Flokkaskipt greinasafn: Umfjöllun

Skemmtileg grein eftir Terre Thaemlitz

Tónlistarmaðurinn Terre Thaemlitz betur þekktur sem Dj Sprinkles átti plötu ársins 2009 að mati margra. Platan er að mínu mati frábær og hef ég sérstaklega gaman af talkoveri frá honum um hvað dreifingaraðilar og Madonna séu ömurleg. Það kom mér því ekki svo að óvart þegar ég rakst á þessa grein eftir hann á heimasíðu Comatonse, sem er label rekið af honum.

Í greininni færir Terre rök fyrir því afhverju honum finnst  dreifingaraðiliar vera fávitar og afhverju það sé erfitt að nálgast tónlist með hagfræðilegum sjónarmiðum. Skemmtileg lesning.Mæli með fólk tékki á  plötunni hans 120 Midtown Blues og á heimasíðu Comatonse, þar er margt skemmtilegt að finna.

Undir Jökli – Ný Íslensk Raftónlistarhátið

Næstu helgi fer fram raftónlistarhátið á vegum Extreme Chill á Hellissandi á Snæfellsnesi. Hátíðin ber nafnið Extreme Chill Festival Undir Jökli, þar koma fram 18 tónlistarmenn og spila bræðing af raf, dub og reggea tónlist. Af tónlistarmönnum sem þar stíga á stokk má nefna Stereo Hypnosis, Legend, Biogen, Futurgrapher, Frank Murder, Ruxpin, Xerxes frá Noregi og Moonlight Sonata frá Frakklandi.

Forsala á armböndum er í 12 Tónum og Smekkleysu Plötubúð. Armbandið kostar aðeins 2500 kr og er um að gera að tryggja sér armband sem allra fyrst. Einnig verður hægt að kaupa armbönd á félagsheimilinu Röst á Hellissandi.

Tjaldsvæði er á staðnum og er frítt fyrir þá sem að bera armbönd og verða ýmsar uppákomur á tjaldsvæðinu þar á meðal live uppákoma fra Captain Fufanu og dj sett fra Karius og Baktus o.fl. Einnig er hótel sem að hægt er að gista á fyrir þá sem að ekki eiga tjald.

Áhrifamestu listamenn og hljómsveitir danstónlistarinnar

BBC greinir frá niðurstöðum könnunar sem breska tónlistarhátíðin Global Gathering stóð fyrir um áhrifamestu böndin og/eða listamennina í danstónlistarsögunni. Gömlu brýnin í Prodigy tróna á toppnum en fast á hæla þeira komu Daft Punk,  Faithless,  New Order, Orbital og Kraftwerk. Carl Cox, Paul Oakenfold og Fatboy Slim voru einu sólólistamennirnir og plötusnúðarnir á listanum. 

Persónulega þykir mér þessi listi slá saman frægustu og farsælustu við áhrifamestu, Prodigy er kannski ein þekktasta danstónlistarsveitin og vissulega hafa þeir félagar haft mikil áhrif en t.d. toppa þeir í mínum bókum seint Kraftwerk hvað varðar áhrif. Sömuleiðis er skemmtilegt að skoða þennan lista í ljósi þess hversu áberandi bresk bönd eru (enda könnunin bresk), aukinnheldur er merkilegt hversu 90’s listinn er í raun og veru. En þetta vekur umræðu og athygli, er það vel.

-Karl Tryggvason

Klúbbabókmenntir

Augljóslega hafa plötusnúðar, danstónlist og klúbbamenning spilað stórt hlutverk í daglegur lífi ungmenna síðustu 20 ár eða svo og gerir enn. Þessi viðfangsefni hafa orðið uppsprettan af fjöldann allan af bókum og í þessari færslu ætla ég að fjalla um nokkrar.

