Greinasafn fyrir merki: mount kimbie

Jútjúb Miksteip #11 Iceland Airwaves 2010

Það styttist í Iceland Airwaves hátíð ársins 2010, rétt rúmur mánuður þegar þetta er ritað og undirritaður er bara orðinn nokkuð spenntur. Line uppið er það besta í langan tíma, að fyrri hátíðum ólöstuðum, mikið af spennandi elektrónísku dóti sem spannar vítt svið þótt indie og önnur rokk músík eigi líka sinn fasta sess á hátíðinni.

Að tónlistinni undanskilinn er líka oftast frekar góð stemning í bænum, fólk hvaðan af úr heiminum komið hingað til þess að skemmta sér og fara á tónleika og fyrir Íslendinga er hátíðin ákveðin sólargeisli í haustmyrkrið sem tekur annars á móti okkur þessa dagana. Hér að neðan er jútjúb mixteip með nokkrum af þeim nöfnum sem ég er hvað spenntastur fyrir í ár.


Ramadanman – Work Them
Juke skotið lag frá Ramadanman sem er fjölbreyttur og flottur pródúsent, hefur samið og gefið út house og drum & bass músík en er kannski þekktastur fyrir dubsteppið sitt. Spilar á Breakbeat.is kvöldi Iceland Airwaves fimmtudaginn 14. október.

.


Mount Kimbie – Would Know
Breskt tvíeyki sem er undir miklum áhrifum frá dubstep heiminum en þó er ekki beint hægt að kalla tónlistina þeirra dubstep, það er flakkað á milli bpm sviða og hljóðheima en yfirleitt takast elektrónískir taktar á við bjartar og fallegar melódíur.

.


James Blake
James Blake finnst mér soldið vera eins og Mount Kimbie með meiri húmor, glaðværari laglínur og rnb sömpl snúast í kringum dubstep skotna taktana.

.


Hercules & Love Affair – You Belong
Hercules & Love Affair er project Andrew Butlers, retróleg 80s house og diskó tónlist sem nær hljóm og fíling fæðingaráratugs housetónlistarinnar mjög vel. Anthony úr Anthony & The Johnssons kemur mikið við sögu á plötu þeirra frá 2008 og sérstæð rödd hans hentar danstónlist vel. Er hann sjaldnast með þeim á tónleikum skilst mér, því miður.

.


Moderat – Rusty Nails
Apparat og Modeselektor  vinna saman undir Moderat nafninu og gáfu út samnefnda plötu í fyrra. Techno-breakbeat-glitchy-idm dót, skemmtilega epískt oft og eru þeir víst með flotta visjúala læf, spennandi.

.


Toro y Moi – Talamak
Toro Y Moi er eins manns band Chaz Bundicks, en þegar hann spilar á tónleikum eru víst hljóðfæraleikarar með í för. Tónlistin er lo-fi popp, rafrænt og lífrænt í bland oft kaffært í reverbi, delayi, distortioni og öðrum effectum, geiri sem fólk hefur í mismikilli alvöru verið kallað chillwave. Að öllum flokkunum slepptum þá er músikin oft hin ágætasta og ég hef gaman af Toro Y Moi.

.


Neon Indian – Deadbeat Summer
Neon Indian er á svipuðum slóðum og Toro Y Moi, rólegt rafskotið popp, fuzz og detjúnaðar falsettur. Rosalega hipsterlegt en ágætt engu að síður.

Annars væri ég svo til í að sjá alla hér að ofan dj’a, vona að einhver þeirra verði plataður í slíkt á KB, Bakkus eða eitthvað álíka, að tónleikum loknum.

Ég smellti annars í Youtube playlista með erlendum listamönnum og böndum sem verða á Airwaves til þess að kynnast aðeins þessari músík (íslensku öktin þekkja allir og hafa séð milljón sinnum á tónleikum).

Að lokum er rétt, í nafni gagnsæis, að taka fram að ég er einn umsjónarmanna Breakbeat.is og stend að kvöldinu með Ramadanman, einnig hef ég unnið aðeins fyrir Airwaves hátíðina á árum áður.

-Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com


Plötudómur: Mount Kimbie – Maybes EP (Hotflush)

Mount Kimbie
Maybes EP
HF021
Hotflush
Dubstep / Electronica
4,5/5

Í síðustu viku var ég eins og oft áður að kvarta og kveina á Huga. Að þessu sinni var það yfir vaxandi tilhneigingu íslenskra danstónlistaraðdáenda til þess að sleppa því að nefna plötuútgáfur í upptalningum sínum (til að mynda í lagalistum fyrir syrpur og í topp listum sínum). Einhver svaraði því til að plötuútgáfur skiptu ekki máli fyrir hann eftir mp3 væðinguna en því verð ég að vera algerlega ósammála, ef eitthvað er gegna útgáfufyrirtæki enn mikilvægara síu-hlutverki í því upplýsingaflóði sem fylgir stafrænu byltingunni. Þetta er að sjálfsögðu efni í pælingar-færslu sem ég mun kannski púsla saman einhvern tíman síðar, en þetta eru líka góð inngangsorð að þessum plötudómi þar sem um er að ræða fyrirtaks skífu sem hefði sennilega algerlega farið framhjá mér ef ekki væri fyrir útgáfufyrirtækið sem stendur að henni.

