lengi telja. Erfitt er að koma orðum að hljóðheimi þessara laga en þar ægir saman hinum ólíklegustu hugmyndum, pælingum og hljóðnotkunum.

Í “I can’t stop this feeling” er techno ættuð synthalúppa sem fetar upp og niður hljómstigan  í aðalhlutverki. Þessi techno keyrsla er byggð á takti sem er blekkjandi einfaldur við fyrstu áheyrn en fínleg smáatriði koma í ljós þegar líður á lagið sem þróast með eðlilegum en óvæntum hætti.

“Anaconda” hefst á pitchuðu melódísku trommu solói sem er hvolft ofan í hvellar og hálf barnalegar syntha lúppur. Undir niðri er svo djúpur rúllandi bassi sem Untold vefur tribal-skotnum töktum í kringum. Lagið allt er í suðrænum tribal gír en óræður framtíðar fönk fílingur sveipar það framandi dulúð.

Bassalínur og bpm laganna skipar þeim í dubstep geirann en það væri einföldun að njörva þau þar niður. Lífræn og rafræn hljóð spila skemmtilega saman og mynda skemmtilegt klúbba væb þrátt fyrir að því fari fjarri að hér sé um einfalda gólfatrylla að ræða.

Karl Tryggvason | kalli@breakbeat.is

Tóndæmi:
I can’t stop this feeling
Anaconda

Kaupa:
Juno | Boomkat | Beatport

Plötudómur:Dj Koze – Mrs. Bojangles***

mrs.bojangles

Dj Koze
Mrs. Bojangles
Dr.Fuck
Circus Company
Deep House / electro
3/5

Undanfarna mánuði hef ég mikið verið að fíla Dj Koze. Kauði býr til frumlegt og skemmtilegt dót, er góður remixari og hefur skemmtilega sýn á danstónlistina (hann segist t.d. í viðtölum ekki nenna að hlusta á lög sem byrja bara á bassatrommu,  sem ég efast um að sé rétt, því það hlýtur að útiloka svona 70% af allri danstónlist)). Circus Company er líka stórskemmtilegt label sem ég hef fylgst svolítið með  síðan þeir gáfu „Open Wide“, stórgóða breiðskífu Dave Aju, í fyrra.

Því var ég frekar spenntur þegar ég rakst á „Mrs. Bojangles“. Fyrra lag plötunar , „Mrs.Bojangles“,  byrjar á skemmtilegum takti þar sem kúabjöllur mynda laglínuna. Þetta heldur síðan áfram í 3 mínutur, en eftir það fara hlutirnir að gerast, svo birtist hver steikt pælingin á fætur annari og á endanum  finnst mér Koze missa það svolítið, þó svo að takturinn komi aftur inn á fullri ferð er lagið orðið frekar súrt. Í heildina er lagið fínt en heldur súrt, kúabjöllu línan er samt geðveik.

Hitt lagið á plötuni ber hið merkilega nafn „Dr.Fuck (The drunken preacher)“.  Yfir skemmtilegri bassalínu gerast stórfurðulegir hlutir, djúpur bull vókall, kjánaleg sílafónslína og skrítin umhverfis hljóð. Held að það væri vel hægt að pulla þetta lag snemma á sunnudagsmorgni en alls ekki fyrr…

Í heildina litið er þetta ágætis skífa, þótt lögin á henni komist ekki nálægt hittara Koze frá 2008, „I want to sleep“ eru þau engu að síður skemmtileg tilbreyting frá öllu fjöldaframleidda deep/tech housinu sem ræður ríkjum í dag.