Altered State: The story of ectstasy culture and acid house eftir Matthew Collin og John Godfrey
Eins og titillinn bendir til fjallar þessi bók um eiturlyf, danstónlist og klúbbamenningu. Í bókinni er farið yfir hvernig MDMA þróaðist frá því að vera lyf notaða af sálfræðingum yfir í hið vinsæla rave eiturlyf betur þekkt sem ecstacy. Spennandi að lesa hvernig lyfið var notað fyrst. Skv. bókinni hefði maður fengið handskrifaðar leiðarvísir sem ætti að koma manni í gegnum reynslunna hafði maður keypt eiturlyfið 1970.

Seinni hluti bókarinn er síðan um rave-menninguna í Englandi og hvernig þeir sem stóðu á bakvið rave-inn fóru að því að klekkja á yfirvöldum. Mæli sérstaklega með fyrri hluta bókarinnar, en seinni hlutinn fannst mér verða svolítið langdrægur. Bókin er þó í heildina skemmtileg lesning fyrir alla þá sem hafa brennandi áhuga á danstónlist.

Lost and Sound: Berlin, Techno und der Easyjetset eftir Tobias Rapp
Þar sem Berlín hefur verið eins konar Mekka danstónlistaraðdáendans datt auðvitað einhverjum í huga að skrifa bók um það. Tobias Rapp hefur lengi  fylgst með senunni í Berlín og fer yfir þróunina á henni síðan á tíunda áratugnum. Gaman að heyra lesa sögur af gamla Tresor, hugmyndafræðina og söguna bakvið hin alræmda Bar25 og viðtöl við nokkra lykilmenn senunnar t.d. Dixon og Efdemin.

Skemmtilegasti hluti bókarinnar þykir mér þó vera kaflinn um Berghain eða meira um röðinna fyrir utan Berghain. Ég hef staðið í þessari röð nokkrum sinnum og gaman að sjá hvernig höfundurinn er að hugsa nákvæmlega það sama og maður sjálfur. Innervisions hafa svo fengið bókina þýdda yfir á ensku og er hún fáanlega hér.

How to Dj (properly): The art and Science of playing records eftir Bill Brewster og Frank Broughton
Þessi bók er meira svona coffee table bók heldur en hinar. Í bókinni fara þeir Bill Brewster og Frank Broughton(sem eru líka höfundar Last night a dj saved my life)  yfir öll helstu atriði plötumennskunnar eins og að beatmixa, opna nýjar plötur og meika það sem kvennkynsplötusnúður. Ýmiss skemmtileg og hagnýt ráð má finna í bókinni og misgáfuleg quote eftir fræga plötusnúða eins og „Silence is as important as sound“, ég leyfi lesendum að giska eftir hvern þetta quote er.

Red Bull Music Academy

Eins og við höfum áður bent á er Red Bull Music Academy eitthvað sem allir tónlistarmenn og plötusnúðar ættu að tjékka á. Síðasta námskeið þeirra Red Bull manna var haldið í London í febrúar mánuði, eins og búast mátti við fór fram fjöldinn allur af skemmtilegum tónleikum og fyrirlestrum frá spennandi listamönnum. Meðal þessara listamanna má nefna Moodyman, Kode 9, Martyn og Modeselektor.

Ef  maður var ekki svo heppinn að hafa komist inn í skólann, getur huggað sig við það að horfa má á fyrirlestrana á netinu. Ég mæli sérstaklega með að fólk tékki á Moodymann fyrirlestrinum. Moodymann veitir sjaldan viðtöl og er svolítið skemmtilegur karakter, svo er tónlistin hans líka frábær.  Lista yfir fyrirlestra árið 2010 má finna hér.

