Flokkaskipt greinasafn: Umfjöllun

DansiDans eins árs!

DansiDans fagnaði eins árs afmæli í kyrrþey í gær en fyrsta færslan á þessari síðu fór upp 25. nóvember 2008. Síðan þá hafa svo dottið inn 156 færslur í 21 flokka með 494 töggum og gestir síðunnar hafa skilið eftir 518 athugasemdir (þar af 8 spam). Gestafjöldin hleypur á tugum þúsunda á árinu og eru vinsælustu færslurnar um væntanlega svínaplötu Matthew Herbert og Oculus hlaðvarpið. Annars eru 8 hlutar komnir í hlaðvarpið okkar, hvor öðrum betri og sennilega sá hluti síðunar sem ég persónulega er ánægðastur með. Ef miða má við viðbrögð áskrifenda og annnarra eru fleiri sáttir við DansiDans hlaðvarpið. Fylgist vel með því í vændum eru fjölbreytt og stórskemmtileg mix frá nokkrum af skemmtilegri snúðum lýðveldisins.

Annars er DansiDans skilgetið afkvæmi og hugmynd Magnúsar Felix, en honum þótti vöntun á vitrænni umfjöllun um rafræna danstónlist á Íslandi. Hér hefur verið gerð tilraun til þess að fylla í það skarð með skrifum og ábendingum Magnúsar og annarra vel valinna aðila. Við þökkum fínar móttökur og vonum að þið fylgist áfram með DansiDans.com því við höldum ótrauðir áfram. Ábendingar um efni og umfjallanir eru að vanda vel þegnar og sömuleiðis hlekkir á síðuna og athugasemdir á einstakar færslur.

Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com

Verndaðu heyrnina

Flestir sem þessa síðu lesa kannast eflaust við ýmsa fylgifiska þess að hlusta of hátt á tónlist í lengri eða styttri tíma. Hver hefur ekki vaknað “daginn-eftir” með ýlfur eða suð í eyrunum eða bara hálf heyrnarlaus. Öll ættum við auðvitað að vita að þetta er ekki gott fyrir heyrnina né eyrun, og sömuleiðis ættum við að muna að þegar þessi viðkvæmu skynfæri okkar skaddast er sá skaði oftast óendurkvæmur.

Í nafni lýðheilsu danstónlistarunnenda og annara hafði DansiDans því samband við Ellisif Katrínu Björnsdóttur heyrnarfræðing og eigenda Heyrnar sem sérhæfir sig í þjónustu til þess að bæta úr heyrnarskerðingu. Spurðum við Ellisif út í ýmsar sögur og sögusagnir um heyrnarskaða og hvernig maður mætti varðveita heyrnina fram á elli árin.

Farðu vel með eyrun þín (Mynd: Banlon1964)

DansiDans[DD]: Hvað er heyrn?
Ellisif Katrín [EKB]: Heyrn er skynjun en við gleymum oft mikilvægi hennar. Að heyra hljóð eins og tónlist, mal kattar, suð í flugu eða hjal smábarns hefur tilfinningalegt gildi. Að geta haft samskipti við annað fólk er grunnþörf flestra og það sem við lifum fyrir. Án heyrnar er lífið allt annað. Því er mikilvægt að passa vel og vernda þessa fullkomnu en viðkvæmu skynjun.

DD: Hvað er hávaði og hvernig skaðar hann heyrnina?
EKB: Hljóðstyrkur er kallaður hávaði ef hann er það mikill að hann getur skemmt heyrnina. Heyrnarskerðing er einn algengasti atvinnusjúkdómurinn í okkar iðnvæddu veröld.

Verði einstaklingur fyrir miklum hávaða getur hin viðkvæma bygging innra eyrans skemmst. Ef það gerist hefur hann orðið fyrir varanlegri heyrnarskerðingu sem getur bæði orðið af völdum mikils hvells, s.s. sprengingar, og viðvarandi hávaða.

