Greinasafn fyrir merki: tónlist

Tónlistartímaritið Muzik

Um daginn rakst ég á vefsíðu tónlistartímaritsins Muzik sem var gefið út á árunum 1995-2003. Ég á margar góðar minningar um Muzik, keypti svo til hvert tölublað á tímabili og höfðu greinar, skrif og gagnrýni þess mikil áhrif á mig. Muzik var ásamt Undirtónum og Knowledge ein helsta upplýsingaveita mín um nýja tónlist og gagnrýna umfjöllun um lífstílinn og menninguna sem tónlistinni fylgdi. Mér þótti Muzik alltaf á hærra plani en t.d. Mixmag (með myndir af berum stelpum og greinar um „how to get twatted in Ibiza“) og hafa skemmtilegri efnistök en DJ Mag. Það var einna helst Jockey Slut sem stóðst Muzik snúninginn að mínu mati en það var oft illfáanlegt í bókabúðum höfuðborgarinnar.

Muzik

Þessi tímaritskaup mín voru auðvitað fyrir tíma internetsins, en hún er margtugginn klisjan um hversu mikið internetið hefur breytt gangi mála. Ég minnist þess oft að lesa um lög eða plötur og reyna að gera mér í hugarlund hvernig þau hljómuðu útfrá lýsingum og myndum. Þegar maður svo komst yfir tónlistina í útvarpi eða Þrumunni löngu síðar var tónlistin auðvitað allt önnur en sú sem hafði ómað í ímyndun manns.

Ástæðan fyrir þessari færslu er annars sú að hægt er að ná í öll tölublöð Muzik á pdf formi á vefsíðu þeirra. Þannig er hægt að rifja upp gamla tíma eða kynnast þeim í fyrsta sinn. Það er allt öðruvísi að lesa samtímaheimildir heldur en að skoða fortíðina í gegnum nostalgíugleraugun góðu. Tímans tönn fer misvel með skrif Muzik manna, en það getur verið fróðlegt að skanna skrif þeirra um liðna tíma og gamlar hetjur. Mæli með því!

Last.fm kryfja vinsældarlistana

Flest tónlistarumfjöllun er, eðli málsins samkvæmt, huglæg. Samtöl, rökræður, gagnrýni og umfjöllun um tónlist getur verið rökum stutt og byggð á þekkingu eða tæknilegri færni en veltur á endanum oft á huglægu mati. Gæði og gildi slíkra skoðana er efni í margar færslur en í þessari færslu langaði mig að líta á gagnadrifina og hlutlæga tónlistarkrufningu Last.fm teymisins.

Last.fm, fyrir þá sem ekki vita, er vefþjónusta tengd tónlist. Hægt er að skrá sig á last.fm og nota þjónustuna til þess að halda utan um stafræna tónlistarhlustun sína. Í framhaldinu getur maður skoðað tölfræði og kynnst nýrri tónlist byggt á þeirri sem maður hefur áður hlustað á. Undanfarna mánuði hafa Last.fm matað tölvurnar sínar með 15,000 lögum af breska vinsældalistanum á árunum 1960 til 2008 og greint hlutlæga eiginleika tónlistarinnar. Tölvurnar hafa svo metið hraða, dýnamík, tóntegundir, breytingar í sveiflu og fleira tónlistartengt sem hægt er að mæla á hlutlægan hátt. Niðurstöðurnar úr þessari greiningu Last.fm eru um margt forvitnilegar og hafa þeir útlistað hluta þeirra á blogginu sínu.