Hliðrænt í Stafrænt – Plötuupptökur Bjögga Nightshock

Síðustu færslur hér á DansiDans hafa fjallað um vínylást og plötusöfnun en því verður ekki neitað að þrátt fyrir alla sína kosti er vínyllinn ekki jafn handhægur og hin ýmsu stafrænu skráarsnið sem hafa rutt sér til rúms á undanförnum árum. Af þeirri ástæðu og ýmsum öðrum hafa margir lagst í það verkefni að koma skífum sínum á stafrænt form á síðustu árum; plötusnúðurinn Bjöggi Nightshock er í þeim hópi. Bjöggi hefur á undanförnum árum lagt mikinn tíma og vinnu í slíkar upptökur og er fróðari en margur um málefni þessu tengt. DansiDans fór á stúfana og spurði Bjögga spjörunum úr um plötuupptökur.

Hvernig kom það til að þú fórst að taka upp plöturnar þínar (og annarra) í stórum stíl?
Það er svo langt síðan ég byrjaði að taka upp plötur að ég man ekki lengur af hverju ég byrjaði. Það er auðvitað mjög þægilegt að geta sett saman playlista með fullt af lögum og hlustað í stað þess að vera kannski með 20 plötur á gólfinu og svo setja hverja plötu á fóninn.

En einhvern veginn varð þetta að risa stóru áhugamáli og maður hreinlega festist í þessu. Svo þegar maður er kominn með plötusafn upp á 1500 plötur þá er þetta einnig mjög fín leið til að „kynnast“ plötunum.

Hvaða græjur ertu að nota í augnablikinu?
Ég nota „moddaðan“ Technics 1200MK2 spilara. Fyrst var vökvadempari sem er fylltur af sílikoni settur á tónarminn. Hugmyndin bakvið það er að nálin helst betur í grúvinu þó svo að platan sé ekki endilega slétt (sem fæstar plötur eru) og minnkar alla mótstöðu sem er mjög mikilvægt þegar nálin er stillt á rétta þyngd.

Svo var settur mjög fínn koparvír inn í tónarminn sem er svo leiddur út á plötu bakvið spilarann og tengt svo í Ecler Nuo 2.0 mixer sem er svo tengdur í Lynx L22 hljóðkort í tölvunni.

Allt er svo rétt stillt eftir leiðbeiningum. Tónarmurinn þarf að vera í réttri hæð, nálin þarf að vera í réttri lengd frá tónarminum, anti-skate þarf að vera stillt í samanburði við þyngdina á tónarminum og svo framvegis. Þetta er allt breytilegt miðað við hvað maður er með.

Ég hlusta á allar upptökur í Sennheiser HD650 heyrnartólum sem eru keyrð af Creek OBH-11 headphone magnara.

Hvernig pickupp notarðu?
Ortofon 2m Bronze. Mjög fínn pickupp sem er með mjög mjórri nál sem er til þess að hún komist dýpra í plötuna og þar af leiðandi í svæði sem eru kannski alveg ósnert af öðrum nálum. Ég valdi hann þar sem að mig vantaði mjög góðan pickupp í upptökur sem myndi einnig endast mjög lengi.

Hvernig geymirðu upptökurnar? Mp3? Wav? Flac? Ertu með backup?
Fyrst voru upptökurnar geymdar sem 64kbit Mp3 skrár og voru teknar upp á +6 eða +8 svo lögin væru styttri. Svo eftir því sem diskapláss stækkaði þá stækkuðu gæðin líka. Í dag geymi ég upptökurnar sem 96khz 24bit Flac skrár og finnst það vera í raun meira en nóg! Ég hef stóran hluta af safninu á 320 Mp3 formi á flakkara en stefni á að skipta því yfir í Flac á endanum.

Hvernig er ferlið í kringum upptökur hjá þér?
Fyrst er platan hreinsuð, ef það er eitthvað um puttaför eða platan er augljóslega drullug þá er hún þrifin í köldu vatni með sápu og látin þorna í nokkra klukkutíma eftir að búið er að þurrka plötuna. Ef mikið af stöðurafmagni á plötunni þá nota ég sérstakan vökva til að losna við það. Ef ég þarf ekki að þvo plötuna þá nota ég límbandsrúllu sem ég fann á Chemical Records til að „rífa“ rykið af plötunum, svínvirkar! Ég hef prófað svona vökvasprey sem á að leysa upp drullu af plötum en hef ekki fengið neitt voðalega góðar niðurstöður af þeirri notkun.