Fólk í dag er mjög ómeðvitað um þær hættur sem of mikill hljóðstyrkur getur valdið á heyrninni. Rangmæli eru á kreik um að ef maður fílar tónlistina þá geti hún ekki valdið neinum skaða. Þetta er alrangt, er svipað og að segja að ef manni finnst eitthvað gott á bragðið að þá sé það ekki óholt.

Hávaði skemmir fyrst skynhárin neðst í kuðunginum en þar er hátíðni greind, efst uppi er lágtíðnin/bassinn greindur og skemmist hann síðast.

Í um 90% tilfella er um skynheyrnarskerðingu að ræða. Orsakir hennar eru oftast þær að hin örfínu skynhár í innra eyranu hafa annaðhvort brotnað eða skaddast. Skynhárin nema hljóðbylgjur og breyta þeim í rafboð sem berast til heilans um heyrnartaugina en heilinn túlkar rafboðin sem hljóð.

DD: Hefur hávaði einhver önnur áhrif á heilsu?
EKB: Hávaði er slæmur heilsunni, líkaminn spennist upp og fer í varnarstöðu, blóðþrýstingur hækkar og að vera í hávaða í lengri tíma veldur mikilli þreytu og minnkar einbeitningu.

Það getur verið háð erfðum hversu mikinn hávaða einstaklingar þola, sumir eru mjög viðkvæmir og hafa lægri sársaukamörk en aðrir. Ekki er hægt að dæma um það fyrirfram hversu mikinn hávaða maður þolir.

Rangmæli eru á kreik um að ef maður fílar tónlistina þá geti hún ekki valdið neinum skaða. Þetta er alrangt, er svipað og að segja að ef manni finnst eitthvað gott á bragðið að þá sé það ekki óholt.

DD: En tinnitus? Hvað er tinnitus og er hægt að lækna það?
EKB: Eyrnasuð/tinnitus er oft fylgikvilli heyrnarskerðingar en það er ýlfur eða sónn í eyrum eða höfði. Eyrnasuðið getur horfið, en er oft sleitulaust eða kemur og fer tímabundið alla ævi.

Hvernig má verjast þessum fylgikvillum hávaðans?
Til eru nokkrar gerðir af búnaði, sem velja má um, til að hlífa heyrninni. Þessi búnaður er mismunandi allt frá hefðbundnum frauð- eða silíkontöppum og heyrnarhlífum, sem loka næstum á allt hljóð, til heyrnarsía sem dempa skaðlegan hávaða án þess að breyta blöndun og tónblæ hljóðsins, þær dempa allar tíðnir hljóðs álíka mikið.

Hjá Heyrn er boðið upp á bæði sérsmíðaðar síur og staðalsíur en báðar gerðirnar er þægilegt að nota. Heyrnarsíur henta vel fyrir þá sem þurfa að verjast hávaða svo sem fyrir stóriðjustarfsmenn, atvinnutónlistarfólk, hljóðmenn, tannlækna, hljómleikagesti, vélhjólamenn, iðnaðarmenn, vélstjóra, flugmenn o.fl.

(Mynd Vísindavefurinn)

DD: Hvaða hlutverk spilar notkun heyrnartóla og vasadiskóa/ipodda?
EKB: Hægt er að finna á netinu rannsóknir sem gerðar hafa verið á heyrn þeirra sem nota Ipod og MP3. Niðurstöðurnar eru ætið þær að heyrnin skemmist við notkun á þessum tækjum. Viðvaranir hafa verið gefnar út allt frá árinu 1980 um skaðsemi heyrnartóla og sérstaklega litlu inn í eyra heyrnartólanna.

Langvarandi notkun spilara og hár hljóðstyrkur skemmir heyrnina. Hlustendur eiga það til að stilla spilara of hátt þegar einhver bakgrunnshljóð eru og geta við það náð sársaukamörkum. Það er betra að nota heyrnartól með spöngum heldur en þau sem fara inn í eyrun. Gallinn er að hlustendurnir eru að hugsa meira um útlitið heldur en heyrnina sína.

Ipod sem seldur er í Evrópu á að hafa innbyggt hámark í spilurunum en gallinn er sá að margir taka það af til að geta spilað hærra. Slíkt ætti engin/nn sem vill halda heyrninni óskemmdri að gera.