Í fyrsta hluta benda last.fm á hvernig ryþma og slagverksdrifin tónlist hefur vaxið og minnkað í vinsældum í gegnum áratugina. Það sést t.d. glögglega á meðfylgjandi grafi. Diskó, einhver? Í öðrum hlutanum líta þeir á hversu flókin lög eru í tónblæ og hljómsetningu og kemur kannski ekki á óvart að pönkið skorar hátt í hvorugu. Í þriðja kafla frásagnarinnar af rannsókn þessari er litið til takfestu og hraða, þar virðast trommuheilar og önnur tækni hafa haft sín áhrif síðustu áratugi. Þá hafa gagnarýnar last.fm litið á hin svokölluðu „loudness stríð“ en því hefur verið haldið fram að dýnamík í tónlist sé að víkja fyrir alltumlykjandi kröfu um mikin hljóðstyrk og hversu algengar hálftóna „gír skiptingar“ eru í popp tónlist, enda öflugt (en kannski soldið ódýrt) trikk.

ryþma- og slagverkskraftur í tónlist vinsældalistanna (tekið af last.fm)

Þessi hraðsoðna samantekt mín gerir rannsóknum Last.fm síður en svo full skil og mæli ég með að fólk skoði greinar þeirra. Þá mæli ég með last.fm scrobblernum fyrir tölfræðinördana þarna úti, maður getur komist að ýmsu fróðlegu um hlustunarmynstur sitt með þeim hætti. Með vaxandi tækni- og tölvuvæðingu samfélagsins mun svona hlutbundin umfjöllun, byggð á raunverulegum gögnum, eflaust riðja sér til rúms á fleiri sviðum. Það getur verið gagnlegt og skemmtilegt, en hið huglæga ætti maður þó ætíð að hafa fast í huga.

Verndaðu heyrnina

Flestir sem þessa síðu lesa kannast eflaust við ýmsa fylgifiska þess að hlusta of hátt á tónlist í lengri eða styttri tíma. Hver hefur ekki vaknað “daginn-eftir” með ýlfur eða suð í eyrunum eða bara hálf heyrnarlaus. Öll ættum við auðvitað að vita að þetta er ekki gott fyrir heyrnina né eyrun, og sömuleiðis ættum við að muna að þegar þessi viðkvæmu skynfæri okkar skaddast er sá skaði oftast óendurkvæmur.

Í nafni lýðheilsu danstónlistarunnenda og annara hafði DansiDans því samband við Ellisif Katrínu Björnsdóttur heyrnarfræðing og eigenda Heyrnar sem sérhæfir sig í þjónustu til þess að bæta úr heyrnarskerðingu. Spurðum við Ellisif út í ýmsar sögur og sögusagnir um heyrnarskaða og hvernig maður mætti varðveita heyrnina fram á elli árin.

Farðu vel með eyrun þín (Mynd: Banlon1964)

DansiDans[DD]: Hvað er heyrn?
Ellisif Katrín [EKB]: Heyrn er skynjun en við gleymum oft mikilvægi hennar. Að heyra hljóð eins og tónlist, mal kattar, suð í flugu eða hjal smábarns hefur tilfinningalegt gildi. Að geta haft samskipti við annað fólk er grunnþörf flestra og það sem við lifum fyrir. Án heyrnar er lífið allt annað. Því er mikilvægt að passa vel og vernda þessa fullkomnu en viðkvæmu skynjun.

DD: Hvað er hávaði og hvernig skaðar hann heyrnina?
EKB: Hljóðstyrkur er kallaður hávaði ef hann er það mikill að hann getur skemmt heyrnina. Heyrnarskerðing er einn algengasti atvinnusjúkdómurinn í okkar iðnvæddu veröld.

Verði einstaklingur fyrir miklum hávaða getur hin viðkvæma bygging innra eyrans skemmst. Ef það gerist hefur hann orðið fyrir varanlegri heyrnarskerðingu sem getur bæði orðið af völdum mikils hvells, s.s. sprengingar, og viðvarandi hávaða.

Fólk í dag er mjög ómeðvitað um þær hættur sem of mikill hljóðstyrkur getur valdið á heyrninni. Rangmæli eru á kreik um að ef maður fílar tónlistina þá geti hún ekki valdið neinum skaða. Þetta er alrangt, er svipað og að segja að ef manni finnst eitthvað gott á bragðið að þá sé það ekki óholt.

