Einn af leiðinlegri fylgifiskum þess að vera plötusnúður eða pródúsent er að þróa með sér það sem ég kýs að kalla plötusnúðaheyrn eða plötusnúðaeyra. Fyrir fólk með plötusnúðaheyrn gegnir tónlist öðru hlutverki en fyrir fólk almennt, hlutverki sem tengist starfi eða áhugamáli plötusnúðsins.
Tónlist hættir að vera list sem er einungis til upplýsingar, yndisauka eða skemmtunar og sætir í stað þessi sífelldri greiningu og gegnir öllu hagnýtara hlutverki. Einstaklingur með plötusnúðaheyrn yfirheyrir því sem næst alla tónlist sem hann kemst í kynni við, í hugarskoti hans leynast óteljandi spurningar um tónlistina sem er í gangi.
Þannig spyr plötusnúðaheyrandinn sig hvort það mætti lúppa eða sampla þessu lagi? Á hvaða tempói/bpm er tónlistin? Myndi þetta virka á dansgólf? Ætli það sé hægt að nálgast hana á vínyl? Í hvaða tóntegund er þetta lag? Mætti mixa þetta við aðra tónlist? Og svo mætti lengi telja.
Hlustaðu (mynd e. Alex//Berlin as photography)
Sá sem er með plötusnúðaheyrn er því ávallt að máta tónlistina við plötusnúðahlutverkið, þannig er hætta á því að önnur svið tónlistarnautnarinnar víki og er það miður. Geri ég mér í hugarlund að svipaðar hlutir geti komið fyrir annað „alvöru“ tónlistarfólk.
Athugið að ég er ekki að halda því fram að plötusnúðar njóti ekki tónlistar, að þeir hafi ekki gaman af henni eða þyki ekki vænt um hana. Heldur að starf þeirra geti gert það að verkum að þeir nálgist og hlusti á tónlist með öðrum og minna „hreinum“ hætti. Að það hvernig plötusnúðar „hagnýta“ tónlistina hafi varanleg áhrif á hvernig þeir neyti hennar. Því held ég að það sé verðug áminning til plötusnúða að skilja plötusnúðaeyrun stundum eftir, að reyna að setja minna funktíónal þætti tónlistarinnar í fyrsta sæti og njóta hennar á hreinni hátt. Spyrja sig frekar að því hver hafi verið ætlun tónskálds, hvaða tilfinningar er verið að tjá og hvaða tilfinningar vakna í brjósti manns sem hlustanda. Nú eða að sleppa spurningum og greiningum og hlusta bara. Það er gott að hlusta.
-Karl Tryggavson | ktryggvason@gmail.com