Tóndæmi:
DJ Koze – Mrs.Bojangles
DJ Koze – Dr Fuck

Kaupa
plötu: Juno
mp3: Beatport

Plötudómur: Omar S – Fabric 45 (Fabric)

Omar S
Fabric 45
Fabric
Fabric89
House / Techno
3,5 / 5

Þessi plötudómur verður í svokölluðu “live blog” formi, sem kannski mætti heimfæra á okkar ástkæra og ylhýra móðurmál sem bloggað í beinni. Þetta form er komið frá því þegar bloggarar eru að fylgjast með einhverjum stórviðburðum og segja frá upplifun sinni jafnóðum, hugleiðingar mínar um Fabric diskinn hans Omar S er að sjálfsögðu stórviðburður! Að öllu gríni slepptu þá er hugmyndin af þessari pælingu fenginn frá danstónlistar bloggaranum geðþekka Teleost og mér finnst þetta skemmtileg tilbreyting við hefðbundna plötudóma formið. Ég mun sumsé skrásetja skoðun mína á þessum mixdisk sem og aðrar hugmyndir og hugleiðingar um leið og diskurinn rúllar í gegn á forlátu Yamaha græjunum í Bruine Ruiterstraat 8B.

01. Omar S – Polycopter
02. Omar S – Flying Gorgars
Fyrsta lagið er í þyrluspaða-technofíling eins og nafnið bendir til, bítið kemur skemmtilega inn, vel mixað og byrjar vel. Þessi Fabric diskur Omar S hefur verið mikið á milli tannanna á fólki og vakið athygli eins og við bentum á um daginn hér á dansidans. „Flying Gorgars“ er í góðu Detroit grúvi, syntha riffið filterast fram og aftur sem gefur laginu soldin live improv fíling auk þess sem takturinn er brotinn skemmtilega upp inn á milli.

03. Omar S – Strider’s World
04. Omar S – Oasis Four
Þung bassatromma tekur öll völd, áður en 8-bit tölvuleikjaleg synthalína lætur á sér kræla yfir einfaldri hljóma lúppu. Aftur byggja filter-fimleikar og hljóðstyrkur upp ákveðna spennu sem er aldrei leyst almennilega úr læðingi heldur bara byggist hún upp og leiðir hægt og sígandi inn í næsta lag. „Oasis Four“ er á house skotnari nótum, klassísk trommuheilasánd byggja upp gott grúv í kringum lúmska hljómborðalúppu. Omar S hefur bæði house/soul tengt sánd sem byggir á sömplum og svo meiri techno fíling sem er elektrónískari, við fyrstu hlustun á þessari skífu fannst mér hann ekki alltaf brúa bilið á milli þessara geira nógu vel.

05. Omar S – Cruisin Conant
06. Omar S – U
„Cruisin Conant“ er mónótónískt dj tool, skemmtilegt swing á taktinum og síbreytilegir hi hattar halda þó smá lífi í laginu. Syntha línan í „U“ minnir mig ótrúlega mikið á bassalínuna úr klassíkernum „Energy Flash“, ripoff? Tölvukenndir vókalar mæta til leiks, „just a matter of time /  you’re going to be mine“ syngur þessi óþekkti maður, „it’s on youuuuuu / what you wanna do“.  Röddin er klínísk og hrein, umfjöllunarefni söngsins contrastar þannig skemmtilega við tæknilegt og tilfinningalaust grúvið. En shit hvað þetta minnir mig á „Energy Flash“…

07. Omar S – Oasis 13-1/2
08. Omar S – 1 Out Of 853 Beats
Omar leiðir okkur yfir í aðeins léttari tóna, djúpur bassa botninn hverfur og í staðinn birtist „hendur upp í loft“ synthi í elektró fíling, í kringum hann vefur Omar svo píanó grúv. Þetta er slagari, ég er farinn að dansa í stólnum. „1 Out Of 853 Beats“ er hins vegar í dimmara og drungafyllra. Aftur minnir syntha línan mig á gamla klassík, „Positive Education“ með Slam, sem Jónfrí póstaði hér um daginn sem föstudagsflagara.


09. Omar S – Simple Than Sorry
10. Omar S – Psychotic Photosynthesis
Ýmiskonar ásláttarhljóðfæri bergmála hér yfir drífandi bassatrommu, svo koma fleiri hljóð til sögunar sem ég kann ekki að gera skil, en þetta er grípandi. „Psychotic Photosynthesis“ fær gott trommuintro áður en seyðandi laglínan birtist. Ótrúlega flott. Nú hækkar maður í græjunum og vonar að nágranninn sé ekki heima, alger klúbbatryllir. Synthalúppurnar fléttast saman og aðallaglínan dansar ofan á þeirri fléttu, dubbað grúv. Manni langar að þeysast um á hraðbrautum Michigan með þetta í græjunum, helst í kagga sem Omar S setti saman hjá Ford þar sem hann vinnur víst á daginn.

