DansiDans Hlaðvarp #14 – Hypno

DansiDans Hlaðvarp #14 – Hypno

Fyrir tæpum þremur árum síðan bentum við lesendum dansidans.com á hinn unga og upprennandi Kára Guðmundson. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Kári sem gengur líka undir nafninu Hypno hefur verið að gera það gott sem tónlistarmaður bæði hérlendis sem erlendis. Lög eftir hann hafa verið gefinn út á labelunum á borð við Ramp og PTN.

Við höfum fengið Kára til að gera 14. þáttinn í hlaðvarp seríu DansiDans og hefur hann skilað af sér live setti.

Þú getur náð í syrpuna hér og gerst áskrifandi að hlaðvarpinu okkar hér.

1. Hvernig er syrpan sett saman? Einhverjar pælingar eða þema?
Syrpan er sett saman í Ableton Live. Notast var við bilað hljóðkort og mús, ákjósanlegra væri að nota einhversskonar midi controller og best væri náttúrulega að nota masteraðar dubplates. En nóg um það. Þemað er bara mín eigin lög. Mér þótti töluvert erfitt að setja saman mín eigin lög í eina þétta syrpu og hlusta á þau aftur og aftur en það hafðist og er ég sáttur með niðurstöðuna. Ég notast við heita kvenmannsrödd sem AT&T bjóða uppá og brengla ég hana svo aðeins.

2. Hvað ertu annars að bralla þessa dagana?
Ég er á fullu að klára skólann, fluttur út og fleira gaman. Líka er ég að pródúsera á fullu og bíð spenntur eftir að ég fái frekari fréttir af K2/Kancourde 12″ sem ætti að koma í bráð út hjá Ramp Recordings. Einnig á ég von á remixi fyrir vin minn Benjamin Damage, sem ætti að koma út á breska útgáfufyrirtækinu Get Me, en ekki hef ég ennþá fengið það staðfest. Hægt er að heyra báðar útgáfur í mixinu..

3. Hvernig finnst þér “senan” á Íslandi?
„Senan“ er mjög sterk og er ég mjög glaður með það. Það mætti hinsvegar vera minni hjarðarfílingur í sumum raftónlistarhópum hérna á klakanum. Ekki ætla ég að nefna nein nöfn…

4. Hvað fílarðu?
Ég fíla tónlist, vísindi, mat, list, tjill, æsing og margt fleira sem mér dettur ekki í hug núna. En varðandi tónlist þá fíla ég bara það sem ég fíla, ég fer ekki nánar í það.

5. Linkar / Plögg / Lokaorð?
Njótið vel (svaka snjallt ha?)

Lagalisti:
1. Hypno – …And Therefore
2. Hypno – Calm Before The Storm
3. Hypno – Kancourde (forthcoming Ramp Recordings)
4. Hypno – Gripa Frami
5. Hypno – Zeichen
6. Hypno – K2 (forthcoming Ramp Recordings)
7. Benjamin Damage – Golden Idiot (Hypno remix) (forthcoming Get Me)
8. Hypno – Messed Up
9. Hypno – Jennifer Lopez refix
10. Hypno – Living Saoul (Ay!fix)
11. Hypno – Tonic
12. Hypno – Herbie Hancock refix
13. Hypno – Golden Brown refix
14. Hypno – Yawn
15. Hypno – 3.1nfinity
16. Hypno – Moment Of Unclarity

Tónlistartímaritið Muzik

Um daginn rakst ég á vefsíðu tónlistartímaritsins Muzik sem var gefið út á árunum 1995-2003. Ég á margar góðar minningar um Muzik, keypti svo til hvert tölublað á tímabili og höfðu greinar, skrif og gagnrýni þess mikil áhrif á mig. Muzik var ásamt Undirtónum og Knowledge ein helsta upplýsingaveita mín um nýja tónlist og gagnrýna umfjöllun um lífstílinn og menninguna sem tónlistinni fylgdi. Mér þótti Muzik alltaf á hærra plani en t.d. Mixmag (með myndir af berum stelpum og greinar um „how to get twatted in Ibiza“) og hafa skemmtilegri efnistök en DJ Mag. Það var einna helst Jockey Slut sem stóðst Muzik snúninginn að mínu mati en það var oft illfáanlegt í bókabúðum höfuðborgarinnar.

Muzik

Þessi tímaritskaup mín voru auðvitað fyrir tíma internetsins, en hún er margtugginn klisjan um hversu mikið internetið hefur breytt gangi mála. Ég minnist þess oft að lesa um lög eða plötur og reyna að gera mér í hugarlund hvernig þau hljómuðu útfrá lýsingum og myndum. Þegar maður svo komst yfir tónlistina í útvarpi eða Þrumunni löngu síðar var tónlistin auðvitað allt önnur en sú sem hafði ómað í ímyndun manns.