Nálin á pickuppnum er hreinsuð fyrir og eftir hverja plötu með bursta sem fylgdi með honum. Það safnast alltaf eitthvað af ryki og drullu á nálina alveg sama hversu hrein platan er og ef þetta er ekki fjarlægt þá bæði dreyfir þetta meiri drullu á næstu plötur og festist á nálinni sem gerir það að verkum að hún fer að hljóma verr. Það eru til vökvalausnir sem hreinsa skítugar nálar en ég er ekki mikið hrifinn af því.

Hvert lag er svo tekið upp í Adobe Audition eins hátt og hægt er án þess að hljóðið fari að bjagast. Eftir að lagið er tekið upp skoða ég lagið með frequency analyzer til að finna út hvort að það sé mikill hávaði frá plötunni sjálfri í upptökunni og svo lagið bútað niður í kafla og hent í forritið DenoiseLF sem fjarlægir tíðnir á bilinu 20-220hz, það fer allt eftir laginu hversu mikið er fjarlægt og á nýjum plötum er nánast ekkert fjarlægt þar sem að þetta er mest áberandi á gömlum mjög spiluðum plötum og picture diskum. Eftir að búið er að fjarlægja lágtíðnir sem eru ekki hluti af laginu þá er lagið sett í gegnum Clickrepair ef það er eitthvað um rispur í laginu. Eftir það er lagið sett saman aftur og svo hlustað á það til að gá hvort að ég hafi misst af einhverju og hvort þetta hljómi ekki bara ásættanlega.

Hvað ertu búinn að taka upp mikið af tónlist?
Ég held að ég hafi byrjað að taka upp árið 2000. Ef ég tel með öll skiptin sem ég hef tekið upp frá grunni þá hef ég tekið upp alveg mörg þúsund lög (kannski hátt í 10.000). Það er alveg gríðarlegur tími sem er búinn að fara í þetta.

Fyndist þér svindl að stela bara upptökunum (t.d. torrent eða eitthvað slíkt)
Það hjálpar mér mjög lítið þar sem ég veit ekkert um gæðin á þeim og ég vill hafa lögin í sömu gæðum. 320 mp3 passar ekki alveg inni í safn af 96khz 24bit Flac skrám. Ef það væri einhver þarna úti sem væri með nákvæmlega eins setup og ég og væri búinn að taka upp allar plöturnar í safninu mínu þá myndi ég sennilega „stela“ þeim.

Hvað notarðu til þess að halda utan um upptökurnar, einhvern gagnagrunn? iTunes? Winamp?
Hver plata fær möppu sem er geymd í möppu fyrir hvert og eitt útgáfufyrirtæki. Fyrir stærri label eins og moving shadow sem eru með mörg mismunandi catalog númer þá eru sér möppur til að halda utan um það líka (t.d. MSX, ASHADOW, SHADOWR). Hver mappa byrjar á ártali, svo catalog númeri, listamanni og svo loks titli skífunnar.

Hvaða fylgigögn (metadata) eru með lögunum? Titlar, útgáfur, bpm, artwork?
Titlar, ártal og catalog númer. Fyrir mér er það allar þær upplýsingar sem ég þarf.

Skemmtilegt viðtal við Martyn

Hollenski „stepnó“(yndislega hallærislegt orð) producerinn Martyn fékk um daginn það skemmtilega hlutverk að gera 50. Fabric diskinn. Fabric diskarnir eru vinsæl sería geisladiska sem gefinn eru út af samnefndum ofurklúbb í London og meðal listamanna sem hafa gert diska fyrir seríuna má nefna Ricardo Villalobos, Luciano og Ame.