DD: Hvaða ráð myndir þú gefa tónlistarfólki og plötusnúðum til þess að forðast þær hættur sem starfsumhverfi þeirra býður heim?

EKB: Þau ráð sem tónlistarfólk og plötusnúðar ættu að hafa í huga er að halda hljóðstyrknum í hófi og vera með heyrnarsíur. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á stjórnendum tónlistar og mikilvægt að verða ekki valdur að því að aðrir verði heyrnarskertir. Mikil lífsgæði tapast þegar maður missir heyrnina.

Verndaðu heyrnina á meðan þú hefur hana!

DansiDans þakkar Ellisif fyrir upplýsingarnar. Því má svo að lokum við bæta að undirritaður fjárfesti í sérsniðnum heyrnarsíum/eyrnartöppum hjá Heyrn fyrir um tveim árum og er það einhver besta tónlistartengda fjárfesting hans undanfarin ár. Allt annað líf að fara á tónleika og skemmtistaði þegar maður hefur þann valkost að “lækka” örlítið í tónlistinni. Mæli hiklaust með því að skoða slíkt fyrir þá sem kenna sér meins vegna hávaða.

-Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com

Matthew Herbert gerir plötu með svíni

Ég las nýverið um nýjasta uppátæki hins ágæta en sérvitra tónlistarmanns Matthew Herbert. Matthew hyggst ala upp svín sem síðan skal slátra, borða og smíða úr hljóðfæri. Hausinn verður matreiddur af stjörnukokkinum Heston Blumenthal en beinin verða notuð í flautu sem notuð verður á næstu plötu Matthew, ásamt upptökum af svíninu á meðan það er á lífi. Hugsanlega verður skinnið svo notað í trommu en hann telur það skildu sína sem tónlistarmanns að gera tilraunir með hljóð og nýstárleg hljóðfæri.

Svínið hans Matthew Herbert

„Um þetta snýst vinna mín – það er á ábyrgð listamannsins að búa til tengingar, sama hve skrítnar þær kunna að reynast og hvert þær taka okkur.“

Svínið hans er víst um 8-9 vikna gamalt sem stendur og eru upptökur í fullum gangi.

Svínið hans Matthew Herbert

Þetta verkefni, sem kallast One Pig, er partur af þríleik þar sem listamaðurinn gerir plötur sem allar samanstanda af einum hlut hver. Hinar tvær plöturnar eru One One, þar sem Matthew mun spila á allt sjálfur og syngja – og svo One Club þar sem Matthew tók upp gesti Robert Johnson klúbbsins í nágrenni Frankfurt og munu þeir sem þar voru skapa allan efnivið í þá plötu.

Matthew Herbert við upptökur

Það er svo hægt að lesa meira um ævintýri svínsins hér.

Ég rakst svo á þetta skemmtilega plagg. Það er ótengt umræddu verkefni, en engu að síður skemmtilegt.

Jáhá…

Berghain

Resident Advisor eru í ofurklúbba fíling, um daginn var það fabric umfjöllunin og núna hafa þeir birt kafla úr nýrri bók Tobias Rapp, „Lost and Sound: Berlin, techno and the Easyjetset“ þar sem Rapp skrifar um næturklúbbinn alræmda, Berghain.

Þetta er virkilega skemmtileg lesning og lýsir Berghain vel, amk minni upplifun af þessari techno-stofnun. Skemmtilegt líka að bera saman þesssa tvo klúbba, fabric og Berghain, sennilega frægustu klúbbar í heimi um þessar mundir en eru um margt ólíkir. Á fabric er jafnræði í dyravörslu, þar komast nánast allir inn og það er mikið partý en það er líka stappað og skrítin blanda af fólki sem er ekkert endilega að sækja staðinn útaf tónlistinni. Á Berghain er þessu öfugt farið, helmingurinn af stuðinu felst í því einu að komast inn enda eru pickerarnir og dyraverðirnir alræmdir (það gleymir enginn sínum fyrstu kynnum við Sven!) Munurinn á þessu tvennu lýsir kannski bara muninum á bretum og þjóðverjum almennt, eða í að minnsta tónlistar- og næturlífssenum þeirra.