Hávaði skemmir fyrst skynhárin neðst í kuðunginum en þar er hátíðni greind, efst uppi er lágtíðnin/bassinn greindur og skemmist hann síðast.

Í um 90% tilfella er um skynheyrnarskerðingu að ræða. Orsakir hennar eru oftast þær að hin örfínu skynhár í innra eyranu hafa annaðhvort brotnað eða skaddast. Skynhárin nema hljóðbylgjur og breyta þeim í rafboð sem berast til heilans um heyrnartaugina en heilinn túlkar rafboðin sem hljóð.

DD: Hefur hávaði einhver önnur áhrif á heilsu?
EKB: Hávaði er slæmur heilsunni, líkaminn spennist upp og fer í varnarstöðu, blóðþrýstingur hækkar og að vera í hávaða í lengri tíma veldur mikilli þreytu og minnkar einbeitningu.

Það getur verið háð erfðum hversu mikinn hávaða einstaklingar þola, sumir eru mjög viðkvæmir og hafa lægri sársaukamörk en aðrir. Ekki er hægt að dæma um það fyrirfram hversu mikinn hávaða maður þolir.

Rangmæli eru á kreik um að ef maður fílar tónlistina þá geti hún ekki valdið neinum skaða. Þetta er alrangt, er svipað og að segja að ef manni finnst eitthvað gott á bragðið að þá sé það ekki óholt.

DD: En tinnitus? Hvað er tinnitus og er hægt að lækna það?
EKB: Eyrnasuð/tinnitus er oft fylgikvilli heyrnarskerðingar en það er ýlfur eða sónn í eyrum eða höfði. Eyrnasuðið getur horfið, en er oft sleitulaust eða kemur og fer tímabundið alla ævi.

Hvernig má verjast þessum fylgikvillum hávaðans?
Til eru nokkrar gerðir af búnaði, sem velja má um, til að hlífa heyrninni. Þessi búnaður er mismunandi allt frá hefðbundnum frauð- eða silíkontöppum og heyrnarhlífum, sem loka næstum á allt hljóð, til heyrnarsía sem dempa skaðlegan hávaða án þess að breyta blöndun og tónblæ hljóðsins, þær dempa allar tíðnir hljóðs álíka mikið.

Hjá Heyrn er boðið upp á bæði sérsmíðaðar síur og staðalsíur en báðar gerðirnar er þægilegt að nota. Heyrnarsíur henta vel fyrir þá sem þurfa að verjast hávaða svo sem fyrir stóriðjustarfsmenn, atvinnutónlistarfólk, hljóðmenn, tannlækna, hljómleikagesti, vélhjólamenn, iðnaðarmenn, vélstjóra, flugmenn o.fl.

(Mynd Vísindavefurinn)

DD: Hvaða hlutverk spilar notkun heyrnartóla og vasadiskóa/ipodda?
EKB: Hægt er að finna á netinu rannsóknir sem gerðar hafa verið á heyrn þeirra sem nota Ipod og MP3. Niðurstöðurnar eru ætið þær að heyrnin skemmist við notkun á þessum tækjum. Viðvaranir hafa verið gefnar út allt frá árinu 1980 um skaðsemi heyrnartóla og sérstaklega litlu inn í eyra heyrnartólanna.

Langvarandi notkun spilara og hár hljóðstyrkur skemmir heyrnina. Hlustendur eiga það til að stilla spilara of hátt þegar einhver bakgrunnshljóð eru og geta við það náð sársaukamörkum. Það er betra að nota heyrnartól með spöngum heldur en þau sem fara inn í eyrun. Gallinn er að hlustendurnir eru að hugsa meira um útlitið heldur en heyrnina sína.

Ipod sem seldur er í Evrópu á að hafa innbyggt hámark í spilurunum en gallinn er sá að margir taka það af til að geta spilað hærra. Slíkt ætti engin/nn sem vill halda heyrninni óskemmdri að gera.