Ástæðan fyrir þessari færslu er annars sú að hægt er að ná í öll tölublöð Muzik á pdf formi á vefsíðu þeirra. Þannig er hægt að rifja upp gamla tíma eða kynnast þeim í fyrsta sinn. Það er allt öðruvísi að lesa samtímaheimildir heldur en að skoða fortíðina í gegnum nostalgíugleraugun góðu. Tímans tönn fer misvel með skrif Muzik manna, en það getur verið fróðlegt að skanna skrif þeirra um liðna tíma og gamlar hetjur. Mæli með því!

Korg Mono Fjölskyldan

Í fyrra kynnti hljóðfæraframleiðandin Korg hin stórskemmtilega Monotron hljóðgervil. Monotron-in, sem er svo lítill að hann passar í vasa, innheldur einn oscillator, sama filter og var notaður í hinum goðsagnakenndu MS 10/20 og einn LFO sem getur stýrt tíðni Oscillatorsins eða filternum, þessu er svo hægt að stýra með „ribbon“ sem er einskonar lyklaborð.

Monotroninum hefur greinilega gengið vel því hægt og rólega hefur Korg verið að bæta við fjölskyldumeðlimum í Monotron fjölskylduna. Fyrr á árinu kom út trommuheilinn monotribe og í þessum mánuði kynntu þeir Monotron Delay  og Monotron Duo sem byggja á sömu hugmynd.


Monotron Duo


Monotron Delay

Monotron serían þykir mér sniðug því hún býður upp á ódýra leið  til að fá smjörþefinn af analog synthesizerum.  Það er líka eitthvað nett við að taka upp synthesizer og heyrnatól í strætó.

Þekktu Þitt Hús: Atli Volante

Í liðnum Þekktu Þitt Hús bjóðum fáum við plötusnúða til að velja 5 lög og bjóðum svo fólki að giska á hvaða lög þetta eru. Í þetta skiptið er það Atli Volante sem býður fólki upp á að spreyta sig. Ef þú kannast við eitthvert þeirra, máttu endilega nefna lagið í athugasemdunum hér fyrir neðan.


Lag númer 1.


Lag númer 2.


Lag númer 3.


Lag númer 4.


Lag númer 5.

 

Last.fm kryfja vinsældarlistana

Flest tónlistarumfjöllun er, eðli málsins samkvæmt, huglæg. Samtöl, rökræður, gagnrýni og umfjöllun um tónlist getur verið rökum stutt og byggð á þekkingu eða tæknilegri færni en veltur á endanum oft á huglægu mati. Gæði og gildi slíkra skoðana er efni í margar færslur en í þessari færslu langaði mig að líta á gagnadrifina og hlutlæga tónlistarkrufningu Last.fm teymisins.

Last.fm, fyrir þá sem ekki vita, er vefþjónusta tengd tónlist. Hægt er að skrá sig á last.fm og nota þjónustuna til þess að halda utan um stafræna tónlistarhlustun sína. Í framhaldinu getur maður skoðað tölfræði og kynnst nýrri tónlist byggt á þeirri sem maður hefur áður hlustað á. Undanfarna mánuði hafa Last.fm matað tölvurnar sínar með 15,000 lögum af breska vinsældalistanum á árunum 1960 til 2008 og greint hlutlæga eiginleika tónlistarinnar. Tölvurnar hafa svo metið hraða, dýnamík, tóntegundir, breytingar í sveiflu og fleira tónlistartengt sem hægt er að mæla á hlutlægan hátt. Niðurstöðurnar úr þessari greiningu Last.fm eru um margt forvitnilegar og hafa þeir útlistað hluta þeirra á blogginu sínu.

Í fyrsta hluta benda last.fm á hvernig ryþma og slagverksdrifin tónlist hefur vaxið og minnkað í vinsældum í gegnum áratugina. Það sést t.d. glögglega á meðfylgjandi grafi. Diskó, einhver? Í öðrum hlutanum líta þeir á hversu flókin lög eru í tónblæ og hljómsetningu og kemur kannski ekki á óvart að pönkið skorar hátt í hvorugu. Í þriðja kafla frásagnarinnar af rannsókn þessari er litið til takfestu og hraða, þar virðast trommuheilar og önnur tækni hafa haft sín áhrif síðustu áratugi. Þá hafa gagnarýnar last.fm litið á hin svokölluðu „loudness stríð“ en því hefur verið haldið fram að dýnamík í tónlist sé að víkja fyrir alltumlykjandi kröfu um mikin hljóðstyrk og hversu algengar hálftóna „gír skiptingar“ eru í popp tónlist, enda öflugt (en kannski soldið ódýrt) trikk.

ryþma- og slagverkskraftur í tónlist vinsældalistanna (tekið af last.fm)