11. Omar S – The Maker
12. Omar S – A Victim
„The Maker“ er hins vegar algert antiklímax, eftir alla uppbygginguna úr laginu á undan, dáleiðandi teknó væb er farið yfir í eitthvað divu house dæmi. Söngkonan er þar að auki frekar leiðinleg… Svona skyndilegt stefnuflakk er vandmeðfarið og það er ekki að ganga upp hjá Omar S hérna. Þessi tvö mix eru soldið hrá þar að auki, tóntegundirnar ekki að blússa saman. Ætli Omar S notið mixed-in-key? „A Victim“ er samt töff lag, sneril-drifin techno fílingur og seyðandi söng sömpl.

13. Omar S – Oasis One
14. Omar S – Blade Runner
Ég er að verða búinn með techno-lýsingarorða forðann minn… Hljóðin í „Oasis One“ minna mig soldið á UR, drungaleg en vongóð á sama tíma. Ryþminn vinnur líka skemmtilega með bassalínunni, congo trommur lífga þunglamalegan botnin við. Í „Blade Runner“ koma double tempo hi hattar í staðinn fyrir congo trommurnar, læf sándið í trommunum er mótvægi við ómelódíska synthana. Það er gamal Detroit blær yfir hljóðunum sem mynda „Blade Runner“, sennilega harðasta lag disksins.

15. Omar S – Day
16. Omar S – Set Me Out
Að fara úr „Blade Runner“ yfir í „Day“ er algjört stílbrot, en hérna gengur það upp. „Day“ er house lag í flottum diskó fíling, snýst meira eða minna í kringum tveggja takta Supremes sampl. Raddirnar færast fram og aftur í mixinu, ekki eftir kúnstarinnar reglum heldur bara geðþóttarákvörðunum Omar S á mixernum að því er virðist, sloppy læf væb. „Set Me Out“ er seiðandi og melódískt og í þetta skiptið er það skemmtilegur söngvari sem þenur raddböndin. Fínt lokalag á fínum disk, á mjög góða spretti og sem eru þó slitnir í sundur með óheppilegu lagavali á tímum.

Tóndæmi
Juno Player

Kaupa

Boomkat | Juno | Fabric áskrift

Hlekkir
Omar S – Fabric 45
FXHE

Plötudómur: Guido – Orchestral Lab (Punch Drunk)

Guido
Orchestral Lab / Way You Make Me Feel
Drunk011
Punch Drunk
Dubstep / Grime
4/5

.

Guido er ungur Bristolbúi sem ásamt félögum sínum Gemmy og Joker er að gera einstaklega forvitnilega tónlist sem blandar áhrifavöldum úr ýmsum áttum saman í forvitnilegan kokteil. Grime, dubstep, g funk hip hop og 80’s electro er það sem kemur upp í hugann en útkoman er sérkennileg, hálf kjánleg en ótrúlega funky. Punch Drunk útgáfa Peverelist gefur út fyrstu 12” Guido og er gripurinn kostakaup.

“Orchestral Lab” setur saman melódíska og epíska strengi, píanó lick og allskyns syntha grúsk yfir crunk skotið 808/909 bít. Útkoman er hip hop skotinn headnodder sem verður betri eftir því sem þú hækkar meira í græjunum. “Way You Make Me Feel” er á svipuðum slóðum, staccato legur bassi og synthi mynda drífandi grun undir hljóðgervla leikfimi, arpeggiatorar og hljómar hringsnúast í kringum hvorn annan og takast á við jazzaða píanó línu. Cheesy en fallegt lag.

