Íslendingum finnst hrikalegt að borga sig inn á skemmtistaði. Í það minnsta þegar þeir eru á Íslandi. Þetta hefur leitt til þess að almennt kostar ekki inn skemmtistaði í Reykjavík / á Íslandi (kannski er orsakasamhengið í hina áttina, veit það ekki alveg). Aðgangseyrir er einungis rukkaður þegar eitthvað ótrúlega sérstakt eða merkilegt er á boðstólunum og þykir í raun nánast óréttlætanlegur nema að erlendir aðilar séu að stíga á stokk það kvöldið.
Mér þykir þetta leiðinlegt ástand og ég held að þetta fyrirkomulag og þessi afstaða Íslendinga standi í vegi fyrir mörgum góðum hlutum. Þetta gerir að verkum að erfiðara er að standa að metnaðarfullum viðburðum á íslenskum skemmtistöðum, sérstaklega ef dagskráin samanstendur einungis af íslensku tónlistarfólki. Auk þess stuðlar þetta að hinu endalausa rápi fólks milli staða á djamminu, sem skapar lakari stemningu og leiðinlegra tónlistarval.
.
It’s all about the Jón Sigurðssons’
Að halda skemmtilega tónlistarviðburði kostar pening. Það þarf að kynna og auglýsa viðburðinn, það þarf að leigja græjur, hljóð- og ljósakerfi og það þarf að borga tónlistarmönnum, plötusnúðum og hljómsveitum. Þegar frítt er inn á tónleika- og skemmtistaði standa staðirnir sjálfir oftast straum af þess háttar kostnaði. Eigendur eða rekstraraðilar slíkra staða eru oftast fyrst og fremst drifnir af gróðavon. Afhverju ættu þeir að leggja tugi eða hundruði þúsunda í metnaðarfulla viðburði sem skila ekkert endilega meira í kassann heldur en plötusnúður út í horni sem biður bara um frían bjór og brot af þeim upphæðum sem færu í að búa til almennilega dagskrá?
Á þeim viðburðum þar sem kostar inn er því oftast að ræða um einhvern utanaðkomandi aðila sem tekur aðgangseyri kvöldsins en sér í staðinn um dagskrá kvöldsins og kostnaðinn sem henni fylgir. Aðstandendur skemmtistaðarins fá svo á móti vonandi fullt hús gesta sem eyða þeim krónum sem eftir eru í veskinu í veitingar.
En svo virðist sem fólk setji aðgangseyri í auknu mæli fyrir sig. Jafnvel þegar um metnaðarfullan og merkilegan viðburð er að ræða virðast 500-1000 krónur vera of mikið fyrir flesta. Það er ekki hefð fyrir því að þurfa að borga fyrir skemmtanir af þessu tagi og fólki finnnst ósanngjarnt að rukka fyrir það. „Afhverju kostar inn?“ og „fyrir hvað er ég eiginlega að borga?“ eru spurningar sem miðasölufólk á íslenskum tónlistarviðburðum kannast vel við (hér má lesa eldri umfjöllun mína um hversu mikill þyrnir það virðist vera í augum sumra að plötusnúðar fái greitt fyrir iðju sína). Slíkar spurningar heyrast alltaf, nema þegar útlendingur er væntanlegur á sviðið, en það réttlætir fjárausturinn fyrir mörgum.
Ef tækifæri gefst á að rukka aðgangseyri gefur auga leið að vel heppnaður viðburður, jafnvel þótt hann sé lítill í sniðum (t.d. 100-200 gesti), gefur aðstandendum aukna möguleika á að smíða flotta umgjörð og setja saman góða dagskrá heldur en þegar einungis er um eina minni greiðslu frá skemmtistaðnum að ræða. Þá er ekki verra ef um íslenskan viðburð er að ræða og peningurinn skilar sér til íslensks tónlistarfólks í stað þess að hverfa úr landi í rassvasa erlendra hljómsveita eða plötusnúða.
Þá má líta á aðgangseyrinn sem leið til þess að skapa betri gestahóp. Jafnvel þótt um lágar upphæðir sé að ræða er aðgangseyrir ákveðin fjárfesting. Með því að borga sig inn á tónleika/skemmtistað/klúbbakvöld er maður að vissu leiti að skuldbinda sig, maður lýsir yfir áhuga á því sem þar fer fram og er líklegri til þess að halda sig á staðnum. Maður er áhorfandi og þátttakandi með öðrum hætti en þegar ekkert kostar inn.
Að hafa frítt inn er aftur á móti ávísun á tilviljanakennda traffík, gestir sem eiga ekkert erindi á kvöldin og hafa ekki áhuga á því sem þar fer fram slæðast inn og hafa áhrif á stemninguna. Þetta getur verið til góðs, þ.e. að fólk uppgötvi tónlist sem það hefði ekki annars gert. En þetta er líka valdur að meira flakki, stefnulausari gestahóp og öðrum ókostum. Ég vil til að mynda meina að sú staðreynd að í Reykjavík kosti oftast ekkert inn á skemmtistaði sé ásamt reykingabanninu ein helsta ástæðan fyrir leiðinlegum dj settum frá annars skemmtilegum plötusnúðum. Það er lítið svigrúm til þess að byggja upp sett, spila dýpri tóna og fara hægt í hlutina þegar eitt helsta takmark margra gesta virðist vera að komast á sem flesta skemmtistaði á einu kvöldi.
Ég geri mér grein fyrir að þetta kunni að hljóma eins og ég vilji sem promoter og plötusnúður bara fá meiri pening í vasann. Það er þó ekki ástæðan enda reikna ég seint með að slíkar tekjur fari að borga reikningana mína. Ég vil fremur reyna að stuðla að heilbrigðara umhverfi í íslensku tónlistarlífi sem á við ramman reip að draga á svo mörgum sviðum.
Eitt viðkvæði talsmanna ólöglegs niðurhals á tónlist er að niðurhalið geti komið tónlistarmönnum á kortið og skapað forsendur fyrir greiðslur fyrir tónleika eða aðra lifandi spilamennsku. Þetta viðhorf dugar þó skammt ef eina sem fólk er tilbúið að borga fyrir eru risatónleikar og erlendar stórstjörnur. Þegar um minna þekkt nöfn er að ræða virðist fólk vilja fá tónlistina og tónleikana ókeypis og í allra mesta lagi borga fyrir bjór.
Ég ætla að reyna að gera það sem kaninn kallar að kjósa með pyngjunni og hvet aðra til þess að gera slíkt hið sama. Borgið ykkur inn á þá tónleika og þá viðburði sem ykkur finnst eiga það skilið og lítið á það sem fjárfestingu, þótt það kunni að þýða færri drykki eða minni djammbita.
Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com