Berghain (mynd e. mlaiacker)

Ég hafði persónulega farið nokkrum sinnum á Panoramabar áður en ég sá Berghain loksins líka (Panoramabar  er á efri hæð Berghain, þar er meiri house fílingur en það er techno techno á Berghain, á föstudögum er það oft bara Pannebar sem er opinn). Panoramabar er flottur en það var ekki fyrr en maður sá Berghain að maður fattaði að hér væri eitthvað virkilega spes í gangi. Kerfið er ótrúlegt, það besta sem ég hef í heyrt hreinlega, ótrúlega kröftugt en skýrt á sama tíma, tónlistin er fyrirtak og gestir staðarins eru litríkir svo ekki sé meira sagt. Mér er til að mynda minnisstætt að hafa staðið uppi á stiganum hjá Panoramabar og horft á nokkur hundruð stælta og sveitta homma gjörsamlega missa það yfir „Blue Monday“ með New Order ofan í grjóthart techno frá Marcel Dettmann, var ég ánægður að sjá ekki inn í myrkvuðu herbergin þá. Sömuleiðis var eftirminnilegt að dansa lengi lengi lengi í afmælisfagnaði fyrrnefnds Hr. Dettmann, góðar stundir. Væri gaman að heyra Berghain sögur Dansidans lesenda í athugasemdum.

Annars lýsir Rapp þessu að sjálfsögðu betur en ég og þessi bók hans virkar spennandi (ku vera væntanleg í enskri þýðingu á næstunni). Mæli með þessari grein og mæli auðvitað með Berghain líka fyrir þá sem eru í Berlínarborg.

Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com

ps. kannski rétt að minnast á það hversu mikið það svíður fólki að vera meinað um inngöngu á Berghain, t.d. vakti það mikla athygli um daginn þegar Richie Hawtin var hent út!

Cumbia, Nu-Cumbia og Cumbia Digital

Ég datt inn á nýlegan ‘Beats in Space’ þátt í dag þar sem hinn skoski ‘JD Twitch’ spilaði frekar óvenjulegt sett sem vert er að benda á. JD Twitch er líklega best þekktur fyrir þátt sinn í Optimo klúbbakvöldunum (og útgáfunni) í Glasgow en þetta kvöldið lék hann Cumbia tónlist fyrir hlustendur. Hann hóf syrpuna á hefðbundinni Cumbia tónlist sem er að öllum líkindum upprunalega frá Kolumbíu og er einhverskonar blanda af afrískum trommum við flautur og önnur kolumbísk hljóðfæri (mönnum ber ekki alveg saman um upprunann en Cumbia er vinsæl alþýðutónlist um alla S-Ameríku). Um mitt sett breytti JD örlítið um stíl og hóf að spila það sem kallað er Cumbia Digital eða Nu-Cumbia sem er, eins og nafnið gefur til kynna, nútímaleg elektrónísk útgáfa af Cumbia. Eftir stutt internet ráp og nokkrar heimsóknir á hype síður komst ég að því að ný-Cumbia er að verða (eða er orðin) vinsæl klúbbatónlist í latneska heiminum og þá sérstaklega í Argentínu og Mexíkó. Sjáum hvað framtíðin ber í skauti sér…

Hér má finna JD Twitch settið og Þetta blogg er víst eingöngu helgað Cumbia Digital stefnunni.

Nokkrar myspace síður Cumbia Digital listamanna og leibela:

Chanca Vía Circuito: http://www.myspace.com/chanchaviacircuito

ZZK Records: http://www.myspace.com/zzkrecords

El hijo de la Cumbia: http://www.myspace.com/elhijodelacumbia

Fabric 10 ára

Næturklúbburinn margfrægi fabric fagnar 10 ára afmæli um þessar mundir og DansiDans óskar fabric til hamingju með áratuginn. Fabric er einn af mínum uppáhalds klúbbum, þó það sé alltaf óþægilega stappað og maður þurfi að bíða í röð í hálftíma á 20 mínútna fresti þá bætir tónlistin það einfaldlega upp. Finnur varla klúbb sem er með jafn fjölbreytta og spennandi tónlistarmenn að spila hjá sér og það í hverri viku. Þá er hljóðkerfið frábært og umgjörðin, lúkkið og fílið allt sömuleiðis til fyrirmyndar.

