Þegar litið er tilbaka held ég að árin 2001-2002 verði að teljast vera stafræn-tímamót plötusnúðasögunnar. Á þeim árum rötuðu cdj-1000 spilari Pioneer og Final Scratch kerfi Stanton fyrst á almennan markað og það var fyrst þá sem vínylinn og sl-1200 spilarar Technics fundu fyrir raunverulegri samkeppni. Þótt ótal margt annað spili auðvitað inn í hefur þróunin allar götur síðan verið á einn veg, plötusnúðar hafa í stórum stíl yfirgefið hliðræna afspilunartækni (vínyl) og tekið stafræna tækni upp á sína arma.
Viðfangsefni þessarar færslu er þó ekki sagnfræðileg yfirferð á verkfærum plötusnúðsins. Enn síður er það ætlunin að opna á margræddar, umdeildar og þreyttar umræður um siðferði, fjármál, hljómgæði og allt það. Heldur langar mig að velta upp spurningum um annars konar gæði. Gæði plötusnúðana sjálfra og settana sem þeir spila.
Ef við sleppum öllum vangaveltum um hvað er praktískt og hentugt, hvað er töff, hvað er ódýrt/dýrt, hvað er rétt/rangt og þar fram eftir götunum. Þá stendur eftir spurningin um hvort tækninýjungar síðusta áratugs hafa gert plötusnúða betri? Setja þeir saman skemmtilegri syrpur? Spila þeir betri tónlist? Tengja þeir tónlistina saman á nýja vegu? Nýta þeir tæknina til þess að gera eitthvað sem þeir gátu ekki gert áður?
Ég er nefnilega ekkert viss um að svo sé. Dettur allavega ekki neinn tiltekinn plötusnúður í hug sem mér finnst hafa orðið marktækt betri eftir að hafa digitæsað sig.
Nú eru til vefverslanir með ótrúlegt framboð af tónlist sem nær marga áratugi aftur í tíman. Það hefur aldrei verið auðveldara að velja úr tónlist úr öllum áttum, tengja hana saman á nýjan og persónulegan hátt og búa sér til einstakt sánd. En samt finnst manni eins og stafrænum snúðum fylgi alltaf ákveðið “því nýrra því betra” viðhorf og topp-20 hugsunarhátturinn er svo ríkjandi að allir hljóma orðið eins. Í það minnsta finnst mér þeir snúðar sem hafa einstakan stíl, sem byggir á sögulegri þekkingu og ástríðu, oftar en ekki teygja sig í gamlar plötutöskur frekar en að skrolla í gegnum Serato eða blaða í cd möppu.
Hvað varðar það að nýta tæknina til þess að gera eitthvað nýtt, eitthvað annað en hægt var að gera með tveimur tólf tommum og mixer, finnst mér snúðar samtímans ekki heldur vera að nýta möguleikana til fullnustu. Ableton Live er t.d. frábært forrit en oftar en er allt of oft notað í steingelda læf-spilamennsku eða í leiðinlegt mash-up rúnk sem höfðar bara til unglinga með athyglisbrest. Sömu sögu má segja um Traktor, sem manni finnst eins og fólk fjárfesti í af því að það nennir ekki að beatmixa lengur.
Þrátt fyrir að þetta hljómi soldið svartsýnt er ég reyndar ekkert á því að plötusnúðar hafi orðið verri á síðustu árum heldur. Það voru til leiðinda snúðar sem kunnu ekkert að mixa áður en cdj’ar og mp3 fælar komu til sögunnar. Það sem er meira að angra mig er að mér finnst fólk vera að lofa tæknina á röngum forsendum. Það er talað hástemmt um möguleika sem enginn er að nýta til fullnustu eða vinna úr almennilega (ekki hingað til allavega). Hvað finnst ykkur?
Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com