Þessi hraðsoðna samantekt mín gerir rannsóknum Last.fm síður en svo full skil og mæli ég með að fólk skoði greinar þeirra. Þá mæli ég með last.fm scrobblernum fyrir tölfræðinördana þarna úti, maður getur komist að ýmsu fróðlegu um hlustunarmynstur sitt með þeim hætti. Með vaxandi tækni- og tölvuvæðingu samfélagsins mun svona hlutbundin umfjöllun, byggð á raunverulegum gögnum, eflaust riðja sér til rúms á fleiri sviðum. Það getur verið gagnlegt og skemmtilegt, en hið huglæga ætti maður þó ætíð að hafa fast í huga.

Vínylskurður

Flestir lesendur þessarar síðu hafa eflaust klippt tónlist í stafrænu formi sundur og saman í þar til gerðum forritum. Sumir gamlir refir hafa jafnvel unnið með segulband, klippt það og límt og búið til edit og remix. En ætli það séu ekki færri sem hafa skorið í sundur og sett saman vínyl plötur eins og listamaðurinn Ishac Bertran hefur dundað sér við.

Plötuskurður

mynd af blog.ishback.com

Bertran sker skífurnar í sundur með leysigeisla og límir svo ólíka hluta saman með einföldum hætti. Þetta er hugmynd sem flestir sem hafa handleikið plötur hafa eflaust fengið en Bertran lét ekki þar við sitja heldur útfærir hana vel. Útkoman er nokkuð forvitnileg.

Endilega bendið á fleiri vínyl tilraunir í athugasemdunum ef þið lumið á slíku.

(via Wired)

 

 

 

 

 

Frír Pakki í boði Adult Swim

Safnplatan Unclassified er fáanleg á vefsvæði sjónvarpstöðvarinnar Adult Swim. Á plötunni er finna lög eftir listamenn á borð við Burial, Ikonika, kode 9 og Actress.

Sumt hefur komið út áður annað ekki. Platan er ókeypis og hægt er að hlusta á hana og að hlaða henni niður hér.

Syrpu Syrpa

Linkum hér á nokkrar góðar plötusnúðasyrpur til þess að stytta manni stundir og létta manni lund. Garage dubstepparinn Sully gerði syrpu fyrir XLR8R hlaðvarpið, líkt og nýleg breiðskífa Sully þá brúar mixið bil á milli garage/dubstep tóna og juke tónlistarinnar, þétt, fjölbreytt og áhugaverð syrpa. Fyrst við minnumst á fjölbreyttar syrpur er rétt að benda á Essential Mix íslandsvinarins James Blake en þar gætir ýmissa grasa svo ekki sé meira sagt.

Fyrir þá sem vilja bara alvöru techno má linka á Cosmin TRG kaflann í RA hlaðvarpinu. Að lokum viljum við vekja athygli á mixunum úr nýjum útvarpsþætti Mary Anne Hobbs en stúlkan sú er ansi lunkin við að fá hæfileikaríkt fólk í heimsókn. Endilega mælið með syrpum í athugasemdunum ef þið lumið á einhverjum góðum.

Föstudagsflagarinn: Dj Sneak – You can´t hide from your Bud

Ég sá Dj Sneak spila um árið í Berlin. Settið hans var ekkert það besta sem ég hef heyrt en ótrúlega góður að mixa var hann. Það sem fór í taugarnar á mér voru popp akapellur á borð við Beyonce og Black Eyed Peas. Frekar ungur danshópur á ferð og hafði það vissulega áhrif á hann. Finnst samt skrítið að hann skuli vera með svona dót í kassanum sínum.

Ég tala ekki um DJ Sneak að ástæðulausu en hann á föstudagsflagarann að þessu sinni. „You can´t hide from your Bud“ er algjör klúbbatryllir. Lagið kom út árið 1997 og skartar einni af feitustu bassalínum síðari ára. Sömplin úr þessu lagi ættu ekki að fara framhjá neinum og fær lag Teddy Pendergrass, „You can´t hide from yourself“ að fylgja með. Góða helgi.

RA Real Scenes

Resident Advisor vefritið hefur ásamt fataframleiðandanum Bench ráðist í heimildamyndagerð. Undir nafninu „Real Scenes“ hefur RA hingað til birt þrjár stuttar myndir, en í hverri þeirra er raf- og danstónlistarsena einnar borgar tekinn fyrir. RA ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og voru Bristol, Berlín og Detroit fyrstu viðfangsefnin. Nú er eflaust erfitt að gera svona risum góð skil í stuttri mynd  en myndirnar eru engu að síður forvitnilegar og skemmtilegar áhorfs og gefa smá innsýn í þessar borgir og fólkið sem byggir þær. Við mælum með þessu.