Fyrir utan það að reka klúbb eru fabric svo með skemmtilega mixdiska séríu og fyrirtaks hlaðvarp, á blogginu sínu fagna fabric liðar líka afmælinu með ýmsum hætti. Þá tók Resident Advisor klúbburinn saman umfjöllun um sögu og starfsemi fabric og er það góð lesning.

Ef þú lesandi góður ert í Lundúnarborg um helgina mælum við með að kíkja við á fabric, afmælisfagnaðurinn byrjar á fimmtudegi og föstudegi en aðalpartýið hefst á laugardagskvöldi og stendur fram á mánudagsmorgun… góð afmælisveisla það! Meðal gesta eru Kenny Larkin, Ricardo Villalobos, Daniel Bell, Daniel Wang Rub-n-Tug og fleiri og fleiri.

Endum þessa færslu á tölfræði sem var að finna í fréttabréfi frá fabric. Sumar tölurnar eru svona rétt mátulega trúanlegar, en fyndið er þetta allavega.

ESSENTIAL FACTS ABOUT FABRIC…
– Number of hours of music = 18,000, based on about 35 hours a week average.
– Number of fabric couples = That we know of…3 couples that met at fabric and married, countless couples that have hooked up and not remembered the next day.
– Number of people through the doors = over 4,186,029
– Number of slipmatts used = 65
– Number of broken needles = about 1600, roughly 3 a week.
– Number of microphones broken by MCs = 53
– Number of cases of beer = about 160,000
– Number of bottles of wine = about 50,000
– Number of shots necked = over 1,300,000 pure shots
– Number of glasses = 312,000
– Number of limes/lemons = 350,000
– Number of tonnes of ice = 1 x glacier
– Number of rewinds = not enough yet.
– Number of tunes played = loads
– Number of bartenders hired = 600
– Number of toilet flushes (rank) = 8,299,200 flushes!!
– Number of people that have got lost in fabric = everyone
– Number of flyers given out = 30,000,000 (yes, thirty million) flyers
– Number of artists = over 20,800 acts between Friday and Saturday night
– Furthest cab ride home = Cardiff
– Number of Joe Beades = 1. Our handyman extraordinaire – the only reason fabric is still standing today.

-Kalli | ktryggvason@gmail.com

Gott sánd? – Óli Ofur um hljóðkerfi

Það ættu flestir dansaðdáendur Íslands að kannast við Óla Ofur, hann er einn af virkari plötusnúðum þjóðarinnar en auk þess hafa sennilega ófáir séð kappan að eiga við hátalarastæður eða tvíka mixera því að Óli Ofur á og rekur sitt eigið hljóðkerfi, Ofur Hljóð.

DansiDans hefur, eins og margir aðrir, mikin áhuga á hljóðkerfisfræðum en það er ekki fyrir óinnvígða að skilja allt sem að því tengist. Því plötuðum við Óla í stutt viðtal um ýmislegt sem snýr að hljóðkerfum, hátölurum, mögnurum og öðru tengdu.


l_b6ec7dbfd38de9dcce0ff19afdb8afae
Óli Ofur

Hvernig endaðir þú með því að starfrækja Ofur hljóðkerfi? Hverjar
eru áherslunar hjá þér og hver er núverandi tækjakostur?
Við félagarnir vorum oft að spila á stöðum þar sem ekki var hugsað um hljómburð, þannig að með áhugann á góðu danssándi byrjuðum við að sanka að okkur hátalaraboxum, ég endaði á að kaupa allt af þeim afþví að ég var mest að brasa í þessu held ég. Svo kom bara eftirspurn eftir leigu og ég ákvað að stofna fyrirtæki í kringum þetta svo ég þyrfti ekki að vera hræddur við að skattmann tæki mann, og svo líka náttúrulega til að getað unnið upp í draumahljóðkerfið.