Mörgum  þykir það ansi djarft að Fabric menn biðji Martyn um að gera Fabric disk sem er meira ætlaður teknó og house tónlist á meðan systur serían Fabriclive hefur meira verið tileinkuð broken beat og dubstep. Martyn er þó skemmtilegur plötusnúður og settið sem hann tók á Airwaves 2007 með þeim betri sem ég hef heyrt. Honum tekst mjög vel að blanda saman house,dubstep og dnb. Hér er hægt að finna umfjöllun um diskinn og svo mæli með myndbandinu hérna fyrir neðan.

DansiDans eins árs!

DansiDans fagnaði eins árs afmæli í kyrrþey í gær en fyrsta færslan á þessari síðu fór upp 25. nóvember 2008. Síðan þá hafa svo dottið inn 156 færslur í 21 flokka með 494 töggum og gestir síðunnar hafa skilið eftir 518 athugasemdir (þar af 8 spam). Gestafjöldin hleypur á tugum þúsunda á árinu og eru vinsælustu færslurnar um væntanlega svínaplötu Matthew Herbert og Oculus hlaðvarpið. Annars eru 8 hlutar komnir í hlaðvarpið okkar, hvor öðrum betri og sennilega sá hluti síðunar sem ég persónulega er ánægðastur með. Ef miða má við viðbrögð áskrifenda og annnarra eru fleiri sáttir við DansiDans hlaðvarpið. Fylgist vel með því í vændum eru fjölbreytt og stórskemmtileg mix frá nokkrum af skemmtilegri snúðum lýðveldisins.

Annars er DansiDans skilgetið afkvæmi og hugmynd Magnúsar Felix, en honum þótti vöntun á vitrænni umfjöllun um rafræna danstónlist á Íslandi. Hér hefur verið gerð tilraun til þess að fylla í það skarð með skrifum og ábendingum Magnúsar og annarra vel valinna aðila. Við þökkum fínar móttökur og vonum að þið fylgist áfram með DansiDans.com því við höldum ótrauðir áfram. Ábendingar um efni og umfjallanir eru að vanda vel þegnar og sömuleiðis hlekkir á síðuna og athugasemdir á einstakar færslur.

Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com

Verndaðu heyrnina

Flestir sem þessa síðu lesa kannast eflaust við ýmsa fylgifiska þess að hlusta of hátt á tónlist í lengri eða styttri tíma. Hver hefur ekki vaknað “daginn-eftir” með ýlfur eða suð í eyrunum eða bara hálf heyrnarlaus. Öll ættum við auðvitað að vita að þetta er ekki gott fyrir heyrnina né eyrun, og sömuleiðis ættum við að muna að þegar þessi viðkvæmu skynfæri okkar skaddast er sá skaði oftast óendurkvæmur.

Í nafni lýðheilsu danstónlistarunnenda og annara hafði DansiDans því samband við Ellisif Katrínu Björnsdóttur heyrnarfræðing og eigenda Heyrnar sem sérhæfir sig í þjónustu til þess að bæta úr heyrnarskerðingu. Spurðum við Ellisif út í ýmsar sögur og sögusagnir um heyrnarskaða og hvernig maður mætti varðveita heyrnina fram á elli árin.

Farðu vel með eyrun þín (Mynd: Banlon1964)

DansiDans[DD]: Hvað er heyrn?
Ellisif Katrín [EKB]: Heyrn er skynjun en við gleymum oft mikilvægi hennar. Að heyra hljóð eins og tónlist, mal kattar, suð í flugu eða hjal smábarns hefur tilfinningalegt gildi. Að geta haft samskipti við annað fólk er grunnþörf flestra og það sem við lifum fyrir. Án heyrnar er lífið allt annað. Því er mikilvægt að passa vel og vernda þessa fullkomnu en viðkvæmu skynjun.

