The Joy of Discoer skemmtileg heimildarmynd um diskótónlist frá BBC. Það er farið hratt yfir sögu enda komið víða við en þetta er góður inngangur að diskóinu, uppruna þess, endalokum og arfðleið, frá neðanjarðar stöffi yfir í argasta popp. Margir merkilegir viðmælendur t.d. David Mancuso og Nicky Siano.
Mæli með þessari mynd fyrir alla diskótekara og áhugafólk um danstónlist. Eins og vitur maður sagði eitt sinn, „ef þú fílar techno en ekki diskó, þá fílarðu ekki techno“.
Resident Advisor vefritið hefur ásamt fataframleiðandanum Bench ráðist í heimildamyndagerð. Undir nafninu „Real Scenes“ hefur RA hingað til birt þrjár stuttar myndir, en í hverri þeirra er raf- og danstónlistarsena einnar borgar tekinn fyrir. RA ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og voru Bristol, Berlín og Detroit fyrstu viðfangsefnin. Nú er eflaust erfitt að gera svona risum góð skil í stuttri mynd en myndirnar eru engu að síður forvitnilegar og skemmtilegar áhorfs og gefa smá innsýn í þessar borgir og fólkið sem byggir þær. Við mælum með þessu.
Stutt og skemmtileg umfjöllun um pirate-radio stöðvar í Bretlandi, merkileg menning og saga tengd þessu fyrirbæri. Veit einhver hvort útvarps sjóræningjar hafa einhvern tíman spreytt sig á Íslandi?
Fáir tónlistarmenn eru í jafn miklu uppáhaldi hjá Dansidans eins og Ricardo Villalobos eða Kardó, eins og við köllum hann í daglegu tali. Því vakti það mikla lukku í herbúðum okkar að heyra af væntanlegri heimildarmynd um þennan merka tónlistarmann en leikstjórinn Romuald Karmakar stendur að baki þeirri mynd sem hefur einfaldlega hlotið nafnið Villalobos
Trailer þessi er í sjálfu sér ekki ýkja spennandi en þó merkilegt að Karmakar hafi fengið að taka upp efni á Panoramabar sem er alræmdur fyrir harða dyravörslu og algert myndavélabann. Með eins litríkan karakter og Kardó sem umfjöllunarefni er þó ekki við öðru að búast en að mynd þessi verði nokkuð forvitnileg.
Ég varð soldið sár þegar ég sá að heimildamyndin Rafmögnuð Reykjavík fór í sýningar í haust á RIFF og Airwaves hátíðinni. Ég var ekki á landinu og reiknaði einhvern vegin með að það yrði erfitt að berja myndina augum eftir að kvikmyndasýningum lyki. En fyrir tilviljun komst ég að því að hægt er að horfa á myndina í fullri lengd á internetinu.
Um er að ræða heimildarmynd um rafræna danstónlist á Íslandi, senuna sem hefur myndast í kringum hana og sögu hennar. Þetta er fínasta mynd, blandar saman nýjum og gömlum tíma á skemmtilegan hátt og tengir Ísland skemmtilega við það sem var að gerast út í heimi á þessum tíma.
Það er soldið erfitt að dæma um fræðslugildið þar sem að ekki kom mikið fram sem maður vissi ekki áður en eflaust veitir myndin óinnvígðum góða innsýn í heim raftónlistar. Margir skemmtilegir punktar sem koma fram, sjónarmið ýmisra íslenskra frumkvöðla tóna skemmtilega saman og svo er alltaf gaman að sjá upptökur af því hvernig hlutirnir fóru fram í gamla daga. Frábært framtak og góð heimild um liðina tíma!
Þemað í þessu mixteipi eru tónlistarmenn sem eru nafnlausir eða andlitslausir með einhverjum hætti, t.d. með því að að hylja andlit sitt á myndum og á sviði, með því að láta raunverulegt nafn sitt hvergi tengjast tónlistinni eða með því að neita því að koma fram opinberlega.
Kannski soldið samhengislaust tónlistarlega séð, en allt er þetta góð músík engu að síður.
.
1. Drexciya – Hydro Theory Drexciya bjuggu til goðsagnakenndan söguheim í kringum nafn sitt og undir því gáfu þeir út fyrirtaks electro og techno. Undir lokin var það orðið opinbert leyndarmál hverjir stóðu á bakvið nafnið en Drexciya leið undir lok þegar annar meðlimurinn James Stinson lést langt fyrir aldur fram árið 2002. Get ekki sagt að ég sé ofsa vel að mér í tónlist Drexciya, eitthvað sem ég á alltaf eftir að kafa betur í (verðið á plötunum er ekki beint lokkandi samt!), en Hydro Theory er alger banger! (p.s. föttuðuð þið „kafa betur í“ orðaleikinn… hö hö hö!)
.
2. Galaxy 2 Galaxy – Hi Tech Jazz
Underground Resistance hafa merkilega og töff hugmyndafræði, hluti af henni er viðhorf Mike Banks, e.þ.s. Mad Mike, til ljósmynda en hann hylur ávallt andlit sitt þegar hann er myndaður. Þegar ég var yngri hélt ég alltaf að UR hlytu að vera jafn harðir og töff og þeir líta út fyrir að vera á myndum en svo hef ég heyrt og lesið viðtöl þar sem þeir virka sem mestu ljúfmenni, fyrrnefndur Banks þjálfar til að mynda ungmenni í hafnaboltaliði.
.
3. Redshape – The Playground
Ólíkt UR hefur mér alltaf þótt hugmyndafræði Redshape hálf þvinguð og tilgerðarleg, auk þess sem gríman sem hann notar er asnaleg. En tónlistin er góð.
.
4. Burial – Broken Home Áður enn hallærislegur og siðlaus slúðurblaðamaður setti af stað herför til þess að komast að því hver væri á bakvið tónlist Burial vissi enginn hver Will Bevan var. Tónlistinn verður auðvitað ekki verri við það að vita uppruna hennar en samt hefur hin dularfulli sjarmi horfið. Broken Home er eitt af allra bestu lögum Burial að mínu mati.
.
5. Doom – Lightworks Doom hylur andlit sitt með fallegri grímu er hann fer með rímur sínar á sviði. Hefur alltaf þótt hann soldið hit & miss gaur sem á frábær lög inn á milli. „Lightworks“ er tekið af væntanlegri breiðskífu Doom en takturinn var upphaflega á Donuts plötu J Dilla. ..
Bónus! Afefe Iku – Mirror Dance
Sumir héldu að Osunlade væri Afefe Iku en svo er víst ekki. Afefe Iku er víst bara Afefe Iku. Eða hvað? Mirror Dance er allavega rosalegt lag!