Áherslurnar eru helst þær að stækka fyrirtækið hægt og rólega þannig að einn daginn geti ég haft þetta að aðalatvinnu. Í dag á ég slatta af hljóðdóti og ljósum, hvet áhugasama að skoða tækjalista á myspace.com/ofursoundsystem en í stórum dráttum þá er þetta hljóðkerfi sem gæti gert ágætis ball, með monitorum, nokkrum mækum og fleiru, svo á ég ljósaborð og soldið af ljósadóti, m.a. öflugustu lasera landsins.

Hver eru framtíðarplönin hjá Ofur Hljóði? Ætlarðu í Funktion One?
Sko, ef ég ætti fullt af peningum til að ráða til mín fólk til að halda á öllum þessum kílóum af hátölurum, kaupa nógu stóran flutningabíl og til að kaupa nógu stóra geymslu.. já þá færi ég mjög líklega í Funktion One, en þar sem ég er yfirleitt einn að brasa í þessu, þá hef ég mest verið að horfa til D&B Audiotechnik. Þessi tvö kerfi eru að einu leiti alveg á sitthvorum endanum í því hvernig á að fá gott hljóð, Funktion One vilja að hljóðmerkið sé unnið sem allraminnst, og leggja þá meira í að láta boxin sjálf sánda. Það gerir það að verkum að þau verða stór og þung. En D&B hafa komist einna lengst í því að vinna merkið, þeir framleiða bæði hátalara og svo magnara sem þeir láta passa vel saman, þannig ná þeir að gera fyrirferðarminni box. En þetta eru ekki einu kerfin sem maður er að pæla í, önnur eru t.d. frá Turbosound (stofnendur Funktion One stofnuðu Turbosound á sínum tíma) eða Martin Audio (Fabric, Ministry of Sound o.fl.)

Funktion One StæðaFunktion One Stæða

Er einhver eðlismunur á hljóðkerfi fyrir skemmtistaði / tónleika / klúbba og svo græjum eins og þeim sem flestir eru með heima hjá sér? Er einhver munur á hljóðkröfum fyrir danstónlist og aðrar stefnur / geira?
Það er ekki alltaf eðlismunur, stundum eru þetta bara eins og kraftmeiri útgáfa af stofuhátölurum, en tildæmis eru algengustu tweeterarnir svokallaðir compression drivers, þeir eru með mikið betri nýtni en flestir paper cone hátalarar (hátalarakeilur), en þeir hafa þann galla að þeir bjaga hljóðið yfirleitt soldið í leiðinni.

Og munur á hljóðkröfum.. jú vissulega, ég vil meina að danstónlistarcrowdið geri meiri kröfur á sjálft hljóðkerfið, það þarf að þola allan þann bassa sem dantónlistin pumpar út.. og þarf líka að skila öllu réttu og þægilegu, má ekki skera of mikið í eyrun og þarf að hreyfa innyflin aðeins. Svo er það t.d. rokk/live staðir þar sem fólk gerir líka alveg kröfur til kerfisins, en þar er það kanski meira blastið og hljóðmaðurinn sem eru stærri partar af kröfunum. Í rokkinu eru það líka algengt að kröfurnar komi frekar frá tónlistarmönnunum, og þá sem kröfur um monitorsound, þ.e. að að þeir heyri nógu rosalega hátt í sjálfum sér án þess að það fari að feedbakka (svona óvært rokkvæl sem heyrist stundum á tónleikum)

