Á morgun verður Alþjóðlegi Plötubúðadagurinn haldinn hátíðlegur í 4. skipti, en eins og nafnið bendir til er þessi dagur tileinkaður óháðum plötubúðum og þeirri menningu sem í kringum þær ríkir. Hér á litla Íslandi halda verslanirnar Havarí, Bankastræti og Lucky Records, Hverfisgötu upp á þennan dag með tónlistartengdri dagskrá ýmis konar. DansiDans hvetur fólk til þess að líta við, gera sér glaðan dag og jafnvel að versla sér smá músík í fýsísku formi.
Annars er umræða um stöðu og framtíð plötubúða svo margtugginn í fjölmiðlum, spjallborðum og bloggum og maður veit ekki hversu miklu maður hefur við að bæta. Sjálfur sakna ég almennilegrar plötubúðar helgaðari raf- og danstónlist í Reykjavík en held að það sé engan veginn rekstrargrundvöllur fyrir neitt slíkt (þ.e. búð sem höfðar til plötusnúða og tekur reglulega inn nýjar sendingar af vínyl).
Held almennt að viðskipti muni færast meir og meir á netið. Enn sér ekki fyrir endann á þeirri grisjun sem fer fram í plötubúðaflórunni, þær búðir sem munu lifa af eru stóru vöruhúsin (t.d. Juno og Chemical), sérhæfðari verslanir (t.d. Boomkat) og svo goðsagnakenndar stórborgaverslanir á borð við Hardwax, Black Market og Vinyl Junkies. Litla, vinalega plötubúðin (sem sérhæfir sig í plötusölu, en er ekki með það on the side við klippingar eða café au lait) í minni borgum mun á flestum stöðum hverfa á braut. Hins vegar verður eflaust alltaf ágætis bisness á Ebay, Discogs og í 2nd hand búðunum.
p.s. með þetta allt saman í huga er hér skemmtilegur leikur sem kom upp í spjalli um daginn, þegar maður hlýðir á plötusnúð á skemmtistað getur verið gaman að spyrja sjálfan sig „hefði þessi snúður keypt þetta lag á vínyl í Þrumunni?“.