Greinasafn fyrir merki: upptökur

Hliðrænt í Stafrænt – Plötuupptökur Bjögga Nightshock

Síðustu færslur hér á DansiDans hafa fjallað um vínylást og plötusöfnun en því verður ekki neitað að þrátt fyrir alla sína kosti er vínyllinn ekki jafn handhægur og hin ýmsu stafrænu skráarsnið sem hafa rutt sér til rúms á undanförnum árum. Af þeirri ástæðu og ýmsum öðrum hafa margir lagst í það verkefni að koma skífum sínum á stafrænt form á síðustu árum; plötusnúðurinn Bjöggi Nightshock er í þeim hópi. Bjöggi hefur á undanförnum árum lagt mikinn tíma og vinnu í slíkar upptökur og er fróðari en margur um málefni þessu tengt. DansiDans fór á stúfana og spurði Bjögga spjörunum úr um plötuupptökur.

Hvernig kom það til að þú fórst að taka upp plöturnar þínar (og annarra) í stórum stíl?
Það er svo langt síðan ég byrjaði að taka upp plötur að ég man ekki lengur af hverju ég byrjaði. Það er auðvitað mjög þægilegt að geta sett saman playlista með fullt af lögum og hlustað í stað þess að vera kannski með 20 plötur á gólfinu og svo setja hverja plötu á fóninn.

En einhvern veginn varð þetta að risa stóru áhugamáli og maður hreinlega festist í þessu. Svo þegar maður er kominn með plötusafn upp á 1500 plötur þá er þetta einnig mjög fín leið til að „kynnast“ plötunum.

Hvaða græjur ertu að nota í augnablikinu?
Ég nota „moddaðan“ Technics 1200MK2 spilara. Fyrst var vökvadempari sem er fylltur af sílikoni settur á tónarminn. Hugmyndin bakvið það er að nálin helst betur í grúvinu þó svo að platan sé ekki endilega slétt (sem fæstar plötur eru) og minnkar alla mótstöðu sem er mjög mikilvægt þegar nálin er stillt á rétta þyngd.

Svo var settur mjög fínn koparvír inn í tónarminn sem er svo leiddur út á plötu bakvið spilarann og tengt svo í Ecler Nuo 2.0 mixer sem er svo tengdur í Lynx L22 hljóðkort í tölvunni.

Allt er svo rétt stillt eftir leiðbeiningum. Tónarmurinn þarf að vera í réttri hæð, nálin þarf að vera í réttri lengd frá tónarminum, anti-skate þarf að vera stillt í samanburði við þyngdina á tónarminum og svo framvegis. Þetta er allt breytilegt miðað við hvað maður er með.

Ég hlusta á allar upptökur í Sennheiser HD650 heyrnartólum sem eru keyrð af Creek OBH-11 headphone magnara.

Hvernig pickupp notarðu?
Ortofon 2m Bronze. Mjög fínn pickupp sem er með mjög mjórri nál sem er til þess að hún komist dýpra í plötuna og þar af leiðandi í svæði sem eru kannski alveg ósnert af öðrum nálum. Ég valdi hann þar sem að mig vantaði mjög góðan pickupp í upptökur sem myndi einnig endast mjög lengi.

Hvernig geymirðu upptökurnar? Mp3? Wav? Flac? Ertu með backup?
Fyrst voru upptökurnar geymdar sem 64kbit Mp3 skrár og voru teknar upp á +6 eða +8 svo lögin væru styttri. Svo eftir því sem diskapláss stækkaði þá stækkuðu gæðin líka. Í dag geymi ég upptökurnar sem 96khz 24bit Flac skrár og finnst það vera í raun meira en nóg! Ég hef stóran hluta af safninu á 320 Mp3 formi á flakkara en stefni á að skipta því yfir í Flac á endanum.

Hvernig er ferlið í kringum upptökur hjá þér?
Fyrst er platan hreinsuð, ef það er eitthvað um puttaför eða platan er augljóslega drullug þá er hún þrifin í köldu vatni með sápu og látin þorna í nokkra klukkutíma eftir að búið er að þurrka plötuna. Ef mikið af stöðurafmagni á plötunni þá nota ég sérstakan vökva til að losna við það. Ef ég þarf ekki að þvo plötuna þá nota ég límbandsrúllu sem ég fann á Chemical Records til að „rífa“ rykið af plötunum, svínvirkar! Ég hef prófað svona vökvasprey sem á að leysa upp drullu af plötum en hef ekki fengið neitt voðalega góðar niðurstöður af þeirri notkun.

Nálin á pickuppnum er hreinsuð fyrir og eftir hverja plötu með bursta sem fylgdi með honum. Það safnast alltaf eitthvað af ryki og drullu á nálina alveg sama hversu hrein platan er og ef þetta er ekki fjarlægt þá bæði dreyfir þetta meiri drullu á næstu plötur og festist á nálinni sem gerir það að verkum að hún fer að hljóma verr. Það eru til vökvalausnir sem hreinsa skítugar nálar en ég er ekki mikið hrifinn af því.

Hvert lag er svo tekið upp í Adobe Audition eins hátt og hægt er án þess að hljóðið fari að bjagast. Eftir að lagið er tekið upp skoða ég lagið með frequency analyzer til að finna út hvort að það sé mikill hávaði frá plötunni sjálfri í upptökunni og svo lagið bútað niður í kafla og hent í forritið DenoiseLF sem fjarlægir tíðnir á bilinu 20-220hz, það fer allt eftir laginu hversu mikið er fjarlægt og á nýjum plötum er nánast ekkert fjarlægt þar sem að þetta er mest áberandi á gömlum mjög spiluðum plötum og picture diskum. Eftir að búið er að fjarlægja lágtíðnir sem eru ekki hluti af laginu þá er lagið sett í gegnum Clickrepair ef það er eitthvað um rispur í laginu. Eftir það er lagið sett saman aftur og svo hlustað á það til að gá hvort að ég hafi misst af einhverju og hvort þetta hljómi ekki bara ásættanlega.

Hvað ertu búinn að taka upp mikið af tónlist?
Ég held að ég hafi byrjað að taka upp árið 2000. Ef ég tel með öll skiptin sem ég hef tekið upp frá grunni þá hef ég tekið upp alveg mörg þúsund lög (kannski hátt í 10.000). Það er alveg gríðarlegur tími sem er búinn að fara í þetta.

Fyndist þér svindl að stela bara upptökunum (t.d. torrent eða eitthvað slíkt)
Það hjálpar mér mjög lítið þar sem ég veit ekkert um gæðin á þeim og ég vill hafa lögin í sömu gæðum. 320 mp3 passar ekki alveg inni í safn af 96khz 24bit Flac skrám. Ef það væri einhver þarna úti sem væri með nákvæmlega eins setup og ég og væri búinn að taka upp allar plöturnar í safninu mínu þá myndi ég sennilega „stela“ þeim.

Hvað notarðu til þess að halda utan um upptökurnar, einhvern gagnagrunn? iTunes? Winamp?
Hver plata fær möppu sem er geymd í möppu fyrir hvert og eitt útgáfufyrirtæki. Fyrir stærri label eins og moving shadow sem eru með mörg mismunandi catalog númer þá eru sér möppur til að halda utan um það líka (t.d. MSX, ASHADOW, SHADOWR). Hver mappa byrjar á ártali, svo catalog númeri, listamanni og svo loks titli skífunnar.

Hvaða fylgigögn (metadata) eru með lögunum? Titlar, útgáfur, bpm, artwork?
Titlar, ártal og catalog númer. Fyrir mér er það allar þær upplýsingar sem ég þarf.