Geturðu frætt okkur aðeins um grunnhugtökin í hljóðkerfafræðum? Wött, desibel, ohm og svo framvegis, hvað þýðir þetta og skiptir það máli?
Þetta er nú að verða helvíti fræðilegt allt saman.. en jú wött, það er mælieiningin sem flestir sölumenn nota til að selja hátalara og magnara, ég heyrði eitt sölutrikk einusinni.. „sko þetta heimabíó hér er 500 wött, en þetta hérna er 1000 wött.. þessvegna er það helmingi betra!“ en sannleikurinn er töluvert flóknari en svo. Ef við ætlum bara að tala um hávaða (deciBell eða dB), þá eru hátalar mis nýtnir, 500 w hátalari með nýtni 96 dB (hljóðstyrkur miðað við 1 watt af hljóði inn og hlustað í 1 meters fjarlægð frá hátalara) ætti að skila sama blasti og 1000 w hátalari með nýtni 93 dB! þannig að stæstu notin sem ég hef fyrir watta tölur er til að para saman hátalara við magnara.


Ohm er svo mælieining fyrir hindrunina (viðnámið) sem rafmagnið verður fyrir. Setjum upp praktískt dæmi: Magnari er gerður til að tengja við hátalara sem eru á bilinu 2 – 8 ohm. Hann er gefinn upp 1000 wött m.v. 2 ohm. Ok ef við tengjum svo 4 ohm hátalara við magnarann þá getur hann ekki gefið út nema 500 wött.. ástæðan er sú að hátalarinn sem við tengdum við er með tvöfalt meira viðnám en ef við hefðum verið með 2 ohm hátalara og þ.a.l. rennur helmini minna rafmagn frá magnaranum. Og ef hátalarinn væri 8 ohm, þá ætti magnarinn að sama skapi ekki að getað skilað nema 250 wöttum útí hátalara. Við hugsum okkur gott til glóðarinnar og tengjum 1 ohm hátalara við og ætlum okkur að getað tekið 2000 wött útúr magnaranum, en nei við endum með ónýtan magnara afþví að hann er hannaður með ákveðna mótstöðu í huga.

Annað hugtak er Hertz (Hz) sem er mælieining fyrir tíðni, bassi er lágtíðni og eftir því sem bassinn er dýpri er Hz talan lægri.. 30 Hz er tildæmis helvíti djúpur bassi, og flestir heyra ekki mikið hærri tíðnir en 16 kHz (k stendur þá fyrir þúsund)

Og hver var spurningin aftur.. jú skiptir þetta einhverju máli? Fyrir tæknimanninn skiptir það máli. Fyrir fermingarstrák, ömmu eða heimilisfaðir, nei, skiptir engu máli, þau eiga öll að fara út í búð og fá að hlusta á það sem þau hafa áhuga á að kaupa, og meta eftir því hvað þau fýla.

Hvað skiptir mestu máli þegar kemur að góðu sándi? Í hverju felst munurinn á  góðu kerfi og svo kerfi sem er bara öflugt og getur spilað hátt?
Gott sánd er fyrir mér blanda af réttri tímasetningu, réttum hlutföllum tíðnisviða (bassa, miðjubassa, miðju, efri miðju og hátíðni) og svo þarf það líka að vera þægilegt, manni á að líða vel í öllu hljóðinu og má ekki þreytast á því. Og hvað á maður við með því.. jú rétt tímasetning; three way hátalari spilar trommuslag, ef allir þrír hlutar hátalarans spila ekki sinn part á réttum tíma þá verður hljóðið fjarlægt og óskýrt. Rétt hlutföll tíðnisviða segir sig soldið sjálft.. allt þarf að vera til staðar í réttum hlutföllum, rétt hlutföll er svo soldið mismunandi eftir hver hlustar. Svo er það þetta að líða vel í hljóðinu og þreytast ekki.. ein ástæðan fyrir því að þreytast á hljóðkerfum getur tiltæmis verið að compression driver tweeterar eru látnir spila lægri tóna er þeir ráða við, og þá bjaga þeir..

Hversu stórt hlutverk spilar umgjörð hljóðkerfisins (þ.e.a.s. einangrun, veggir, uppstilling hátalara og þar fram eftir götunum)?
Það skiptir helvíti miklu máli, það er ekkert mál að láta gott kerfi sánda illa með því að láta það í rými sem hljómar illa, rýmin geta verið þannig að þau magna upp einhverja ákveðna tíðni (resonate), sérstaklega í bassanum, og þá verður svona búmmí sánd sem yfirtekur allt hljóð. Efni á veggjum spila mikið inní, steyptir geymar eiga það til að óma of mikið, þá endurkastast hljóðið svo mikið að endurkastið (reverb) drekkir öllum skýrleika.

