Greinasafn fyrir merki: farðu að vinna vinnuna þína

Plötusnúðamannasiðir

Eins og margar aðrar stéttir aumka plötusnúðar sér oft yfir skilningsleysi viðskiptavina sinna (þ.e. skemmtistaðagesta og eigenda), þannig er algengt að sjá lista yfir kjánalegar og kaldhæðnislegar óskalagabeiðnir, kvartanir yfir aðstæðum og tækjabúnaði og kveinstafi yfir smekkleysi áheyrenda svo fátt eitt sé nefnt. Núna síðustu daga hefur eftirfarandi myndband t.d. gengið um veraldarvefinn og plötusnúðar tekið undir í kór:

Þá hefur einnig hlakkað í mörgum plötusnúðnum yfir þessu skemmtilega bloggi.

Atriði sem er þó sjaldnar talað um eru mannasiðir plötusnúðanna sjálfra, gagnvart crowdinu, hvor öðrum og sjálfum sér. Hér er smá listi yfir atriði sem mér finnst að dj’ar ættu að hafa á hreinu, endilega bætið við eða andmælið þessum pælingum í commentunum.

  • Plötusnúðar mæta með sín eigin headphone og eigin nálar (ef þeir spila vínyl). Ef þú vilt fá að nota slíkar græjur annarra plötusnúða á undan ættirðu að sjálfsögðu að spyrja um leyfi, ekki gera ráð fyrir því og ekki endilega búast við því að allir segi já.
  • Ef þú varst að fá þér nýja (Apple) tölvu og ert að nota hana til dj mennsku – farðu þá í System Preferences -> Sound -> og afhakaðu „Play feedback when volume is changed“ möguleikann.
  • Ef þú ert að spila illa fengna tónlist eftir aðra opinberlega ertu semi-drullusokkur, ef þú ert að spila illa fengna tónlist eftir aðra opinberlega og fá borgað fyrir það ertu fáviti.
  • Ég er sjálfur með handónýtt eyru og hef andmælt wav-snobbi í óöryggiskennd minni, en allt minna en 256 kbps mp3 er algert no no (64kbps grime rip úr sjóræningjaútvarpi er þó leyfilegt) og nei, youtube rippið þitt er ekki „í fínum gæðum“.
  • Hafðu smá tilfinningu fyrir því hvar þú ert að spila og við hvaða aðstæður. Ertu headliner á stórum viðburði sem var auglýstur vel og fólk borgaði fyrir eða ertu nafnlaust flón sem var hent út í horn til þess að spila tónlist fyrir drukkið fólk? Hverjar eru áherslurnar almennt á staðnum sem þú ert staddur á? Spilamennskunni, attitjúdi og tónlistarvali ætti að haga í samræmi við hvar þú ert staddur á svona skala.
  • Þegar þú ert að spila þá ertu að spila. Þú þarft ekki að fara á Facebook þótt það sé frítt wi-fi og að forritið sjái um að mixa fyrir þig. Þú átt heldur ekki að vera í símanum.
  • Ekki verða (of) fullur.
  • Ekki biðja aðra plötusnúða um að fá að „taka eina skiptingu“.

Ég er sjálfur sekur um margt hér að ofan, síðasta punktin braut ég t.d. bara um daginn (reyndar með örlítið meiri fyrirvara). En batnandi mönnum er best að lifa og mér finnst að maður ætti að hafa þetta í huga. Umboðsmaður plötusnúða gæti svo einbeitt sér að því að lögfesta ofantöld atriði.

Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com