DD: Hvað er hávaði og hvernig skaðar hann heyrnina?
EKB: Hljóðstyrkur er kallaður hávaði ef hann er það mikill að hann getur skemmt heyrnina. Heyrnarskerðing er einn algengasti atvinnusjúkdómurinn í okkar iðnvæddu veröld.

Verði einstaklingur fyrir miklum hávaða getur hin viðkvæma bygging innra eyrans skemmst. Ef það gerist hefur hann orðið fyrir varanlegri heyrnarskerðingu sem getur bæði orðið af völdum mikils hvells, s.s. sprengingar, og viðvarandi hávaða.

Fólk í dag er mjög ómeðvitað um þær hættur sem of mikill hljóðstyrkur getur valdið á heyrninni. Rangmæli eru á kreik um að ef maður fílar tónlistina þá geti hún ekki valdið neinum skaða. Þetta er alrangt, er svipað og að segja að ef manni finnst eitthvað gott á bragðið að þá sé það ekki óholt.

Hávaði skemmir fyrst skynhárin neðst í kuðunginum en þar er hátíðni greind, efst uppi er lágtíðnin/bassinn greindur og skemmist hann síðast.

Í um 90% tilfella er um skynheyrnarskerðingu að ræða. Orsakir hennar eru oftast þær að hin örfínu skynhár í innra eyranu hafa annaðhvort brotnað eða skaddast. Skynhárin nema hljóðbylgjur og breyta þeim í rafboð sem berast til heilans um heyrnartaugina en heilinn túlkar rafboðin sem hljóð.

DD: Hefur hávaði einhver önnur áhrif á heilsu?
EKB: Hávaði er slæmur heilsunni, líkaminn spennist upp og fer í varnarstöðu, blóðþrýstingur hækkar og að vera í hávaða í lengri tíma veldur mikilli þreytu og minnkar einbeitningu.

Það getur verið háð erfðum hversu mikinn hávaða einstaklingar þola, sumir eru mjög viðkvæmir og hafa lægri sársaukamörk en aðrir. Ekki er hægt að dæma um það fyrirfram hversu mikinn hávaða maður þolir.

Rangmæli eru á kreik um að ef maður fílar tónlistina þá geti hún ekki valdið neinum skaða. Þetta er alrangt, er svipað og að segja að ef manni finnst eitthvað gott á bragðið að þá sé það ekki óholt.

DD: En tinnitus? Hvað er tinnitus og er hægt að lækna það?
EKB: Eyrnasuð/tinnitus er oft fylgikvilli heyrnarskerðingar en það er ýlfur eða sónn í eyrum eða höfði. Eyrnasuðið getur horfið, en er oft sleitulaust eða kemur og fer tímabundið alla ævi.

Hvernig má verjast þessum fylgikvillum hávaðans?
Til eru nokkrar gerðir af búnaði, sem velja má um, til að hlífa heyrninni. Þessi búnaður er mismunandi allt frá hefðbundnum frauð- eða silíkontöppum og heyrnarhlífum, sem loka næstum á allt hljóð, til heyrnarsía sem dempa skaðlegan hávaða án þess að breyta blöndun og tónblæ hljóðsins, þær dempa allar tíðnir hljóðs álíka mikið.

Hjá Heyrn er boðið upp á bæði sérsmíðaðar síur og staðalsíur en báðar gerðirnar er þægilegt að nota. Heyrnarsíur henta vel fyrir þá sem þurfa að verjast hávaða svo sem fyrir stóriðjustarfsmenn, atvinnutónlistarfólk, hljóðmenn, tannlækna, hljómleikagesti, vélhjólamenn, iðnaðarmenn, vélstjóra, flugmenn o.fl.