DD: Hvaða ráð myndir þú gefa tónlistarfólki og plötusnúðum til þess að forðast þær hættur sem starfsumhverfi þeirra býður heim?

EKB: Þau ráð sem tónlistarfólk og plötusnúðar ættu að hafa í huga er að halda hljóðstyrknum í hófi og vera með heyrnarsíur. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á stjórnendum tónlistar og mikilvægt að verða ekki valdur að því að aðrir verði heyrnarskertir. Mikil lífsgæði tapast þegar maður missir heyrnina.

Verndaðu heyrnina á meðan þú hefur hana!

DansiDans þakkar Ellisif fyrir upplýsingarnar. Því má svo að lokum við bæta að undirritaður fjárfesti í sérsniðnum heyrnarsíum/eyrnartöppum hjá Heyrn fyrir um tveim árum og er það einhver besta tónlistartengda fjárfesting hans undanfarin ár. Allt annað líf að fara á tónleika og skemmtistaði þegar maður hefur þann valkost að “lækka” örlítið í tónlistinni. Mæli hiklaust með því að skoða slíkt fyrir þá sem kenna sér meins vegna hávaða.

-Karl Tryggvason | ktryggvason@gmail.com

Plötusnúðaheyrn

Einn af leiðinlegri fylgifiskum þess að vera plötusnúður eða pródúsent er að þróa með sér það sem ég kýs að kalla plötusnúðaheyrn eða plötusnúðaeyra. Fyrir fólk með plötusnúðaheyrn gegnir tónlist öðru hlutverki en fyrir fólk almennt, hlutverki sem tengist starfi eða áhugamáli plötusnúðsins.

Tónlist hættir að vera list sem er einungis til upplýsingar, yndisauka eða skemmtunar og sætir í stað þessi sífelldri greiningu og gegnir öllu hagnýtara hlutverki. Einstaklingur með plötusnúðaheyrn yfirheyrir því sem næst alla tónlist sem hann kemst í kynni við, í hugarskoti hans leynast óteljandi spurningar um tónlistina sem er í gangi.

Þannig spyr plötusnúðaheyrandinn sig hvort það mætti lúppa eða sampla þessu lagi? Á hvaða tempói/bpm er tónlistin? Myndi þetta virka á dansgólf? Ætli það sé hægt að nálgast hana á vínyl? Í hvaða tóntegund er þetta lag? Mætti mixa þetta við aðra tónlist? Og svo mætti lengi telja.


Hlustaðu (mynd e. Alex//Berlin as photography)

Sá sem er með plötusnúðaheyrn er því ávallt að máta tónlistina við plötusnúðahlutverkið, þannig er hætta á því að önnur svið tónlistarnautnarinnar víki og er það miður. Geri ég mér í hugarlund að svipaðar hlutir geti komið fyrir annað „alvöru“ tónlistarfólk.

Athugið að ég er ekki að halda því fram að plötusnúðar njóti ekki tónlistar, að þeir hafi ekki gaman af henni eða þyki ekki vænt um hana. Heldur að starf þeirra geti gert það að verkum að þeir nálgist og hlusti á tónlist með öðrum og minna „hreinum“ hætti. Að það hvernig plötusnúðar „hagnýta“ tónlistina hafi varanleg áhrif á hvernig þeir neyti hennar. Því held ég að það sé verðug áminning til plötusnúða að skilja plötusnúðaeyrun stundum eftir, að reyna að setja minna funktíónal þætti tónlistarinnar í fyrsta sæti og njóta hennar á hreinni hátt. Spyrja sig frekar að því hver hafi verið ætlun tónskálds, hvaða tilfinningar er verið að tjá og hvaða tilfinningar vakna í brjósti manns sem hlustanda. Nú eða að sleppa spurningum og greiningum og hlusta bara. Það er gott að hlusta.

-Karl Tryggavson | ktryggvason@gmail.com