Þegar wobblaðir dansgólfatryllar tóku að taka yfir dubstep senuna í kringum 2007 hélt maður tímabundið að framtíð stefnunnar lægi í techno-dubstep bræðingi annars vegar og endurvakningu garage arfleiðarinnar hins vegar, geirar sem hafa getið af sér úrvals tónlist en taka sjálfa sig þó helst til hátíðlega. Listamenn eins og Joker, Zomby, Rustie, Ikonika og nú Guido sýna með tónsmíðum sínum fram á hvernig dubstep getur verið skemmtileg og framúrstefnuleg á sömu stundu, haft húmor en samt verið töff og hentað fyrir dansgólfin sem og svefnherbergið.

Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com

Tóndæmi
Juno Player

Kaupa
Boomkat | Juno

Hlekkir

Guido á Myspace
Punch Drunk á Myspace

Plötudómur: Mount Kimbie – Maybes EP (Hotflush)

Mount Kimbie
Maybes EP
HF021
Hotflush
Dubstep / Electronica
4,5/5

Í síðustu viku var ég eins og oft áður að kvarta og kveina á Huga. Að þessu sinni var það yfir vaxandi tilhneigingu íslenskra danstónlistaraðdáenda til þess að sleppa því að nefna plötuútgáfur í upptalningum sínum (til að mynda í lagalistum fyrir syrpur og í topp listum sínum). Einhver svaraði því til að plötuútgáfur skiptu ekki máli fyrir hann eftir mp3 væðinguna en því verð ég að vera algerlega ósammála, ef eitthvað er gegna útgáfufyrirtæki enn mikilvægara síu-hlutverki í því upplýsingaflóði sem fylgir stafrænu byltingunni. Þetta er að sjálfsögðu efni í pælingar-færslu sem ég mun kannski púsla saman einhvern tíman síðar, en þetta eru líka góð inngangsorð að þessum plötudómi þar sem um er að ræða fyrirtaks skífu sem hefði sennilega algerlega farið framhjá mér ef ekki væri fyrir útgáfufyrirtækið sem stendur að henni.

Hotflush er útgáfufyrirtæki Scuba, bresks dubsteppara, sem flutti sig nýlega um set til Berlínarborgar. Á vegum Hotflush hefur Scuba teigt og togað dubstep hugtakið í ýmsar áttir, fyrir skemmstu fékk hana technobolta héðan og þaðan til þess að véla um remix á breiðskífu sinni Mutual Antipathy en með því að gefa út frumraun dúósins Mount Kimbie gengur hann jafnvel enn lengra. Er þetta dubstep? Ég er ekki viss, kannski, en samt eiginlega ekki. Hvað er þetta þá? Aftur er ég ekki alveg viss.

Í slíkri óvissu verður maður að draga fram einhverjar tilvísanir og tengingar sem manni finnst viðeigandi. Hljóðheimurinn er í anda Four Tet og Fridge á tímum finnst mér, taktarnir eru framandi og í anda Shackleton, loks minnir notkun vókala og söngs mig soldið á Animal Collective m.a. í því hvernig söngurinn virðist liggja tónlistinni að baki og skína óljóst í gegnum hana eins og draugaraddir. Á óljósari hátt verður manni hugsað til Boards of Canada og annara Warp banda og íslensk ökt eins og Múm og Klive koma einnig til greina. Hugsanlega mætti kalla þetta post-rock skotna elektróník.  Svona gæti ég haldið áfram en ég er hvorki viss um að allir yrðu sammála mér né um að tengingar mínar séu “réttar”, vegna þess að þessi skífa passar ekki nákvæmlega inn í þá flokka og merkmiða sem að eru á mínu tónlistarlega þekkingar- og þægindasviði.