Réttasta leiðin framhjá rýmum sem sánda illa er að leiðrétta rýmið sjálft. Það er hægt að laga eitthvað til með t.d. Equalizer og skyldum tækjum, en það er mikið betra að laga upphaf vandans. Við búmmí bassa er hægt að smíða svokallaðar bassagildrur og ef rýmið ómar of mikið og illa, að þá er hægt að setja hluti inn í rýmið sem brjóta enduróminn upp, eða reyna að eyða honum með því t.d. að setja á veggi eitthvað sem endurkastar ekki hljóði jafn mikið, einhver sagði mér að efni sem draga í sig vatn séu líkleg til að draga í sig óm/hljóð, það held ég að sé ágætis viðmiðun.

Og uppstilling.. toppar (hátalararnir sem eru ekki bassabox) eiga að stefna á hlustunarsvæði. Allir toppar hafa ákveðna dreyfingu sem er gefin upp með tækniupplýsingum um hátarana (t.d. 80×35 gráður), þá getur maður ýmindað sér að maður sé með ljóskastara sem lýsir 80 gráður til hliðanna og 35 gráður lóðrétt og að maður eigi að reyna að dreyfa ljósinu sem jafnast á hlustunarsvæðið, ekki á veggi eða annað þvíumlíkt. Uppstilling á bassaboxum lýtur öðrum lögmálum,  þau eru í eðli sínu nánast alveg óstefnuvirk, og ef maður setur bassabox uppvið vegg getur hljóðið magnast um 6 dB, og ef maður setur bassa í horn getur það magnast um 12 dB, en getur reyndar líka alveg breytt hljóðinu til hins verra.

Annað sem er soldið magnað við bassann er að ef maður er með tvö bassabox á sitthvorum staðnum, þá getur það verið verra en ef maður er bara með eitt í gangi. Þá geta þau nefnilega verið að vinna á móti hvort öðru. Þannig að það er best til að fá sem þéttastann bassa að setja öll bassabox á einn stað, og jafna saman í tíma ef maður er með mörg mismunandi box. Það getur reyndar þurft að setja box á fleiri staði, en þá þarf helst að vera svo langt á milli þeirra að þau séu ekki að hafa áhrif á hvort annað.

Hvað geta plötusnúðar / tónlistarmenn gert til þess að ná sem bestu hljómgæðum þegar þeir stíga á stokk?
Know your limits! Það er svo algengt að plötusnúðar spili hærra en hljóðkerfið þolir.. þá hættir það að sánda (fer að bjaga).. og jú endilega takið hring og athugið hvort að allir hátalarar sem eiga að vera virki og snúi allavega svona nokkurnvegin að dansgólfi.. ég held að það sé ekki mikið meira sem hægt er að gera svona rétt áður en maður stígur á stokk.

D&B StæðaD&B Stæða

Hvernig finnst þér hljóðgæði og hljóðkerfismál á Íslandi almennt vera?
Mér finnst kunningsskapur, look, dílar og sleipir sölumenn vera of stór partur í ákvarðanatöku þeirra sem velja hljóðkerfi inn á staði á Íslandi. Sándið gengur að jafnaði ekki fyrir þó að menn segi að það skifti höfuðmáli.

Hvar er besta sánd sem þú hefur upplifað?
Sándið á Astró sáluga (danssalnum) situr einhvernvegin alltaf í mér. Kerfinu þar var svo splittað um allt hús þegar því var breytt í Pravda, varð ekki jafngott, en samt helvíti fínt.. ég held að við séum ekkert með bestu klúbbahljóðkerfin hérna á íslandi.. því miður.. en ef Ofur hljóðkerfi kemst á alvöru sprett skal ég lofa ykkur því að allavega fyrir rest verði komið það besta.

-Karl Tryggvason | kalli@breakbeat.is