Ekki alls fyrir löngu lagði ég leið mína til sænska húsgagnarisans í Garðabæ til þess að versla forláta expedit hillu undir plötusafnið mitt. Í þessa verslunarferð, í það að setja hilluna saman og loks í það að færa plöturnar í nýju hilluna fór næstum hálf helgi. Hillan sjálf er hin ágætasta enda algeng sjón hjá þeim sem hafa plötusöfnun sem hobbí. En þetta ferli allt saman fékk mig til þess að velta vöngum yfir ýmsum plötutengdum málum og varð því kveikja að nördalegum pósti þessum.
Mynd: Mediaeater
Skipulag
Eins og allt hugsandi fólk raða ég í stafrófsröð eftir útgáfufyrirtækjum. Reyndar flokka ég fyrst gróflega eftir stefnum: drum & bass, hardcore og jungle plötur fara saman, house og techno skipa sér í einn flokk, dubstep, garage og grime heyra undir eitt og restin (hip hop, popp, rokk, jazz, pönk, diskó o.s.frv.) er saman í belg og biðu.
Að flokka eftir útgáfum meikar sense, í það minnsta í danstónlist. Ef farið er eftir listamönnum getur verið erfitt að ákveða (og þ.a.l. að finna plötur aftur síðar meir ) undir hvorn listamanninn samvinnuverkefni eða annað slíkt ætti að heyra, auk þess sem margir vinna undir mörgum nöfnum. Þá er, að mínu mati, auðveldara að muna og sjá útgáfu heldur en útgáfuár eða eitthvað slíkt. Þess vegna raða ég eftir útgáfum, white label plötur fyrst, þá label sem byrja á tölustöfum og loks a, b, c, d….
Ef ég á mikið af plötum frá tiltekinni útgáfu raða ég stundum gróflega eftir útgáfunúmer (catalogue no.), en oftast er nógu auðvelt að finna það sem maður leitar af eftir labelinu sjálfu. Hjá spilurunum mínum geymi ég svo tvo kassa sem ég nota undir nýtt dót, plötur sem ég er mikið að spila þá stundina og plötur sem ég er með í láni. Auk þess eru plötutöskurnar oft við höndina og fullar af stuffi sem er í umferð. Mikilvægt er að reyna að taka úr kössum og töskum og raða í hillurnar reglulega.
Umhirða
Persónulega er ég alger böðull, sést það á ófáum skífum mínum og þá sérstaklega á hulstrunum. Er þetta hvimleitt en stundum soldið gaman þar sem minningar tengjast sumum óförunum (sbr frægar partýrispur og minningar á borð við“ah þetta er platan sem að sullaðist á þegar ég var að spila á…“ eða „þetta er coverið sem beyglaðist í flutningunum um árið“).
Maður er þó auðvitað að verða eldri og vitrari auk þess sem batnandi manni er best að lifa. Ætla ég að reyna að ganga betur um vínylinn og er t.d. byrjaður að versla plastumslög utan um plöturnar. Ef einhver veit um góðan stað til þess að versla slíkt eru ábendingar vel þegnar. Það er eins og mig minni að Múlalundur eða Blindravinnustofan hafi einhvern tíman framleitt svona stuff? Annars kosta 50 plastvasar það sama og ein 12″ á Juno og er það verðugt verkefni að koma safninu smám saman í plast.
Reglulega þarf að þurka af eða ryksuga hillurnar sem hýsa vínylinn svo að ryk setjist ekki á skífurnar. Til þess af þurka af plötum nota ég sjálfur bara raka fína tusku eða bara bol eða peysu þá sem maður klæðist þegar platan er sett á fón. Stöðurafmagn er leiðinlegur fylgifiskur plötunnar en mér finnst öll þessi sprey, klútar og burstar sem seldir eru dýrum dómum ekki leysa vandan nógu vel miðað við kostnað.
Yfirsýn
Ég mæli með að eiga einhvers konar gagnagrunn yfir safnið sitt, t.d. fyrir tryggingarmál ef eitthvað kemur upp á. Vefir eins og Discogs og Roll da Beats eru kjörnir fyrir slíkan gagnagrunn, þeir bjóða upp á ýmis konar nördalega tölfræði um safnið þitt auk þess sem maður getur deilt safninu með öðrum söfnurum. Sjálfur á ég úrelt excel skjal með safninu mínu en er alltaf á leiðinni að setja safnið inn á Discogs.
Eitthvert hvimleiðasta vandamálið sem plötunum fylgir er þegar maður setur plötu í misförum í rangt cover, þá getur platan endað hvar sem er í hillunni en upprunalegt og tómt umslagið verður að sorglegum minnisvarða um plötuna týndu. Þegar safnið er orðið meira en nokkur hundruð skífur er leit að týndum plötum leiðindaverkefni, slys af þessu tagi ætti að forðast eftir bestu getu.
Mynd: fensterbme
Sala og kaup
Þegar ég byrjaði að versla vínyl var safnið mitt heilagt, mér fannst eins og þetta tiltekna samansafn platna skilgreindi mig einhvern veginn og væri hluti af mér. Að selja plötur hefði verið eins og að selja börnin sín.
Í dag hef ég skipt um skoðun, mér finnst mikilvægt að grisja úr safninu öðru hverju og eiga frekar fáar góðar plötur en margar ágætar. Það er engin dyggð í því að eiga risasafn sem er fullt af fillerum. Ef þú átt plötur sem þú hefur ekki spilað í mörg ár og sérð ekki fram á að spila á næstu árum, hví ekki að selja þær? Kannski er einhver að leita að nákvæmlega þeirri skífu sem þú vilt losna við og myndi gleðja hann/hana mikið að komast yfir plötuna. Það er svo annað mál að það er eflaust enginn leikur að losna við sumt af því drasli sem maður hefur sankað að sér í gegnum árin… Discogs kemur aftur sterk inn í þessu tilliti, sem og second hand safnarabúðir um víða veröld.
Þessa punkta ætti maður líka að reyna að hafa í huga þegar maður verslar vínyl, sérstaklega á þessum einnota mp3 tímum þar sem lög koma og fara á augnabliki og þegar gengið gerir það að verkum að ein 12″ kostar hátt í 2000 krónur! Þá er mikilvægt að kaupa það sem maður heldur að standist tímans tönn, að versla sígilda klassíkera en ekki dægurflugur. Einnig er rétt að hafa í huga að það er þessi sérstaka blanda af canon efni og sjaldgæfari eða einstakari plötum sem að skapa safn með karakter. Auðvitað eru til essential plötur í hverjum geira sem allir aðdáendur ættu að eiga en það eru þessar minna þekktu skífur sem að skapa manni sérkenni sem plötusnúði og sem safnara.
Athugasemdir?
Auðvitað eru fleiri pælingar tengdar hobbíi af þessu tagi, en ekki dettur mér meira í hug að sinni. Líkt og endranær væri gaman að heyra hugleiðingar lesenda um þessi málefni og þeir sem hafa lagt skónna á hilluna hvað varðar plötusöfnun geta rætt skipulagið á mp3 og geisladiskasöfnun (eða ekki…).