(Mynd Vísindavefurinn)

DD: Hvaða hlutverk spilar notkun heyrnartóla og vasadiskóa/ipodda?
EKB: Hægt er að finna á netinu rannsóknir sem gerðar hafa verið á heyrn þeirra sem nota Ipod og MP3. Niðurstöðurnar eru ætið þær að heyrnin skemmist við notkun á þessum tækjum. Viðvaranir hafa verið gefnar út allt frá árinu 1980 um skaðsemi heyrnartóla og sérstaklega litlu inn í eyra heyrnartólanna.

Langvarandi notkun spilara og hár hljóðstyrkur skemmir heyrnina. Hlustendur eiga það til að stilla spilara of hátt þegar einhver bakgrunnshljóð eru og geta við það náð sársaukamörkum. Það er betra að nota heyrnartól með spöngum heldur en þau sem fara inn í eyrun. Gallinn er að hlustendurnir eru að hugsa meira um útlitið heldur en heyrnina sína.

Ipod sem seldur er í Evrópu á að hafa innbyggt hámark í spilurunum en gallinn er sá að margir taka það af til að geta spilað hærra. Slíkt ætti engin/nn sem vill halda heyrninni óskemmdri að gera.

DD: Hvaða ráð myndir þú gefa tónlistarfólki og plötusnúðum til þess að forðast þær hættur sem starfsumhverfi þeirra býður heim?

EKB: Þau ráð sem tónlistarfólk og plötusnúðar ættu að hafa í huga er að halda hljóðstyrknum í hófi og vera með heyrnarsíur. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á stjórnendum tónlistar og mikilvægt að verða ekki valdur að því að aðrir verði heyrnarskertir. Mikil lífsgæði tapast þegar maður missir heyrnina.

Verndaðu heyrnina á meðan þú hefur hana!

DansiDans þakkar Ellisif fyrir upplýsingarnar. Því má svo að lokum við bæta að undirritaður fjárfesti í sérsniðnum heyrnarsíum/eyrnartöppum hjá Heyrn fyrir um tveim árum og er það einhver besta tónlistartengda fjárfesting hans undanfarin ár. Allt annað líf að fara á tónleika og skemmtistaði þegar maður hefur þann valkost að “lækka” örlítið í tónlistinni. Mæli hiklaust með því að skoða slíkt fyrir þá sem kenna sér meins vegna hávaða.

-Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com

Matthew Herbert gerir plötu með svíni

Ég las nýverið um nýjasta uppátæki hins ágæta en sérvitra tónlistarmanns Matthew Herbert. Matthew hyggst ala upp svín sem síðan skal slátra, borða og smíða úr hljóðfæri. Hausinn verður matreiddur af stjörnukokkinum Heston Blumenthal en beinin verða notuð í flautu sem notuð verður á næstu plötu Matthew, ásamt upptökum af svíninu á meðan það er á lífi. Hugsanlega verður skinnið svo notað í trommu en hann telur það skildu sína sem tónlistarmanns að gera tilraunir með hljóð og nýstárleg hljóðfæri.

Svínið hans Matthew Herbert

„Um þetta snýst vinna mín – það er á ábyrgð listamannsins að búa til tengingar, sama hve skrítnar þær kunna að reynast og hvert þær taka okkur.“

Svínið hans er víst um 8-9 vikna gamalt sem stendur og eru upptökur í fullum gangi.

Svínið hans Matthew Herbert

Þetta verkefni, sem kallast One Pig, er partur af þríleik þar sem listamaðurinn gerir plötur sem allar samanstanda af einum hlut hver. Hinar tvær plöturnar eru One One, þar sem Matthew mun spila á allt sjálfur og syngja – og svo One Club þar sem Matthew tók upp gesti Robert Johnson klúbbsins í nágrenni Frankfurt og munu þeir sem þar voru skapa allan efnivið í þá plötu.

Matthew Herbert við upptökur

Það er svo hægt að lesa meira um ævintýri svínsins hér.

Ég rakst svo á þetta skemmtilega plagg. Það er ótengt umræddu verkefni, en engu að síður skemmtilegt.

Jáhá…