Hotflush er útgáfufyrirtæki Scuba, bresks dubsteppara, sem flutti sig nýlega um set til Berlínarborgar. Á vegum Hotflush hefur Scuba teigt og togað dubstep hugtakið í ýmsar áttir, fyrir skemmstu fékk hana technobolta héðan og þaðan til þess að véla um remix á breiðskífu sinni Mutual Antipathy en með því að gefa út frumraun dúósins Mount Kimbie gengur hann jafnvel enn lengra. Er þetta dubstep? Ég er ekki viss, kannski, en samt eiginlega ekki. Hvað er þetta þá? Aftur er ég ekki alveg viss.

Í slíkri óvissu verður maður að draga fram einhverjar tilvísanir og tengingar sem manni finnst viðeigandi. Hljóðheimurinn er í anda Four Tet og Fridge á tímum finnst mér, taktarnir eru framandi og í anda Shackleton, loks minnir notkun vókala og söngs mig soldið á Animal Collective m.a. í því hvernig söngurinn virðist liggja tónlistinni að baki og skína óljóst í gegnum hana eins og draugaraddir. Á óljósari hátt verður manni hugsað til Boards of Canada og annara Warp banda og íslensk ökt eins og Múm og Klive koma einnig til greina. Hugsanlega mætti kalla þetta post-rock skotna elektróník.  Svona gæti ég haldið áfram en ég er hvorki viss um að allir yrðu sammála mér né um að tengingar mínar séu “réttar”, vegna þess að þessi skífa passar ekki nákvæmlega inn í þá flokka og merkmiða sem að eru á mínu tónlistarlega þekkingar- og þægindasviði.

Snúum okkur að tónlistinni, Mount Kimbie gera opna og víða raftónlist, lífræn hljóð eru aftengd uppruna sínum með lúppum og endurtekningum og kallast á við rafrænari tóna, bergmál og skruðningar liggja yfir öllu saman og óskýr og óskiljanlegur söngur ómar að handan. Þetta er ekki danstónlist, a.m.k. ekki fyrir þá dansstaði sem ég sæki heim. En þetta er falleg og örlítið melankólísk tónlist til heimahlustunar eða í göngutúrinn, svolítið vetrarleg og því viðeigandi að hún rati í verslanir á köldustu mánuðum ársins. Titillagið “Maybes” fer í gang með einföldu rafmagnsgítar riffi sem bergmálar einmannalega þangað til letilegur takturinn sem hljómar líkt og hann sé leikin á eitthvað allt annað en trommur fer af stað. Upp pitchaðar raddir eru bjart mótvægi við gítarinn og detta inn sem laglína yfir grunninn sem hann leggur.

“William” hefst á skruðningum sem hljóma líkt og lagið sé leikið af gamalli mikið spilaðri plötu, píanó- og strengjahljómar bergmála fram og aftur og eru klipptir sundur og saman líkt og hoppað sé fram og aftur í tónverki. Letileg bassatromma dettur svo inn og kringum hana er skemmtilegur taktur ofin úr hinum ýmsu umhverfishljóðum. Stuttur ógreinanlegur söngkafli kemur dettur skyndilega inn og út, í óvæntri fráveru sinni bergmálar hann aftur og aftur í huganum út lagið.

Í “Taps” koma Shackleton tengslin sem ég minntist á fram, taktar og tónar mætast og takast í einskonar keppni. Samskonar taktaleikfimi er áberandi í “Vertical”, feedback skotinn og hrjúfur synthi hittir fyrir ónákvæman ásláttarhljóðfæraleik og í seinni hluta lagsins mynda þau í sameiningu grunn undir melódísku en barnalegu hjali sem lúppar út næstu mínútur.

Þótt þessi skífa kunni að liggja í dubstep hraða, í kringum 140 bpm, efast ég um að hún muni mikið rata í spilun hjá plötusnúðum þess geira. Ég er hins vegar viss um að þetta er fyrirtaks elektrónísk tónlist og að hún hefði að öllum líkindum farið fram hjá mér ef Scuba hefði ekki fundið henni heimili á Hotflush. Í því sannast hvaða hlutverki góð útgáfufyrirtæki gegna með því að taka upp á sína arma góða tónlist, sem þeir telja að eigi erindi til hlustenda sinna jafnvel þótt þar sé sveigt framhjá þeim stefnum eða geirum sem útgáfufyrirtækin eru alla jafna tengd við.

-Karl Tryggvason  | ktryggvason@gmail.com

Tóndæmi
Juno Player

Kaupa
plötu: Juno | Phonica | Boomkat
mp3: Beatport

Mount Kimbie á Myspace