Snúum okkur að tónlistinni, Mount Kimbie gera opna og víða raftónlist, lífræn hljóð eru aftengd uppruna sínum með lúppum og endurtekningum og kallast á við rafrænari tóna, bergmál og skruðningar liggja yfir öllu saman og óskýr og óskiljanlegur söngur ómar að handan. Þetta er ekki danstónlist, a.m.k. ekki fyrir þá dansstaði sem ég sæki heim. En þetta er falleg og örlítið melankólísk tónlist til heimahlustunar eða í göngutúrinn, svolítið vetrarleg og því viðeigandi að hún rati í verslanir á köldustu mánuðum ársins. Titillagið “Maybes” fer í gang með einföldu rafmagnsgítar riffi sem bergmálar einmannalega þangað til letilegur takturinn sem hljómar líkt og hann sé leikin á eitthvað allt annað en trommur fer af stað. Upp pitchaðar raddir eru bjart mótvægi við gítarinn og detta inn sem laglína yfir grunninn sem hann leggur.

“William” hefst á skruðningum sem hljóma líkt og lagið sé leikið af gamalli mikið spilaðri plötu, píanó- og strengjahljómar bergmála fram og aftur og eru klipptir sundur og saman líkt og hoppað sé fram og aftur í tónverki. Letileg bassatromma dettur svo inn og kringum hana er skemmtilegur taktur ofin úr hinum ýmsu umhverfishljóðum. Stuttur ógreinanlegur söngkafli kemur dettur skyndilega inn og út, í óvæntri fráveru sinni bergmálar hann aftur og aftur í huganum út lagið.

Í “Taps” koma Shackleton tengslin sem ég minntist á fram, taktar og tónar mætast og takast í einskonar keppni. Samskonar taktaleikfimi er áberandi í “Vertical”, feedback skotinn og hrjúfur synthi hittir fyrir ónákvæman ásláttarhljóðfæraleik og í seinni hluta lagsins mynda þau í sameiningu grunn undir melódísku en barnalegu hjali sem lúppar út næstu mínútur.

Þótt þessi skífa kunni að liggja í dubstep hraða, í kringum 140 bpm, efast ég um að hún muni mikið rata í spilun hjá plötusnúðum þess geira. Ég er hins vegar viss um að þetta er fyrirtaks elektrónísk tónlist og að hún hefði að öllum líkindum farið fram hjá mér ef Scuba hefði ekki fundið henni heimili á Hotflush. Í því sannast hvaða hlutverki góð útgáfufyrirtæki gegna með því að taka upp á sína arma góða tónlist, sem þeir telja að eigi erindi til hlustenda sinna jafnvel þótt þar sé sveigt framhjá þeim stefnum eða geirum sem útgáfufyrirtækin eru alla jafna tengd við.

-Karl Tryggvason  | ktryggvason@gmail.com

Tóndæmi
Juno Player

Kaupa
plötu: Juno | Phonica | Boomkat
mp3: Beatport

Mount Kimbie á Myspace

Plötudómur: The Mountain People – Mountain 006 ***


The Mountain People
Mountain 006
MOUNTAIN 006
Mountain People
Deep House / Minimal
3/5

Félagarnir Serafín og Rozzo sem báðir eru þungavigtarmenn í housinu mynda duoið Mountain People. Í  fyrra gáfu þeir út tvær 12″  undir þessu nafni, báðar þessar 12″ rötuðu á topplistana hjá plötusnúðum víðsvegar um heiminn, meðal annars hjá hinum þýsku Ame og tecno konunginum Ricardo Villalobos.

Á Mountain 006 er að finna tvö lög sem heita þeim frumlegu nöfnum Mountain 006.1 og Mountain 006.2(ef platan er keypt á beatport er einnig að finna auka lag). Bæði lögin minna mikið á fyrri lög dúosins, mikið percussion og mikill tech house fílingur.  Þó að lögin séu bæði mjög groovy, þá eru þau keimlík og frekar . Hér legg ég þó áherslu á groovy, þá sérstaklega Mountain 006.2.

Ég efast ekki um að bæði lögin verði spiluð í gríð og erg næsta mánuðinn, enda vel produceruð lög og Mountain People orðnir vel þekktir í bransanum . Eftirminnilega verða þau þó örugglega ekki þar sem þau eru of lík flestu öðru sem er að gera í deep housinu í dag.

Tóndæmi:
The Mountain People – Mountain 006.1
The Mountain People – Mountain 006.2

Kaupa
plötu: Juno | Phonica
mp3: Beatport